Þriðjudagur 22.04.2014 - 10:34 - FB ummæli ()

Árangurinn af kynjafræðikennslu

Feministar hafa sent frá sér áskorun um að kynjafræðikennsla verði tekin upp sem skylduáfangi í grunnskólum. Það hlaut að koma að því. Rökin fyrir því að kenna þurfi kynjafræði í skólum eru annarsvegar þau að jafnréttisfræðsla sé lögboðin og hinsvegar þau að valkvæð kynjafræðikennsla í framhaldsskólum hafi skilað svo góðum árangri.

Fyrir það fyrsta er jafnréttisfræðsla ekki það sama og kynjafræði. Ekki frekar en trúarbragðafræðsla er það sama og kristniboð. Sú kynjafræði sem kennd hefur verið á Íslandi er ekkert annað en feministatrúboð. Jafnvel prófessor Þorgerður Einarsdóttir, lýsir kynjafræði sem „akademiskum feminisma“. Þetta viðhorf staðfesta svo nánast öll skrif íslenskra kynjafræðinga sem birst hafa opinberlega; lítið vottar fyrir vísindalegum vinnubrögðum, heldur er gengið út frá tiltekinni pólitískri skoðun og gervirannsóknum beitt til að renna stoðum undir hana (og þetta á ekkert bara við um íslenska kynjafræðinga).

ugla

Seinni rökin eru að því leyti áhugaverðari að þau fela í sér afhjúpun á hinum raunverulega tilgangi feminista með því að vilja troða kynjafræði upp á grunnskólabörn. Samkvæmt þeim ætti að taka upp kynjafræði sem skyldugrein á grunnskólastigi vegna þess greinilega árangurs sem framhaldsskólarnir hafa náð með því að bjóða upp á kynjafræði sem valáfanga.

Hver er þessi gífurlegi árangur sem kynjafræðin í framhaldsskólunum hefur skilað? Hefur ásókn pilta í framhaldsnám aukist? Eru stúlkur farnar að sporna gegn áreiti fullorðinna sem líta niður á menningu þeirra og vilja fyrir alla muni troða áhugamálum strákanna upp á þær?  – Nei, alveg rétt, feministar líta ekki á þessa hluti sem janfréttismál.

En hvað með það sem feministar sjálfir telja jafnréttismál? Hafa staðalmyndir minni áhrif en áður? Flykkjast strákar í hjúkrun og stelpur í verkfræði? Hefur kynferðisofbeldi verið upprætt? Eru ungir menn hættir að horfa á klám?

Neineinei, ekki aldeilis. Samkvæmt áskoruninni er hinn gífurlegi árangur í því fólginn að nemendur sem að eigin vali hafa setið kennslu í kynjafræði, hafa stofnað feministafélög.

Þar höfum við það; markmiðið með kynjafræðikennslu er fyrst og fremst útbreiðsla feminisma. Þetta kemur ekki vitundarögn á óvart því eins og ég bendi á í þessum pistli er eitt af fjórtán megineinkennum feminisma sókn í kennivald, og ítök feminista í skólakerfinu þjónar því markmiði.

Ef skólayfirvöld bregðast jákvætt við þessari áskorun feministanna, þá setur það dýrmætt fordæmi fyrir aðrar pólitískar og trúarlegar hreyfingar. Sjálfsstæðismenn geta þá til að mynda krafist þess að hugmyndafræði þeirra verði kennd í skólum, á þeirri forsendu að samkvæmt aðalnámskrá sé „velferð“ eitt af lykilorðum skólastarfs og að kynning á hugmyndum sjálfstæðismanna hafi getið af sér fjölda ungliðahreyfinga.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics