Mánudagur 02.12.2013 - 14:51 - FB ummæli ()

Gefa yfirvöld út formleg leyfi til lögbrota?

Ég hef ásamt ásamt syni mínum og mörgum öðrum gagnrýnt forsíðufrétt Fréttablaðsins þann 20. nóvember, af máli hælisleitendanna Tony Omos og Evelyn Glory Josep frá Nígeríu. Fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um málið á sömu nótum og Fréttablaðið. M.a. hefur verið fullyrt að Tony sé grunaður um aðild að mansali.

Nú hefur mér borist afrit af minnisblaðinu sem Innanríkisráðuneytið lak í fjölmiðla. Ekki kemur neitt fram í skjalinu sem bendir til þess að ráðuneytið gruni Tony Omos um aðild að mansali. Tony rökstyður kröfu sína um frestun réttaráhrifa m.a. með því að hann hafi verið til rannsóknar en sé það ekki lengur, en hann telji nafn sitt ekki hreinsað fyrr en rannsókn er að fullu lokið. Gott væri ef þeir fréttamenn sem hafa fullyrt að Tony sé grunaður um aðild að mansali upplýsi hvort þeir hafi þetta eftir starfsmönnum Innanríkisráðuneytisins eða hvort þetta byggi á misskilningi sem þeir hafa bara étið hugsunarlaust upp hver eftir öðrum.

Ekki verður séð að Tony hafi á nokkurn hátt reynt að villa um fyrir ráðuneytinu eða að rök hans séu ótrúverðug eða mótsagnakennd. Hann nefnir m.a. að aðstæður sínar hafi gerbreyst á þeim tveimur árum sem hann hefur dvalið á Íslandi, hann hafi myndað þar tengsl og eigi auk þess von á barni með Evelyn Josep.

Ráðuneytið tekur hvorki til greina væntanlega barnsfæðingu né önnur rök fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa. Það sem mér finnst þó áhugaverðast er sú hugmynd ráðuneytisins að dvöl hælisleitanda á landinu sé ólögmæt. Orðrétt segir í lekabréfinu:

Ráðuneytið bendir á að sem hælisleitandi telst kærandi ekki í lögmætri dvöl á Íslandi. Sú staðreynd ein að kærandi hefur dvalið á landinu vegna málsmeðferðar stjórnvalda hefur þess vegna ekki þýðingu fyrir mat á því hvort stofnast hafi til sérstakra tengsla hér á landi.

Það verður að teljast forvitnileg hugmynd að fólk sem hefur fengið bráðabirgðadvalarleyfi og nýtur lögum samkvæmt tiltekinna réttinda (sem eru þó engan veginn sambærileg við þau réttindi sem flest okkar njóta og telja sjálfsögð) sé í  ólöglmætri dvöl.  Ef þetta er rétt þá merkir það að yfirvöld gefa út formleg leyfi til lögbrota. Fyrir leikmanni lítur þetta út eins og annaðhvort sé þversögn í lögunum eða þá að starfsmenn ráðuneytisins skilji ekki lögin. Það gengur að minnsta kosti enganveginn upp að yfirvöld gefi út leyfi til ólöglegrar dvalar. Þetta er enn ein þversögnin sem fréttamenn ættu að krefja Útlendingastofnun og Innanríkisráðuneytið skýringa á. Einnig væri áhugavert að heyra álit lögmanna á því hvernig túlka beri lögin.

Að öðru leyti er þessi umsögn einmitt ágætt dæmi um það skilningsleysi sem flóttamenn mæta. Sem hælisleitendur lifa manneskjur í stöðugri bið. Jafnvel mannleg þörf þeirra fyrir að mynda félagsleg tengsl er að engu höfð. Eftir tvö ár í nýju landi skipta vinátta, ástarsambönd og barneignir bara engu máli, hvað þá að því sé nokkur skilningur sýndur að takmarkanir á ferðafrelsi og langvarandi aðskilnaður veldur iðulega tjóni á ástarsamböndum og tengslum fjölskyldumeðlima. Þegar sjálft ráðuneytið hefur þessa afstöðu til hælisleitenda er ekki við því að búast að mannúðarsjónarmið séu ráðandi í meðferð Útlendingastofnunar á málefnum flóttamanna.

Að lokum má geta þess að ég hef nú sent lögreglunni textann af minnisblaðinu og farið fram á lögreglurannsókn á leka Innanríkisráðuneytisins enda tel ég hann augljóst brot á persónuverndarlögum og lögum um skyldur opinberra starfsmanna. Einar Steingímsson hafði áður tilkynnt málið til lögreglu og nú þegar sönnunargagn liggur fyrir má reikna með skjótum viðbrögðum af hálfu rannsóknarlögreglunnar.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics