Þriðjudagur 20.08.2013 - 13:46 - FB ummæli ()

Júllabúð

Ég hef tekið mörg og löng netfrí í sumar. Stundum hef ég birt færslur „fram í tímann“ áður en ég hef farið í frí en það hafa liðið allt að 16 dagar í senn án þess að ég hafi verið á netinu.

Kannski heldur einhver að þetta hafi þau áhrif að ég komi til baka endurnærð, full af ferskum hugmyndum og brennandi í skinninu af tilhugsuninni um að hefjast handa við að skrifa alla pistlana sem ég er með í hausnum en hef enn ekki komið á blað. Það er mikill misskilningur. Eiginlega er frí forheimskandi. Ég er óþolandi jákvæð og það eina sem ég finn mig knúna til að skrifa um í augnablikinu er menningarsetrið Júllabúð í Hrísey.

Þetta er annað árið sem ég kem í Hrísey og Júllabúð gerir dvölina ennþá yndislegri en ella. Augljós kostur er að maður losnar við að bera með sér mat út í eyju en það er nú bara byrjunin því ferð í Júllabúð er sannkölluð menningarferð, í það minnsta ef miðað er við hinn sívinsæla höfðafjölda.

Vöruúrvalið er fáránlega gott miðað við stærð verslunarinnar og fjölda viðskiptavina og liðlegheitin hjá Júlla og hans fólki einstök.  Ef mann vantar vörur sem eru ekki til á lager þá eru þær bara pantaðar. Ef mann bráðvantar eitthvað utan venjulegs afgreiðslutíma má hringja í neyðarnúmer. Ef maður þarf nauðsynlega að komast á netið (eða er alls ekkert í netfríi) þá er hægt að komast á netið í Júllabúð og m.a.s. fá sér kaffibolla líka. Börnin geta leikið sér í dótahorninu á meðan. Auk þess þjónar Júllabúð sem menningarmiðstöð þar sem listamenn koma fram og fundir eru haldnir.

Nú óska ég þess bara að Júlli fái umboð til að reka útibú frá einokunaverslun ríkisins næsta sumar svo þeir sem ekki vilja bera með sér gler og ál milli landshluta eigi ekki á hættu að verða þurrbrjósta í sumarfríinu.  Að maður tali nú ekki um þá sem eru búsettir í eynni.

Ég þakka Júlla og hans fólki góða þjónustu og alveg frábæran þorsk og óska búðinni góðs gengis.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics