Nú fer hveitibrauðsdögum Silfurskeiðabandalagsins senn að ljúka og alvaran að taka við. Brúðkaupið mun hafa farið fram á laun löngu fyrir kosningar. Og enn halda leynifundir áfram á leynistöðum. Lítið hefur frést af því hvað sætabrauðsdrengirnir hafa rætt á fundum sínum en því nákvæmari fréttir verið fluttar af bakkelsisáti þeirra félaga. Eftir því sem næst verður komist hafa hjónaleysin lítið rætt stefnuna en þess í stað einbeitt sér að gagnasöfnun. Sumir hefðu kannski talið þörf á að ljúka þeirri vinnu áður en kosningaloforð eru gefin en „Wild Boys“ gera hlutina á sinn sérstaka hátt.
Auk þess að eta vöfflur og grilla hafa þeir bakkelsisbræður farið í gönguferðir. Samkvæmt síðustu fregnum voru þeir að vísu ekki búnir að fara saman í bað en til þess að hjónabandið haldi þarf annar þeirra eða báðir að skola af sér stærstu kosningaloforðin svo það styttist væntanlega í að Jóhannes þurfi að fýra upp í heita pottinum.
Svo er bara að sjá hvaða heiti mun festast við þessa ríkisstjórn. Sætabrauðsstjórnin, Hveitibrauðsstjórnin, Sveitastjórnin, Krónustjórnin, Silfurskeiðastjórnin eða Villingastjórnin. Um það ríkir mun meiri óvissa en um það hvaða kosningaloforð verða svikin fyrst.
Ég get ekki sagt að mér lítist vel á Silfurskeiðabandalagið en ég má til að hrósa þeim pr-manni fyrir óvenjulega kímnigáfu sem ráðlagði þeim að velja „Wild Boys“ sem óskalag. Annar í hópi snillinga síðustu viku er Gunnar Karlsson sem teiknaði þessa frábæru skopmynd.
Hér er textinn við „The Wild Boys“ Það væri gaman ef einhver vildi þýða hann. Mig langar ekki til þess í augnablikinu en ég skrifaði annan sem má syngja við sama lag.
Hveitibrauðsdagar
Bjarni býður Sigmundi
í bústað uppí sveit.
Á einnar viku ástarfund
og upplýsingaleit.
Grufla á daginn, grilla á kvöldin.
Í Krónunni þeir kaupa
kjöt og rjóma og vöfflumix
og pönnukökupúlver,
nú skal plana ótal trix.
Þeir eru að stofna
silfurskeiðabandalag.
Wild boys
súpa af silfurskeið.
Wild boys
lækka skatta um leið.
Wild boys
ætla auðvaldinu
ennþá stærri sneið.
Með gras í skónum ganga
um gróin heiðalönd
ósammála um áttirnar
þó alltaf hönd í hönd.
Svanhildur með svuntuna
og sætabrauðið bíður.
Og brátt skal drukkin skál
en hvað var rætt á röltinu
er ríkisleyndarmál.
Þeir eru að stofna
silfurskeiðabandalag.
Wild boys
virkja fossafjöld.
Wild boys
grilla sérhvert kvöld.
Wild boys
ætla auðkýfingum
ennþá meiri völd.