Í íslensku eru til nokkur orð þar sem fólki sem sýnir neikvæða hegðun er líkt við einhverskonar poka eða ílát.
Væluskjóða, grenjuskjóða, klöguskjóða,
fýlupoki,
frekjudós, frekjudolla, frekjutuðra,
sorabelgur (einnig nautnabelgur en það er nú kannski ekki beinlínis neikvætt)
Kannski er tengt þessu orðatiltækið að fá á baukinn? Baukur er þá kjaftur og hugmyndin líklega sú að hann sé fullur af óæskilegum orðum.
Og er það tilviljun að til eru þetta mörg orð sem fela í sér þá hugmynd að neikvæð hegðun sé ekki karakter heldur kannski frekar eins og manneskjan sé hýsill fyrir frekju, fýlu og grenjur? (eða bara eina grenj.)
Eru til fleiri orð af þessu tagi?
——
Uppfært:
Mér var bent á að baukurinn væri sennilega tengdur „beak“ í ensku, þ.e. fuglsgoggur. Annar lesandi benti á að þar fyrir gæti vel verið að hugmyndin um kjaft sem ílát stæðist.
Fleiri orð af þessu tagi sem lesendur hafa bent á:
Kjaftaskur, frekjudallur, bullustampur, drullusokkur, ólátabelgur, kjánabelgur, vindbelgur.