Sunnudagur 24.11.2013 - 22:09 - FB ummæli ()

Grimmdin, heimskan og fimmstjörnu hótelin

Umræðan um mál stúlknanna sem sitja í fangelsi í Tékklandi fyrir kókaínsmygl gerir mig bæði sorgmædda og reiða.

Eins og venjulega þegar málefni fanga ber á góma er ógeðið í umræðunni yfirþyrmandi. Það hlakkar beinlínis í sumum þeirra sem tjá sig um málið og þeir skammast sín ekki einu sinni fyrir illgirnina heldur freta henni yfir internetið og auka þannig enn á þjáningar vandamanna stúlknanna. Þeir sem óska stúlkunum þess að fá að afplána dómana í sínu heimalandi, þar sem þær eiga möguleika á að hitta foreldra sína reglulega, eru atyrtir fyrir að vorkenna þeim, rétt eins og það sé samúðin sem er ósiðleg en ekki grimmdin. Sömu kommentarar sjá ofsjónum yfir því hversu dýrt það yrði fyrir skattgreiðendur að hafa stúlkurnar í fangelsi en virðast ekkert spá í það hvað það mun kosta samfélagið að fá þær kannski heim skaddaðar til lífstíðar eftir svo mannskemmandi reynslu sem margra ára fangavist við vondar aðstæður er.

Grimmdin og nískan sameinast svo heimskunni í allsherjar skítaplebbaorgíu þegar mannvitsbrekkurnar byrja að tala um Litla Hraun sem fimm stjörnu hótel.  Fyrir nú utan það hversu skemmtilegt það yrði að vera læstur inni á fimmstjörnu hóteli í mörg ár, hafa þeir sem nota þessa samlíkingu sennlega aldrei heyrt um pyntinganefnd Evrópuráðsins, sem hefur margsinnis gagnrýnt aðbúnað íslenskra fanga. Nú síðast gerði nefndin athugasemd við að pyntingafleki hefði fundist á Litla Hrauni. Eftir þarsíðustu heimsókn pyntinganefndarinnar var fangelsið skikkað til þess að fjarlægja pyntingabúnað sem festur var í gólf einangrunarklefa. Stjórnendur fangelsisins hafa sennilega haldið að þarna væru á ferðinni stílistar sem vildu gefa þeim ráð um innanhússarkitektúr. Að mannsta kosti virðast þeir ekki hafa túlkað gagnrýni nefndarinnar á þann veg að ekki ætti að pynta fanga því þeir komu sér bara upp færanlegum pyntingabúnaði í staðinn.

Sem betur fer er ástandið í íslenskum fangelsum skárra en í Tékklandi en að líkja því við lúxushótel er í skársta falli heimskulegt. Ég hef ekki séð neinn afsaka afbrot stúlknanna og það að óska þeim þess að fá að afplána dómana heima er ekki meðvirkni heldur eðlileg umhyggja. Án þess að afsaka dópsmygl leyfi ég mér að fullyrða að innræti þeirra sem óska þessum ungu konum frekari ófarnaðar er hálfu verra en innræti nokkurs fíkniefnasmyglara.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics