Miðvikudagur 25.09.2013 - 12:30 - FB ummæli ()

Ein lítil saga úr heilbrigðiskerfinu

Vinkona mín hefur átt við mikil veikindi að stríða síðustu ár. Hún fékk m.a. banvænan sjúkdóm og hefur þurft að undirgangast ýmsar rannsóknir og lyfjameðferð vegna þess, auk þess að þarfnast endurhæfingar og dvalar á sjúkrahóteli. Ég vissi að Íslendingar greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu úr eigin vasa en nágrannaþjóðirnar en þegar ég sá upphæðirnar sem þessi vinkona mín hefur þurft að greiða, gekk gjörsamlega fram af mér.

Konan reiknaði í fyrstu með að fá stærstan hluta kostnaðar endurgreiddan frá Tryggingastofnun og varð því mjög undrandi þegar hún fékk yfirlit frá stofnuninni sem bar alls ekki saman við reikninga. Sem dæmi hafði Tyggingastofnun skrifað 760 kr á þjónustu sem hún hafði greitt 1920 kr fyrir. Skýringin var sú að endurgreiðslur Tryggingastofnunar miðast við eldgamla taxta, auk þess sem fáir sérfræðingar eru bundnir samningi við stofnunina.

 

Hér er yfirlit yfir sjúkrakostnað konunnar árið 2012

Screenshot from 2013-09-23 14:20:26

 

Vinkona mín var svo forsjál að geyma kvittanir. Það var töluverð vinna fyrir hana að bera saman allar tölur en með því að leggja þá vinnu á sig gat hún lagt fram umsókn um skattaívilnun sem varð að lokum til þess að hún fékk endurgreiðslu frá Tryggingastofnun upp á 101 þúsund krónur,  til viðbótar við þær 10 þúsund krónur sem hún hafði áður fengið frá.

Þessi endurgreiðlsa skipti töluverðu máli fyrir hana því samanlagður kostnaður hennar vegna veikinda var yfir 326 þúsund krónur á einu ári. Það gefur þó auga leið að fyrir manneskju sem er með öllu óvinnufær eru 225 þúsund samt of mikið. Þar að auki er ekki víst að allir sjúklingar hafi hugsun á því að halda öllum pappírum til haga og það er heldur ekki hægt að ganga útfrá því að fársjúkt fólk átti sig á mismuninum á útreikningum Tryggingastofnunar og því sem það er raunverulega búið að borga. Því síður er hægt að ætlast til þess að fólk sem er sárkvalið og óttast um líf sitt, hafi burði til þess að standa í þeirri vinnu sem þarf til að fá endurgreiðslur.

Er virkilega enginn áhugi fyrir því hjá stjórnvöldum að tryggja almenningi endurgjaldslausa heilbrigðisþjónustu? Hvað verður um fólk sem á hreinlega ekki tugi eða hundruð þúsunda til þess að greiða fyrir rannsóknir, lyf og aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu?

—-

Mér var bent á reglugerð frá því í maí um endurgreiðslur vegna mikils sjúkrakostnðar, sem gæti nýst einhverjum í svipaðri stöðu. Upplýsingar um endurgreiðsluna og umsóknareyðublað  má nálgast  hér http://www.tr.is/almenn-rettindi/endurgreidsla-vegna-mikils-kostnadar/ Einnig má hafa beint samband við Tryggingastofnun með tölvupósti tr@tr.is,  í síma 560 4400, 560 4460 eða að koma í þjónustumiðstöð Laugavegi  114 eða til umboða Tryggingastofnunar um land allt ef viðkomnadi er ekki búsettur í Reykjavík.

 

 

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics