Mánudagur 18.03.2013 - 10:55 - FB ummæli ()

Ekki persónukjör en samt persónuleg þingmennska

 

profpistÞegar Borgarahreyfingin ákvað að fara í framboð var ég mjög svekkt. Mér fannst gjörsamlega fráleit hugmynd að ætla að breyta kerfinu innan frá og leysa svo flokkinn upp og það var mér beinlínis áfall að missa jafn öflugan aðgerðasinna og Birgittu Jónsdóttur inn á þing.

Raunin er hinsvegar sú að þingmenn Hreyfingarinnar hafa nýtt tíma sinn á þingi vel og Birgitta hefur sannarlega stundað aktívisma; ekki bara þrátt fyrir að vera þingmaður heldur hefur hún notað þá stöðu sína til þess að vekja athygli á málum sem hafa að mestu verið í höndum aðgerðasinna. Nú stígur hún, ásamt öðru góðu fólki, mikilvægt skref í þá átt að gera ferlið við ákvarðanatöku mun lýðræðislegra en gerist hjá hefðbundnum stjórnmálaflokkum.

Ḿig langar að hafa Birgittu á þingi áfram og mig langar óskaplega að láta reyna á hugmyndir Pírata um stefnumörkun. Vandamálið er bara að mig langar líka að hafa Margréti Tryggvadóttur áfram á þingi (og líst reyndar afskaplega vel á fleira fólk í Dögun) en vegna þessa ömurlega listafyrirkomulags get ég ekki nýtt atkvæðisrétt minn til þess að styðja þær báðar. Þetta væri auðvitað ekkert vandamál ef persónukjör væri í boði.

Borgarahreyfingin afhjúpaði alveg óvart fáránleikann við listafyrirkomulagið. Hugmyndin með Borgarahreyfingunni var sú að leysa sjálfa sig upp þegar hún hefði náð markmiðum sínum en hún raknaði nú bara upp áður en stroffið var fullprjónað. Samt sátu fulltrúar hennar á þingi allt kjörtímabilið.

Það er eitthvað fáránlegt við það að þrátt fyrir að fólk geti gengið úr stjórnmálaflokki daginn eftir að það er kosið á þing sem fulltrúi hans og setið á þingi í eigin nafni í allt að fjögur ár, þá sé samt ekki hægt að kjósa það á þing sem fulltrúa sinna eigin skoðana. Persónukjör er ekki í boði enda þótt þingmennska sé augljóslega persónuleg. Hversvegna er þessi vitleysa ekki aflögð?

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics