Þriðjudagur 28.05.2013 - 15:38 - FB ummæli ()

Eiga þingmenn rétt á nærgætni?

 

rainbow-diagram-roygbivÍ umræðunni um umræðuna er orðið einelti notað af óhóflegu örlæti. Borgarstjóri Reykjavíkur sagðist fyrir nokkrum vikum hafa verið lagður í einelti á borgarafundi þegar fundargestur sýndi honum ókurteisi og nú skilgreinir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir það sem einelti þegar margir gera grín að Vigdísi Hauksdóttur og Jóni Bjarnassyni. Þessi umræða er löngu komin út í rugl. Við erum ekki að tala um varnarlaus skólabörn sem geta ekki sinnt daglegum störfum sínum vegna ofsókna og þora jafnvel ekki út úr húsi, heldur valdafólk sem hefur fulla burði til að svara fyrir sig.

Persónulegir eiginleikar dregnir inn í umræðuna

Í litlu samfélagi er við því að búast að persónulegum eiginleikum þingmanna og annars áhrifafólks sé blandað í umræðuna. Það er ómálefnalegt, hallærislegt og ógagnlegt en það er ekki alltaf neikvætt fyrir þann sem á í hlut. Fólk verður ekki bara fyrir ósanngjörnum árásum, vinir og vandamenn rísa líka upp til varnar sínu fólki. Um daginn lýsti bróðir þingmanns honum á facebook á þá leið að hann væri nánast eins og klipptur út úr heilræðavísum Hallgríms Pétursonar; lítillátur, ljúfur og kátur. Bróðurkærleikur á fullan rétt á sér þótt þessar upplýsingar komi almenningi svosem ekkert við, ekki frekar en það kæmi okkur við ef þingmaður væri manna leiðinlegastur í jólaboðum. Það er heldur ekkert annað en gott um það að segja að kona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar skuli lýsa honum sem traustum og elskulegum fjölskylduföður í blaðaviðtali. Ég ætla hinsvegar rétt að vona að það sé séríslensk blaðamennska að taka þeirri heimild sem staðfestingu á hæfni hans í hlutverki forsætisráðherra:

Enginn þekkir mann betur en eiginkonan og haft er fyrir satt að það megi ráða í innræti manna af framkomu þeirra við fjölskyldu sína. Samkvæmt því þarf þjóðin ekki að kvíða forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar því eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, segir hann traust ljúfmenni sem alltaf sé til staðar ef vandamál komi upp.

Framkoma þingmanns við vini og vandamenn segir ekkert um hæfni hans til að fara með völd. Fólk í valdastöðum dæmist af verkum sínum og persónulegt líf þess kemur okkur ekki við. En Ísland er smáríki og við komumst ekki hjá því að heyra álit ástvina á valdafólki. Við komumst heldur ekki hjá því að heyra álit hinna sem finna þeim allt til foráttu. Það er ekki samfélagslegt einelti þegar huldumaður á netinu segir að Vigdís Hauksdóttir sé afturhaldspíka, ekki frekar en það er persónudýrkun fjöldans þegar fjölskylda Sigmundar Davíðs og einn blaðamaður lýsa honum sem sérstökum öðlingi.

Má þá alveg drulla yfir valdafólk?

Auðvitað eru takmörk fyrir því hverskonar framkomu er hægt að ætlast til þess að þingmenn og annað fólk í áhrifa- og valdastöðum sætti sig við. Ég hef ekki lesið allt sem skrifað hefur verið um Vigdisi Hauksdóttur og Jón Bjarnason og vel má vera að meðal þess sé rógur. En það er ekki rógur að lýsa vanþóknun sinni á vondum málflutningi og það er heldur ekki rógur að setja gagnrýni fram með háði. Fólk sem velur sér það hlutskipti að vera í sviðsljósinu, ég tala nú ekki um ef það seilist eftir völdum, getur ekki reiknað með því að gagnrýni á það sé sett fram af nærgætni og það þarf að vera nokkuð langt gengið til þess að hægt sé að flokka ummæli um valdafólk sem meiðyrði eða einelti.

Valdsmenn eiga að mínu mati eins og allir aðrir siðferðilega heimtingu á eftirfarandi:
– að ekki sé logið upp á þá
– að gagnrýni, sem ætlað er að segja eitthvað um hæfni þeirra, komi störfum þeirra og áhrifum við
– að gagnrýni sé rökstudd.

Þar með er það líka upp talið og þetta nær aðeins yfir opinbera gagnrýni sem sett er fram af alvöru og þunga og ætla má að leiði til álitshnekkis. Það er t.d. ekki hægt að banna skopteiknara að nota útlit, málfar og önnur sérkenni til þess að draga upp hlægilega mynd af stjórnmálamanni enda þótt þau sérkenni komi störfum hans ekkert við. Það er heldur ekki hægt að banna fólki láta frá sér ummæli á borð við þau að einhver sé asni eða illmenni á kommentakerfum netmiðlanna. Gagnrýni má ekki verða einkaréttur þeirra sem eru nógu mælskir til þess að klæða óvægnar skoðanir í kurteislegan búning. Það er ekki einu sinni hægt að banna fólki að benda á ættartengsl eða önnur sambönd sem geta skipt máli, þótt sé auðvitað ljótt að draga inn í umræðuna vini og vandamenn sem enga ábyrgð bera.

Nei, þau verða ekki látin í friði

Vigdís Hauksdóttir og Jón Bjarnason eru ekki fórnarlömb eineltis, að minnsta kosti ekki í þeim skilningi að hópar fólks hafi veist að þeim að ósekju. Hafi örfáir, óþekktir einstaklingar lagt þau í einelti þá er það einkamál en ekki samfélagsvandi. Fjöldi manns hefur vissulega gagnrýnt þau og gert grín að þeim en til þess hafa þau fyllilega unnið með þeirri óstjórnlegu þvælu sem þau hafa látið út úr sér á opinberum vettvangi.

Ég ætla ekkert að hætta að tala um Vigdísi sem þjóðrembu þótt hún sé áreiðanlega vænsta kona í daglegu lífi. Ég ætla heldur ekki að tala fallega um Sigmund Davíð þótt konunni hans finnist hann hlýr og elskulegur. Það kemur málinu nefnilega ekkert við. Þetta er valdafólk og þau eiga ekki heimtingu á elskulegheitum, heldur dæmast þau af verkum sínum, verkum sem hafa bein áhrif á örlög fólksins í landinu.

Ég skal klappa Sigmundi Davíð á bakið þegar hann er fallinn frá hugmyndum um að afnema sérstakt veiðigjald. Ég skal segja eitthvað sætt um Vigdísi þegar hún skammar Útlendingastofnun fyrir að misnota Dyflinnarreglugerðina. Sem stendur sé ég enga ástæðu til þess að hætta að tala um Vigdísi sem þjóðrembu og Sigmund Davíð og Bjarna Ben sem silfurskeiðadrengi. Ef ráðherrar og aðrir þingmenn vilja vinsamleg ummæli skulu þeir vinna til þeirra. Það geta þeir auðveldlega gert með því að nota völd sín til að stuðla að meira réttlæti, jöfnuði og frelsi.

Að lokum vek ég athygli á ummælum sem Hjörtur Hjartarson lét falla á facebook núna áðan:

Gagnrýni á valdhafa hefur sumstaðar verið skilgeind sem geðveiki. Mér finnst einelti vel koma til greina líka.

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics