Á Facebook hafa feminstar undanfarið dreift skjáskotum af leitarniðurstöðum á google.com sem þeir álíta að afhjúpi kvenhatur og sanni brýna þörf samfélagsins fyrir feminsma. Hér er eitt dæmi:
Af þessu má ráða að það sé útbreitt viðhorf að konur eigi að vera undirokaðar. Önnur skjáskot sýna það sem við teljum að konur eigi að gera og hvað þær þurfi, vilji, geti o.s.frv.
Annað áhugavert dæmi
Hvað segja þessar leitarniðurstöður okkur um afstöðu Íslendinga til málefna Palestínu? Til Ísraelsríkis? Til hernaðar? Segja þær okkur að Íslendingar álíti Palestínumenn herskáa en Ísraelsmenn ekki? Segja þær að Íslendingar styðji hernámið? Eða eitthvað allt annað? Eða ekki neitt? Tillögur óskast.
Túlkun en ekki staðreynd
Leitarniðurstöður á google.com gefa einhverjar vísbendingar um eitthvað. Vísbendingar um það hverju við sýnum áhuga, hvaða orðfar er okkur tamt og áreiðanlega líka eitthvað um ríkjandi viðhorf. En hvað það nákvæmlega er sem niðustöðurnar sýna er ekkert óumdeilanlegt. Gúggull er Biblía nútímans. Þær ályktanir sem við drögum af leitarniðurstöðum segja meira um hugarheim okkar en veruleikann. Það er hægt að „sanna“ hvaða þvælu sem er með því að birta leitarniðurstöður og túlka þær að eigin geðþótta.
Auk þess býður þessi aðferð upp á það að velja forsendurnar eftir á. Ég gerði t.d. smá tilraun í morgun. Ég ætlaði að slá inn „karlar ættu“ en áður en ég náði að slá inn seinna orðið fékk ég upp bráðskemmtilega mynd. Prófið að slá inn „karlar“ og svo orðabil og sjáið hvað gerist.
Ójá, síða eftir síðu með umfjöllun um svarta listann hennar Hildar. Þegar ég sló inn allan strenginn „karlar sem hata konur“ fékk ég 291.000 niðurstöður. Tvöhundruð-níutíu-og-eittþúsund.
Hata karlar konur svona óskaplega mikið? Eða er íslenskt samfélag með kvenhatur á heilanum?
Karlar ættu ekki að…
Konur ættu ekki að kjósa, aka bíl eða njóta mannréttinda. Okkur finnst það í alvöru, gúggull segir það. Feministahreyfingin segir það líka og ég er viss um að það er hægt að sanna það með Biblíunni. Og karlar, hvað ættu þeir að láta ógert?
Já, þannig hljómar hið heilaga orð. Að vísu þykir sjálfsagt mál að karlar nauðgi konum. Feminstar segja að okkur finnst það svo það hlýtur að vera satt. Gúggull gefur líka á bilinu 250.000-350.000 niðurstöður (eftir því hvernig tungumálaleitin er stillt) ef maður slær inn „karlar hafa rétt til að nauðga.“ Við viljum hinsvegar ekki hafa það að karlar kvænist, gráti, drekki soyamjólk eða berji konur. Við viljum bara leyfa körlum að nauðga konum, ekki berja þær eða kvænast þeim. Að vísu þarf maður að fletta ansi langt aftur til að finna tengil þar sem það viðhorf kemur fram að nauðganir séu réttmætar en skiptir það nokkru máli?
Og um hvað snúast svo allar þessar kvenfjandsamlegu niðurstöður?
Það er áhugaverð dægradvöl að skoða leitarniðurstöður á google því það hvernig við tölum segir eitthvað um það sem við hugsum. Hinsvegar hefur þeim sem dreifa skjáskotum af því sem gúggull segir um viðhorf til kvenna láðst að geta þess að stór hluti þeirra tengla sem niðurstöðurnar vísa á eru feminiskar greinar um það hvað þessi viðhorf séu mikið vandamál, greinar um sögu kvennabaráttu og ýmislegt annað sem bendir síður en svo til kvenfyrirlitningar. Hér eru tenglar á efstu greinarnar sem ég fékk upp fyrir hverja niðurstöðu sem birtist í skjáskotinu efst í þessari færslu:
Women shouldn’t have rights – Stúlka sem er að æfa sig í ræðumennsku leitar að rökum með litlum árangri
Women shouldn’t vote – Söguleg umfjöllun um baráttu kvenna fyrir kosningarétti
Women shouldn’t work -Biblíutúlkun sem á að afsanna þá hugmynd að biblían boði kvennakúgun
Women shouldn’t box – Greinarhöfundur telur hnefaleika hvetja til árásargirni og finnst óþarfi að sterkar og sjálfstæðar konur sanni sig með því að taka upp ósiði karla.
Ekki nóg að gúggla
Þótt gúggull gefi aðeins upp tvær leitarmiðurstöður ef maður slær inn „herskáir Ísraelsmenn“ merkir það ekki að Íslendingar líti almennt á framgöngu Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og Gaza sem friðsamlega og lögmæta. Þvert á móti hefur umræða síðustu ára einkennst af samúð með málstað Palestínumanna. Hvort við gerum eitthvað meira en að tala er svo annað mál en það er efni í annan pistil.
Segja leitarniðurstöður á google eitthvað um ríkjandi kvenhatur eða þurfum við að skoða þá tengla sem við fáum upp til þess að geta sagt eitthvað af viti? Eða skiptir kannski meira máli að dreifa þeirri hugmynd að konur séu kúgaðar en að segja eitthvað af viti um valdatengsl kynjanna?