Föstudagur 07.06.2013 - 09:52 - FB ummæli ()

Ég hef hatað karlmenn

Ég hef hatað karla. Ekki í þeirri merkingu að ég vildi útrýma karlkyninu en ég hef orðið svo sár út í svo marga karlmenn að í mörg ár taldi ég vissara að mæta hverjum þeim manni sem ég hefði hugsanlega getað hrifist af með yfirdrifinni tortryggni og kaldhæðni.  Ég hélt að ef ég reiknaði með þeim möguleika að maður sem mér leist vel á kynni að vera aumingi, skíthæll eða hvorttveggja þá yrði ekki mikið áfall að fá það staðfest. Ég hélt líka að það yrði ekki eins sárt að verða fyrir höfnun af hálfu einhvers sem tilheyrði hvort sem er svo misheppnaðri dýrategund. Ég hafði rangt fyrir mér, ástarsorg er alltaf jafn hræðileg.

Ég er nokkuð viss um að einhverjir karlmenn sem hefur sárnað við mig hafa sömuleiðis afgreitt sambandið með þeirri speki að konur séu einfaldlega geðveikar, andstyggilegar eða óskiljanlegar.  Það virðist reyndar almenn regla að fyrrverandi kærastar séu  aumingjar og fyrrverandi kærustur geðveikar.

Ég held að bæði karlhatur og kvenhatur eigi sér oft rót í áföllum sem fólk verður fyrir í ástalífinu. Það er bara einum of klikkað að hata einhvern sem maður hefur elskað ef hann er eitthvað minna en hreinræktað illmenni. Með því að skrifa afglöp hans/hennar á kynferði hans er hægt að fresta því að horfast í augu við margt; t.d. tilhneigingu sína  til að falla fyrir fólki sem maður á enga samleið með og það sem maður sjálfur hefur gert til að eyðileggja sambandið. Það er líka þægilegt að skella skuldinni á kynferðið frekar en persónuna því í sumum tilvikum vill maður halda góðu sambandi við fyrri maka og þá má skýringin ekki vera sú að hann sé slæmur maður.  Auk þess er hann ekkert slæmur maður og fullt af fólki sem veit það. Þegar hann hegðar sér óskiljanlega  hlýtur skýringin því að liggja í einhverju sem hann ræður ekki við og sem maður sjálfur, (tilheyrandi hinum ábyrgari, siðlegri eða heilbrigðari, hluta mannkynsins) á engan möguleika á að koma til botns í.

Ég skil kynjafordóma vel og er áreiðanlega ekki alveg laus við þá sjálf þótt ég sé blessunarlega komin að þeirri niðurstöðu í dag að ófarir mínar í ástamálum eigi sér flóknari skýringar en þær að karlmaðurinn sé vanþróuð dýrategund. Og fyrst ég, sem hef ekki verið með manni sem lamdi mig get hugsað svona, þá get ég ekki ætlast til þess að fólk sem hefur búið við ofbeldi sé neitt skynsamara. Ég held líka að við verðum að umbera fordóma að vissu marki.  Ég reyni ekki að leiðrétta fólk sem hristir höfuðið og dæsir „karlmenn“ eða „konur“ þegar því finnst makinn vera dyntóttur og ég leyfi mér það m.a.s. sjálf þótt ég viti betur. Fólk verður að mega pústa án þess að eiga á hættu að allt sem það segir sé rekið ofan í það með heilagri vandlætingu.

En að kynjafordómar séu grundvöllur vísindastarfs og stjórnvaldsákvarðana, og að opinberir styrkir séu veittir til þess að reka áróður sem byggist á karlhatri – það er ekki í lagi.  Og þangað hefur feminisminn leitt okkur þrátt fyrir yfirlýst markmið um að uppræta staðalmyndir og vinna gegn fordómum.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics