Mánudagur 08.07.2013 - 10:34 - FB ummæli ()

Skemmtiþjófar á Facebook – fréttaveitan

 

Er fréttaveitan þín full af kisumyndum og vondum húmor svo þú þarft að leita í kraðakinu til að sjá áhugaverðar umræður? Eða sérðu ekki íþróttastatusa fyrir reiðilegri pólitískri gagnrýni frá grautfúlum álitshöfum?

Eins og í raunheimum þarftu að leiða hjá þér ýmisskonar röfl ef þú ætlar að vera í stöðugum samskiptum við einhvern facebook vina þinna. Þú getur ekki valið að sjá bara það sem Jóna vinkona segir um fjölskylduna en sleppt því að sjá það sem hún póstar frá hun.is (eða ef það er hægt þá vil ég gjarnan fá upplýsingar.) Það eru þó takmörk fyrir því hversu mikið kjaftæði frá sömu manneskjunni maður er til í að leiða hjá sér en sjá, ég boða yður mikinn fögnuð; það er hægt að stjórna heilmiklu um það hvað birtist á fréttaveitunni án þess að dömpa vininum.

 

3twjck

 

Þú getur ekki stjórnað því hvað vinir þínir birta

Fb er bara stórt samfélag. Ef þú ætlar að hlusta á allt sem allir segja muntu veslast upp af leiðindum og ef þú ætlar að henda öllum út sem segja eitthvað sem þú fílar ekki situr þú uppi með saumaklúbb i staðinn fyrir samfélag (sem er bara fínt fyrir þá sem vilja það.) Við getum litið á Facebook sem kaffihús. Það er útilokað að stjórna því hvað aðrir ræða og hvernig en maður getur sjálfur stjórnað því við hvaða borð maður sest. Þú getur valið þér sessunauta og svo geturðu af og til staðið upp og sagt hæ við þá sem þú vilt alveg þekkja þótt þú nennir ekki að hlusta á allt sem þeim liggur á hjarta.

 

image
Virkar ekki fyrr en allir verða sammála um það hvað skuli flokkast sem ruslpóstur

 

 

Þú getur losnað við áreiti án þess að losa þig við vininn

Þegar þú sérð innlegg frá fólki sem póstar iðulega einhverju sem þú hefur ekki áhuga á, þá geturðu takmarkað hvað þú sérð frá þeirri manneskju (eða þemasíðu). Ímyndum okkur t.d. að einn af vinum þínum fylli fréttaveituna dag eftir dag af einhverju sem þér finnst ekkert áhugavert eða að þú sért að drukkna í sætum kisumyndum en viljir samt ekki taka „lækið“ af krúttsíðunni af því að þá heldur systir þín að þú sért handgenginn Satni sjálfum og hatir litla kettlinga.  Næst þegar þú sérð innlegg frá kisusíðunni, prófaðu þá þetta ráð:

 

Screenshot from 2013-07-07 14:22:41

 

Smelltu á píluna sem birtist hægra megin fyrir ofan innleggið.

Ef þú vilt losna við innlegg skaltu velja I don’t want to see this. Þú getur valið að fela aðeins tiltekið innlegg eða þú getur valið þann að sía síðuna  frá fréttaveitunni. Þú ert samt ennþá með „lækið“ á henni. Með þessu kemstu hjá því að særa þenna fræga í fjölskyldunni þótt þú nennir ekki að hafa opinberupersónusíðuna hans á fréttaveitunni. Þú notar sömu aðferð ef vinir birta innlegg sem þú vilt ekki sjá. Vinurinn er samt ennþá á vinalistanum og veit ekkert að þú hefur takmarkað innlegg frá honum.

Ef þú hinsvegar vilt fylgjast með umræðunni án þess að blanda þér í hana, velur þú Follow Post (Vakta innlegg)  og þá færðu tilkynningu þegar ný ummæli koma inn

 

Þú getur skipt um skoðun

Ef þú hefur afþakkað innlegg en skiptir um skoðun ferðu inn á síðuna:

Screenshot from 2013-07-07 14:37:16

 

Þú velur Show in News Feed (Sýna í fréttaveitu) undir Liked (Ánægjuefni) og þá sérðu aftur færslur á fréttaveitunni.

 

Þú getur séð meira frá sumum, minna frá öðrum

Screenshot from 2013-07-07 15:16:02

Ef þú ferð inn á prófílsíðu vinar og ferð með bendilinn á Friends (Vinir) færðu upp svona mynd.

Ef þú vilt ekki missa af færslum frá vininum geturðu valdið Close Friends. (Nánir vinir) Viðkomandi mun ekki halda að þú sért eltihrellir því hann fær ekki að vita að þú hafir flokkað hann sem náinn vin. Þegar þú velur þennan möguleika stjörnumerkirðu innlegg frá vininum og færð tilkynningu um hvert innlegg frá honum.

Ef þig langar ekki að fylgjast með honum en vilt samt hafa hann á vinalistanum (af því að hann er nú frændi þinn þótt hann pósti endalausum fótboltafréttum á facebook.) Þá geturðu valið Acquaintances (Kunningjar) og þú verður ekkert var við hann framar nema fara sérstaklega inn á síðuna hans. Hann veit ekki þú hefur sett hann á kuningjalistann og þú getur alltaf farið aftur inn á síðuna hans og breytt stillingunum.

 

Screenshot from 2013-07-07 16:27:27

 

Ef þú velur Settings (Stillingar) færðu upp þessa möguleika.

Þú getur notað þá til að stjórna því hversu mikið þú sérð frá vininum. Ef hann póstar t.d. í sífellu tónlistarmyndböndum geturðu afþakkað þau.

Ef þú velur Only Important færðu aðeins upp það sem hinn aðilinn stjörnumerkir. Flestir hafa sjaldan hugsun á að nota stjörnumerkingar svo ég myndi ekki ráðleggja þér að nota þann möguleika ef um er að ræða náinn vin sem þú vilt raunverulega sjá mikilvægar uppfærslur frá.

 

 Sumum er hægt að fylgjast með án þess að senda vinarboð

Ef til vill langar þig að fylgjast með einhverjum sem þú vilt ekki senda vinarboð. Sumir bjóða upp á þann möguleika að gerast áskrifandi að uppfærslum (Follower). Ef þig langar t.d. að fylgjast með fb síðu Bjarkar Guðmundsdóttur þá geturðu gerst áskrifandi.

 

Screenshot from 2013-07-08 10:44:44

 

Þú ferð inn á prófílsíðuna. Smellir á Follow hægra megin á opnumyndinni. Þá færðu upp sömu möguleika og áður og getur séð hverskonar uppfærslur þú færð frá henni og auðvitað geturðu hvenær sem er sagt áskriftinni upp.

Ef þú gerist áskrifandi færðu tilkynningu um uppfærslur sem eigandi síðunnar birtir fyrir almenning en ekki það sem hann birtir aðeins fyrir vini. Þetta merkir því ekki að þú sjáir neitt til viðbótar við það sem þú getur séð nú þegar heldur að þú færð tilkynningar þegar viðkomandi uppfærir síðuna. Því miður er margt áhrifa- og listafólk sem býður ekki upp á áskrift. Sennilega eru margir sem vita ekki af þessum möguleika en áskrift er þægileg bæði fyrir þá sem vilja fylgjast með og fyrir þá sem vilja hafa áhrif án þess að stofna sérstaka síðu sem opinber persóna.

 

Skemmtiþjófar á facebook – leikjaboð

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics