Þriðjudagur 26.03.2013 - 15:56 - FB ummæli ()

Kartöfluhýði Brynjars Níelssonar

_________________________________________________________________________________

Sama dag og skýrsla starfshóps um Guðmundar og Geirfinnsmál kemur út, taka menn til við að dreifa tveggja ára gamalli grein Brynjars Níelssonar um Guðmundar og Geirfinnsmálin á netinu. Grein sem virðist eiga að vera einhverskonar varnarskjal fyrir lögreglu og dómstóla. Bendir hann á nokkrar staðreyndir sem lágu til grundvallar dómum yfir sakborningum í þessum málum auk þess sem hann fullyrðir:

Við höfum enga ástæðu til að ætla að rannsakendur hafi viljað koma sök á saklaust fólk í máli þessu og sætir furðu að það skuli hvarfla að nokkrum manni.

Það sem Brynjar tekur ekki fram

Brynjar sleppir því alveg að geta þess að Geirfinnsmálið varð að pólitísku máli. Þáverandi dómsmálaráðherra var ásakaður um að hafa haft afskipti af rannsókninni og þetta varð hitamál í þinginu. Rannsakendur höfðu kannski ekki sérstaka ástæðu til þess að vilja koma sök á saklaust fólk en þjóðin vildi blóð og dómsmálaráðherra heimtaði niðurstöðu. Rannsakendur höfðu því ærna ástæðu til þess að vilja finna sökudólg, einhvern sem mætti dæma og refsa. Sekt eða sakleysi varð aukaatriði og eins og settur saksóknari, Ragnar Hall, orðaði það, þá voru sakborningar í þessum málum „engir kórdrengir, sóttir inn í fermingarveislu“. Þeir voru glæponar, Vítisenglar sinnar kynslóðar og bara fínt að losna við þá af götunni. Það sætir því hreint engri furðu þótt margir telji meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála dómsmorð.

Brynjar veit auðvitað að það sem skiptir mestu máli er ekki hversu langur tími líður þar til játningar koma fram, heldur það hversu trúverðugar þær eru. Hann getur þess ekki að ýmsar játningar komu fram sem auk þess að vera samhljóða geta enganveginn staðist og má merkilegt teljast að fólk sem situr í einangrunarvist hafi fengið sömu hugmyndir að sömu ósannindunum á sama tíma. Að mati starfshópsins eru játningar allra sakborninga ótrúverðugar, það er bara þannig.

 

dee0ae4639ae5166

Sönnunargögnin sem Brynjar nefnir sanna ekki neitt

Auk hinna vafasömu játninga nefnir Brynjar nokkrar aðrar sannanir sem lágu til grundvallar dómunum. Engin þeirra heldur vatni.

Það er engin sönnun fyrir manndrápi þótt maður sem tveimur árum síðar staðfestir að hafa séð mann í húsi (sem gat þó ekki lýst fyrr en eftir að hafa farið þangað í vettvangsferð) tiltekið kvöld, sem „geti vel verið“ að hafi verið hinn látni, maður sem auk þess var undir áhrifum ofskynjunarlyfja í umrætt sinn.

Það er engin sönnun fyrir manndrápi þótt maður sem veit ekki einu sinni á hvernig bíl hann var staðfesti að hafa tekið upp puttaferðalang og því síður þegar hann gjörbreytir sögu sinni til samræmis við tilgátu lögreglunnar.

Það er heldur engin sönnun fyrir manndrápi þótt sakborningur hafi ekki fjarvistarsönnun og Brynjari mun einnig kunnugt um að hinar röngu sakargiftir á hendur fjórmenningunum stóðu í sambandi við það að Sævari hafði verið talin trú um að Erla óttaðist um líf sitt. Rangfærslur sem bornar eru fram af slíkri örvæntingu sanna hvorki manndráp né ásetning um að koma sök á aðra auk þess sem margt bendir til þess að lögreglunni hafi verið í mun að bendla Klúbbsmenn við hvarf Geirfinns.

Engin hnotskurn

Reifun Brynjars á málinu er ekki nein „hnotskurn“ heldur í besta falli næfurþunnt kartöfluhýði sem flettist nánast sjálfkrafa af um leið og maður snertir við því. Brynjar Níelsson hefur margsinnis bent á mikilvægi þess að dómstólar virði þá grundvallarreglu réttarríkisins að maður skuli teljast saklaus nema sekt hans sé hafin yfir skynsamlegan vafa. Það er þyngra en tárum taki að sjá lögmann, sem svo oft hefur verið í forsvari fyrir mannréttindi sakborninga taka til varna fyrir réttarfar sem svo augljóslega brást í þessum umdeildustu sakamálum Íslandssögunnar. Brynjar Níelsson er e.t.v. verðandi innanríkisráðherra. Vonandi endurskoðar hann afstöðu sína áður en hann tekur við embætti.

—-

Á þessari slóð er að finna auk hæstaréttardómsins, öll gögn Guðmundar- og Geirfinnsmála sem gerð hafa verið opinber.
Hér er svo skýrsla starfshópsins.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics