Undanfarið hef ég skyggnst inn í kynjaveröld Háskóla Íslands þar sem kvenhyggjusöfnuður starfrækir biblíuskóla á kostnað ríkisins. Tildrög þessara skrifa er nýnemakennsla þar sem gagnrýni mín á trúarbrögðin er til umfjöllunar. Hér má sjá fyrri pistla mína þessu tengda:
Skyggnulýsing 2
Skyggnulýsing 1
Fánaberar fávísinnar
Vill einhver leka í mig leyniskjölum úr kynjafræðinni?
Ég hef ekki aðgang að fyrirlestrinum, aðeins glærum sem notaðar voru til skýringar. Ég hef þegar fjallað um kynningarglæruna og fyrstu glæruna. Þær er báðar nokkuð góðar en nú fara gæðin að koma í ljós.
Andstæðurnar Eva og Okkars
Næstu glæru er ætlað að skýra forsendunar fyrir gagnrýni minni og bera saman við ólíkar forsendur „fræðanna“ fyrir kynjaumræðunni.
Settir eru upp tveir dálkar. Vinstri dálkurinn ber yfirskriftina Eva Hauks og sá hægri ber yfirskriftina Við.
Eva Hauks Við
Við?
„Við“, nemendur og kennarar í kynjaveröld feminismans eða hvað? Eitt af slagorðum kvenhyggjunnar er; „hið persónulega er pólitískt“. Hér hefur því verið snúið við; hið pólitíska er orðið persónulegt. Eva á móti „okkars“.
Tíðkast það í stjórnmálafræðikennslu í háskólum að kennarar stilli sjálfum sér og nemendum upp sem pólitískum samherjum, flokki sig sem lið á móti einstaklingi? Hvernig er þetta hjá Stefaníu Óskarsdóttur? Fá hennar nýnemar sambærilega kynningu á bloggurum sem gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn? Stillir hún, eða hennar aðstoðarkennarar, upp andstæðum á borð við Lára Hanna Einarsdóttir og Við? Eða er Stefanía kannski fagmaður sem kennir fræði?
Uppsetningin á glærunni er í anda „kynjafræðinnar“ sem er ekki fræðigrein heldur með orðum Þorgerðar Einarsdóttur „akademiskur feminismi“
Forsendurnar
Forsendurnar sem mér eru eignaðar eru ekki síður athyglisverðar. Þær eru nógu vitlausar til að vera mér efni í a.m.k. tvo pistla en hér mun ég ræða þær fyrstu: Frjálshyggju og anarkisma.
Frjálshyggja og anarkismi. Ég er ekki að djóka, þetta stendur á glærunni. Og nei, þetta á ekki við umræðuna almennt, þetta eru tveir dálkar yfir mismunandi forsendur og undir nafninu mínu Eva Hauks, stendur Frjálshyggja og anarkismi.
Anarkismi
Það er rétt að kynjapólitísk afstaða mín er anarkísk. Anarkismi einkennist af andstöðu við yfirvald; þeirri skoðun að hver maður megi stjórna lífi sínu sjálfur, svo fremi sem hann skaðar ekki aðra. Anarkismi hafnar forræðishyggju. Önnur anarkísk áhersla sem ég hef haldið á lofti er sú að kúgun minnihlutahópa eigi sér rót í ríkjandi valdakerfi. Það þjóni því ekki jafnréttismarkmiðum að færa konum völd innan sama kerfis, heldur þurfi að bylta kerfinu sjálfu.
Sem dæmi um það hversu illa það þjónar jafnréttinu að færa völd frá fáum körlum til fárra kvenna, getum við tekið íslenska fjölmiðla en feministar tala mikið um að fjölmiðlar geri körlum hærra undir höfði en konum. Ég leyfi mér að vísa til ummæla sem einn lesenda lét falla í framhaldi af þessum pistli:
Yfirstjórnandi RÚV, Katrín Jakobsdóttir, er kona.
Aðaleigandi 365, Ingibjörg Pálmadóttir, er kona.
Aðaleigandi Moggans, Guðbjörg Matthíasdóttir, er kona.
Aðaleigendur DV og Smugunnar eru líka konur.
Eru konur eins valdalausar í fjölmiðlum og af er látið?
Af sömu ástæðum telja margir anarkistar að bann við kynlífsiðnaði sé ekki lausn á vanda þeirra kvenna sem kynlífsiðnaðurinn misnotar. Rót þess vanda liggur í þeirri afstöðu að atvinnurekendur séu yfirvald eða jafnvel eigendur starfsfólksins. Misnotkun þrífst í öllum geirum atvinnulífins og hugmyndin um atvinnurekanda sem yfirvald hverfur ekki þótt einhver starfsgrein verði aflögð. Hinsvegar hefur baráttan gegn kynlífsþjónustu skuggahliðar sem bitna verst á þeim sem ætlunin er að verja. (Þessi grein skýrir anarkíska afstöðu fólks sem er síður en svo hrifið af kynlífsiðnaði og hér er frábær umfjöllun á íslensku.)
Já anarkíska afstöðu kannast ég vissulega við, en frjálshyggju…….?
Af meintri frjálshyggju minni
Ég mun vera fyrsti frjálshyggjumaður veraldar sem hefur ekki aðeins skrifað fjölda pistla um umhverfisaktívisma, heldur líka tekið virkan þátt í baráttu gegn stóriðju. Það hef ég gert bæði vegna umhverfissjónarmiða en þó aðallega á þeirri forsendu að ofurvald stóriðjufyrirtækja grafi undan möguleikum fátæklinga víða um heim til að framfleyta sér og viðhalda menningu sinni.
Hversu oft tala fulltrúar frjálshyggjunnar um hnattvæðingu sem andstæðu markaðsfrelsis og um kapítalisma sem öfgastefnu?
Ég hlýt að vera eini frjálshyggjumaður Íslandssögunnar sem hefur beinlínis talað gegn eignarrétti og stutt pólitískar hústökur bæði í orði og verki.
Hversu margir íslenskir frjálshyggjumenn hafa talað gegn einkavæðingu bankakerfisins?
Hversu algengt er að frjálshyggufólk tali gegn erfðabreyttum matvælum, ekki út frá heilbrigðissjónarmiðum (því um þann þátt veit ég ekkert) heldur út frá óbeit sinni á því að einhver geti átt einkarétt á lífverum?
Veit þetta fólk ekkert um hvað það er að tala?
Kynjafræðin er hluti af stjórnmálafræðinni. MA nemar í kynjafræðum vita væntanlega hvað frjálshyggja er. Frjálshyggja á það sameiginlegt með anarkisma að hafa lítið álit á ríkisvaldi og vilja sem minnst eftirlit með borgurunum. En þar með er það upp talið. Forsendur anarkista og frjálshyggjumanna fyrir andstöðu gegn kynjakvótum og sænsku leiðinni eru gerólíkar.
Frjálshyggja einkennist af áherslu á viðskiptafrelsi. Óheftan kapítalísma og einkavæðingu bæði stofnana og auðlinda. Anarkismi dregur eignarrétt (fram yfir rétt til þeirra hluta sem maður hefur bein not fyrir) hinsvegar í efa, með þeim rökum að misskipting auðs stuðli að myndun yfirvalds. Þetta er grundvallarmunur og jafnvel þótt menn vilji nota skrípahugtakið „hægri anarkismi“, þá skín í gegnum skrif mín og pólitískar aðgerðir, andúð á flestu því sem er með nokkurri skynsemi hægt að flokka sem hægri anarkisma.
Hversvegna í ósköpunum viðgengst það, að í nýnemakennslu í stjórnmálafræði við æðstu menntastofnun landsins, sé pistlahöfundur, sem ítrekað hefur lýst yfir andstöðu sinni við helstu áherslur frjálshyggjunnar, flokkaður sem frjálshyggjuboðberi? Hefur þeim kynjaverum sem kenna þessi „vísindi“ láðst að uppfræða meistaranema sína um muninn á frjálshyggju og anarkisma? Hleypa þessir kennarar MA nemum sínum í nýnemakennslu án þess að ganga úr skugga um hvort þeir hafi kynnt sér málflutning þeirra sem verið er að fjalla um?
Gyða Margrét Pétursdóttir og Þorgerður Einarsdóttir vita alveg hvað frjálshyggja er. En við skulum athuga að þær eru engir venjulegir fræðimenn. Þær eru kynjafræðingar og samkvæmt kynjafræðum er hið vísindalega pólitískt. Ekki verður annað séð en að kynjafræðikennurum Háskólans þyki í lagi að bera þvælu í nýmema, í nafni vísindanna. Þar með hefur slagorðinu „hið vísindalega er pólitískt“ verið snúið við; hið pólitíska er orðið vísindalegt.