Laugardagur 15.03.2014 - 12:06 - FB ummæli ()

Alltaf í tölvunni og tók aldrei til

Fréttir af máli mannsins sem er ákærður fyrir að hafa banað barni sínu, með því að hrista það, vekja margháttaðan óhugnað.

Dauði barnins og kenningar um dánarorsök vekja óhugnað og enn meiri óhugnað þegar mögulegt er að foreldri hafi verið að verki.

Vísbendingar um að ungbarni hafi margsinnis verið misþyrmt vekja óhugnað.  Spurningin um það hversvegna enginn brást við þótt barnið bæri alvarlega áverka vekur óhugnað. Hvað var heilbrigðisstarfsfólk að hugsa? Eða vinir og ættingjar sem vissu af áverkunum? Hvað var mamman að hugsa?

Og það sem ráða má af fréttum um málatilbúnað ákæruvaldsins vekur líka óhugnað. Er saksóknari virkilega að láta að því liggja að samband sé milli tölvuleikjaspilunar og barnsdráps? Að það skipti einhverju máli hvort maðurinn tók oft eða sjaldan til hendi heima hjá sér? Að fólk sem er ekki haldið neinum geðsjúkdómi, en er hlédrægt, sé líklegt til að „snappa“ skyndilega og verða barni að bana?

„Þetta gerist mjög mjög hratt,“ sagði Sigríður. „Hann var engan veginn að höndla þessar aðstæður allar saman.“

Er ríkissaksóknari í alvöru að halda því fram að myndir af barninu brosandi hafi einhverja merkingu í þessu máli?

„Barnið hreinlega vildi ekki vera hjá honum. Það fór að gráta þegar það var hjá honum,“ sagði Sigríður og sagðist telja að það væri vegna þess að barnið hefði vitað að hann gæti meitt það. Það taldi hún sjást vel á myndum sem teknar voru þennan dag, þegar telpan var ein var hún kát og glöð en í fangi föður síns grét hún mikið.

Ég vona að umfjöllun fjölmiðla endurspegli ekki áherslurnar í málflutningi ákæruvaldsins. Því ef það skiptir einhverju máli hvort ákærði er fáskiptinn tölvuleikjafíkill, þá getum við búist við því að næst þegar manndrápsmál kemur fyrir dómstóla verði bent á þjóðerni, stéttarstöðu eða trúarskoðanir ákærða.

Flokkar: Allt efni · Lög og réttur
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics