Mér er farið að leiðast heimsósómarausið í unga fólkinu. Þessa dagana hamast netverjar við að deila myndum af hópum fólks sem er að skoða snjallsímana sína, ásamt harmkveinum um það hvað þetta sé nú allt hræðilegt; fólk er bara hætt að eiga samskipti, heimur versnandi fer og allt það. Þetta illa rímaða runkljóð eftir einhvern kornungan leiðindagauk sem heitir Gary Turk, lýsir andanum prýðilega.
Kommon krakkar! Haldið þið að mín kynslóð hafi spjallað huggulega við bláókunnugt fólk í strætó og eignast vini á biðstofu heilsugæslunnar eða að fólk af kynslóð ömmu minnar hafi ekki verið einmana? Haldið þið virkilega að í gamla daga hafi fólk alltaf verið að horfast í augu og tala saman? Njóta nátttúrunnar, gera eitthvað skapandi?
Neiónei börnin góð. Við héngum yfir sjónvarpinu á kvöldin og gamla fólkið óskapaðist yfir því að við værum ekki frekar að lesa heimsbókmenntir því þeir sem horfðu á sjónvarp urðu náttúrulega svo firrtir. Stundum vorum við einmana en samt góndum við frekar niður í gangstéttina en að tala við ókunnuga á meðan við biðum eftir strætó. Í nýjum skóla eða vinnustað þóttust þeir feimnu og ómannblendnu vera uppteknir við að lesa tilkynningar á korktöflum. Ég hefði selt sál mína fyrir iphone fyrstu vikuna mína í Flensborgarskóla og ég var ekki einu sinni feimin. Sumir settust niður á kaffistofunni með bók og könnuðu væntanlega félaga út undan sér. Ég prjónaði til að forðast samskipti þótt ég kynni eiginlega ekki að prjóna. Í dag hangir fólk á netinu, áður hékk það yfir engu. Börn voru meira úti jú, en bara af því að það var talið svo hollt fyrir börn að fá fjögur vindstig í andlitið og forheimskandi að lesa teiknimyndasögur.
Ég horfi á tölvuskjá meira og minna allan daginn. Það þýðir ekki að ég sé einmana, firrt eða að samskipti mín við aðra séu merkingarrýrari en fyrir daga netsins og reyndar á ég mun meiri samskipti en áður. Ég kynntist manninum mínum á netinu en þar sem við tilheyrum ólíkum menningarhópum hefðum við sennilega aldrei kynnst nema vegna þess að netið bauð upp á það. Við eigum fjölda vina og kunningja sem við höfum ákveðið að hitta eftir áhugaverðar samræður á Fésinu. Því miður hefur það alltaf verið svo að einmanaleiki og leiði hrjáir nokkuð marga en í dag er netið þó allavega valkostur fyrir þá sem eru ekki í góðum félagstengslum í raunheimum.
Við erum ekki hætt að líta upp og horfa í kringum okkur. Við erum ekki hætt að stunda íþróttir, sækja skemmtistaði, taka þátt í grasrótarstarfi, afla okkur þekkingar, skoða náttúru og menningu, leggja stund á listsköpun og sinna börnunum okkar. Við erum ekki hætt að verða ástfangin og börn eru ekki hætt að klifra í trjám og fá mold undir neglur. Sennilega hefur mannkynið aldrei notið lífsins betur. Við erum ekki einu sinni hætt að hlusta á heimsósómakveðskap, í það minnsta hefur þetta úldna ljóð hans Gary Turk fengið meira en 37 milljónir flettinga, þrátt fyrir nokkuð útbreidda trú á dauða ljóðsins.
Svo hættið þessu gömlukallarausi kæru krakkabörn. Tæknin er dásamleg og fólk er bara ekkert firrtara eða meira einmana í dag en það hefur alltaf verið. Og ef þið trúið því ekki, prófið þá að kíkja á internetið. Þar er hægt að finna grilljón dæmi um það sem þetta ægilega firrta fólk, sem nennir ekki að tala við ykkur á meðan það bíður eftir strætó, gerir þegar það er búið að sækja sér innblástur á samfélagsmiðla og læka myndbönd sem vara fólk við firringunni á internetinu.