Ég er sjaldan sammála forsætisráðherra en nú ber svo við að ég get tekið heilshugar undir tvennt sem hann hefur látið hafa eftir sér á örfáum dögum.
Í fyrsta lagi finnst mér ágætt að ráðamenn hugsi upphátt. Það er auðveldara að sjá í gegnum þá þegar þeir gera það. Þetta sést glögglega af dæmi Vigdísar Hauksdóttur sem hefur hugsað upphátt alveg frá því að hún varð áberandi á sviði stjórnmála, en hún blekkir fáa, ef nokkurn.
Hinsvegar er ég því sammála að setja mætti lög gegn lobbýisma. Ég tek undir það og bæti lýðskrumi við. Nú vill svo til að lýðskrum er samofið öllu starfi Framsóknarflokkins. Kosningaloforð Framsóknar reynast innihaldslítið lýðskrum. Framsóknarflokkurinn er mesti lobbýistaflokkur landsins, hann heldur verndarhendi yfir hagsmunasamtökum á borð við Bændasamtökin og situr leynifundi með LÍÚ, voldugustu hagsmunaklíku landsins.
Ef lobbýismi og lýðskrum yrði bannað yrði starf Framsóknarflokksins, í þeirri mynd sem við þekkjum það, þar með ólöglegt.
Segið svo að það komi ekki góðar tillögur frá forsætisráðherra þegar hann loksins fer að hugsa upphátt.