Föstudagur 15.03.2013 - 22:12 - FB ummæli ()

Margaríta og bjánakeppir mánaðarins

__________________________________________________________________________________________

Stjórnarskrártillagan er ekki fullkomin. En það er gamla stjórnarskráin ekki heldur.

Ef út í það er farið eru í gildi margar stórgallaðar lagagreinar á Íslandi, sumar stríða jafnvel beinlínis gegn stjórnarskránni, sumar stríða gegn mannréttindasáttmálum. Engum dettur þó í hug að við eigum bara að hætta að setja lög fyrr en fullkomnar lagagreinar hafa verið samdar. Við fáum seint fullkomna stjórnarskrá en tillagan sem liggur fyrir nýtur stuðnings meiri hluta þjóðarinnar, hún var unnin í ágætri sátt þjóðkjörinna fulltrúa stjórnlagaráðs og það er engin þörf fyrir sérstaka velþóknun liðsmanna Bjartrar framtíðar á henni, hvað þá velþóknun Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokks.

 

Þessari mynd er nú dreift á fb, ég veit ekki hver á heiðurinn af henni

 Þessari mynd er nú dreift á fb, ég veit ekki hver á heiðurinn af henni

Breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur er frábært svar við tilraunum fjórflokksins til að hundsa þjóðaratkvæðagreiðslu. Verðskuldaður löðrungur bæði í andlit svikullar ríkisstjórnar og auðvaldsflokkanna tveggja sem hafa lagt allt kapp á að eyðileggja umbótaferlið sem sett var í gang með stjórnlagaþingi og þjóðaratkvæðagreiðslu um tillöguna.

Magnúsi Orra Schram tókst næstum því að gera sig að fífli mánaðarins með ummælum sínum um að Margrét væri að innleiða „klækjastjórnmál“ á Íslandi. Það mætti bara halda að fjórflokkurinn hefði hingað til ástundað heiðarleika og gagnsæi. Nei, við viljum ekki klækjastjórnmál. Við viljum bara gömlu góðu valdaklíku-, spillingar- og baktjaldamakks-stjórnmálin. Ekki einhverja róttæklinga sem sjá í gegnum skrumið og bregðast við. Það gæti orðið til þess að auka beint lýðræði í landinu. Hvílík skömm!

margaritaEn Magnús Orri hreppir þó ekki titilinn í þetta sinn. Bjánakeppur mánaðarins er tvímælalaust Grétar Mar Jónsson. Auk þess að halda því fram að 17 ára gamall sonur Álfheiðar Ingadóttur, hafi stjórnað þúsundum manna á Austurvelli, eftir hennar fyrirmælum, daginn sem varla heyrðist í klukkum Dómkirkjunnar fyrir hávaða, ruglar Grétar Mar saman atburðum sem áttu sér stað þennan dag og öðrum sem urðu mörgum vikum fyrr þegar hinir svonefndu „nímenningar“ voru handteknir í Alþingishúsinu. Til hamingju Grétar Mar, það þarf sjaldgæfa tegund af asnaskap til að slá Magnúsi Orra við, en þú vinnur.

Ég hef hlegið mikið í dag, svo er Magnúsi Orra og Grétari Mar fyrir að þakka. Dýpra ristir þó kæti mín yfir klækjum Margrétar Tryggvadóttur. Daginn sem stjórnarskrárfrumvarpið verður samþykkt ætla ég að drekka Margarítu. Jafnvel þótt ég þurfi að blanda hana sjálf.

 

__________________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics