Laugardagur 29.06.2013 - 16:36 - FB ummæli ()

Endurskilgreiningar

Tungumálið kemur upp um viðhorf okkar.

Stundum afhjúpar það viðhorf sem við erum horfin frá en lituðu samfélag okkar um langa hríð. Þetta eru orð sem hafa verið tekin í sátt svo fremi sem þau eru ekki notuð um það sem þau upphaflega merktu.  Það má t.d. nota orðið fáviti um fólk sem hegðar sér heimskulega – svo fremi sem viðkomandi er ekki þroskaheftur. Orðið fáviti má alls ekki nota um þroskahefta því það lýsir viðhorfi sem er ekki lengur viðurkennt en eimir þó eftir af.

Stundum afhjúpar tungumálið líka viðhorf sem við erum lítt meðvituð um þótt við sjáum alveg hversu íhaldssöm þau eru þegar við hugsum út í merkingu orðanna. Orða sem enginn gerir athugasemdir við og fjölmiðlar og opinberar stofnanir nota hiklaust.  Við köllum t.d. atvinnurekendur vinnuveitendur og starfsmenn þeirra launþega. Bókstafleg merking er ekki sérlega nútímaleg. Atvinnurekandinn færir vesalingum atvinnutækifæri að gjöf og starfsmaðurinn þiggur launin, væntanlega með hjartans þökkum, hræður yfir þessu einskæra örlæti. Við hugsum kannski ekki beinlínis á þennan hátt en mörgum okkar líður eins og þetta sé veruleikinn.

Ný viðhorf bundin í málið – eða ekki

imagesTungumálið endurspeglar líka viljann til að breyta viðhorfum. Orð sem eru tengd neikvæðu viðhorfi þykja ekki lengur tæk og ný orð sem eiga að vera hlutlausari eru tekin upp í staðinn. Stundum fyllumst við jafnvel heilagri vandlætingu og túlkum húmor og hugsunarleysi sem fjandsamleg ummæli. Fínt að vera vakandi en höfum í huga að lítið eða ekkert umburðarlyndi gagnvart fordómafullu tungutaki getur haft þau áhrif að fólki finnist það varla geta tjáð sig um viðkvæm mál nema vera stöðugt á nálum.

Og svo kemur það fyrir að nýja orðið er sannarlega gildishlaðið þótt hugmyndin með því að skipta út orðum sé einmitt fordómaleysi og fagmennska. Hið ágæta orð gleðikona vék þegar velviljandi fjandmenn kynfrelsis tóku upp orðið vændiskona, sem merkir vond kona. Það þótti niðrandi að nota orð eins og hóra eða skækja en umburðarlyndið var í raun ekki meira en svo að vanþóknunin var bara klædd í snyrtilegri búning. Það mátti kannski ekki beinlínis grýta hóruna en vond var hún nú samt. Þeir sem berjast fyrir réttindum gleðikvenna eru svo aftur að reyna breyta viðhorfinu í gegnum tungumálið með því að nota orðið kynlífsþjónn (sem eflaust mun síðar þykja frekar vont líka.)  Þannig beitum við tungumálinu til að endurskilgreina stöðu þessarar stéttar og eðli starfsins; sumir til að viðhalda neikvæðum viðhorfum (en án þess þó að láta vanþóknun sína of berlega í ljós) aðir til að aflétta þeim.

Endurskilgreining Tryggingastofnunar

Vinkona mín benti mér á aðra endurskilgreiningu sem varðar annan og stærri þjóðfélagshóp, þ.e.a.s. alla skjólstæðinga Tryggingarstofnunar; gamalmenni og fátæka, öryrkja og sjúka. Stofnunin sjálf – ekki skjólstæðingar hennar, ekki skattgreiðendur, heldur stofnunin sjálf, – hefur tekið upp á því að endurskilgreina hlutverk sitt, án samráðs við það samfélag sem hún á að þjóna. Ekki með opinberri yfirlýsingu, heldur ósköp laumulega, með því að taka orðið skjólstæðingur út úr orðræðu sinni og setja inn orðið viðskiptavinur í staðinn. Í upplýsingbæklingum Tryggingastofnunar er þannig talað um viðskiptavini en ekki skjólstæðinga.

Orðið viðskipti merkir bókstaflega að fólk skiptist á verðmætum. Oftast skiptir maður við fyrirtæki á peningum og vöru eða þjónustu. Sá sem á í viðskiptum væntir þess að fá til baka jafnvirði þess sem hann lætur af hendi. Hann á siðferðilegan, jafnvel lagalegan rétt á endurgjaldi, annars hétu það ekki viðskipti.

Þeir sem leita til Tryggingastofnunar eru ekki í viðskiptum. Þeir þurfa ekki að láta ekki neitt í skiptum fyrir það sem þeir fá. Til þess er ekki ætlast og til þess má ekki ætlast. Þeir eiga einfaldlega rétt á fjárhagsaðstoð og þjónustu án þess að leggja neitt af mörkum í staðinn. Hlutverk Tryggingastofnunar er samkvæmt skilgreiningu laganna það að annast framkvæmd lífeyris og sjúkratrygginga ásamt þeirri þjónustu, upplýsingagjöf og eftirliti sem því tilheyrir. Ekki að standa í viðskiptum.

Samkvæmt sínu eigin orðfari virðist Tryggingastofnun þó ekki líta svo á að hlutverk hennar sé að vera því fólki vörn og skjól sem lögum samkvæmt á rétt á aðstoð ríkisins við að framfleyta sér, heldur telja forsvarsmenn hennar sig vera að selja þjónustu.  Og þessu viðhorfi er laumað inn í menninguna í gegnum tungumálið, áreiðanlega í góðri trú.

Hreppsómagi, bótaþegi, skjólstæðingur eða viðskiptavinur?

Í lögum um almannatryggingar er hvorki talað um skjólstæðinga né viðskiptamenn heldur bótaþega. Texti laganna endurspeglar það rótgróna viðhorf að þeir sem ekki hafa tök á að framfleyta sér hjálparlaust séu þiggjendur gjafar fremur en fólk sem á rétt á stuðningi. Orðið bótaþegi hefur samt áreiðanlega verið merki um ný og betri viðhorf þegar það leysti af hólmi orð eins og þurfalingur og hreppsómagi. Markmiðið hefur vafalítið verið það að létta skömminni af þeim sem ekki voru einfærir um að framfleyta sér með því að nota orð sem ekki lýsir því viðhorfi að fátækir séu afætur með ósanngjarnar þarfir.

Sjálfsagt hefur það líka verið af góðum hug sem ákveðið var að Tryggingastofnun tæki upp orðið viðskiptavinur í stað skjólstæðings. Það á áreiðanlega að vera nútímalegra, gefa til kynna að þeir sem eiga rétt á framfærslueyri frá hinu opinbera séu fullgildir þjóðfélagsþegnar en ekki þurfalingar sem standi í skjóli stofnunar. En tungumálið kemur upp um okkur. Skækja þótti niðrandi orð og menn efuðust um réttmæti þess að gleðjast yfir kynlífi gegn greiðslu, lendingin var sú að velja gleðikonunni snyrtilegt orð með ömurlega merkingu. Það tiltæki Tryggingastofnunar að velja skjólstæðingum sínum heiti sem við tengjum sanngjarnri kröfu um endurgjald er álíka misheppnuð. Það felur reyndar ekki í sér dóm yfir skjólstæðingnum en það endurskilgreinir hlutverk stofnunar; gefur félagsþjónustu kapítalískt yfirbragð og vekur hugrenningartengsl við hinar eilífu kröfur kapítalismans um arðsemi og hagvöxt.

 

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Menning og listir
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics