_____________________________________________________________________________________
Nýverið sagði Brynjar Níelsson í útvarpsviðtali á Harmageddon að hinar skapandi greinar dældu peningum úr ríkissjóði. Það er ekki alveg rétt. Eins og spyrillinn benti honum á er hægt að reikna það út og niðurstaðan er sú að skapandi greinar velta jafn miklu og álframleiðsla. Nokkrum dögum síðar bárust svo fréttir af því að gestir Eve Fanfest hefðu skilið 400 milljónir eftir í landinu. Einn atburður sannar auðvitað ekkert en þessi skýrsla gefur vísbendingu um að Brynjar ætti að endurskoða þá hugmynd sína að skapandi greinar séu afæta á ríkissjóði.
Brynjar hefur líklega bara átt við óarðbæra menningu
Ég reikna með að þetta hafi verið dálítið vanhugsað hjá Brynjari. Að hann hafi ekki haft allar skapandi greinar í huga heldur það sem í daglegu tali er flokkað sem menning og listir. Ég er ekkert hissa á að fólk rugli þessu tvennu saman því sjálf er ég ekkert viss um það hvaða greinar nákvæmlega eru flokkaðar sem „skapandi“. Listir, auðvitað, en handverk getur átt meira skylt við iðnað en sköpun. Það er heldur engin sérstök sköpun fólgin í því að spila tónlist eftir nótum. Það útheimtir samhæfingu hugar og líkama en það gildir einnig um íþróttir og þegar maður ber saman t.d. dans og fimleika þá sér maður glöggt hvað mörkin milli greina geta verið óskýr.
Mörkin eru víðar óljós. Er matreiðsla skapandi grein? Eða hárgreiðsla? Það er ekki tæmandi listi yfir skapandi greinar í skýrslunni og margt sem telja má „skapandi“ er fremur kallað hugvit og hönnun í daglegu tali. Brynjar hefur líklega ekki verið að hugsa um auglýsingagerð eða stoðtækjahönnun. Kannski ekki heldur um menningartengda ferðaþjónustu eða tölvuleikjagerð. Líklega var hann að hugsa um klassíska tónlist, bókmenntir og sviðslistir og sorrý en Harpan er rekin með tapi, Þjóðleikhúsið líka og ég skil það sjónarmið að ríkið eigi ekki borga fyrir slíka starfsemi. Ég er þó ekki sammála þeirri skoðun.
Fáið ykkur alvöru vinnu
Arðsemiskrafan er helsta röksemd þeirra sem vilja afleggja ríkisstyrki til menningar og lista. Listamaður sem getur ekki selt verk sín á almennum markaði er í þeirra huga afæta. Þeir sömu krefjast þó sjaldan arðsemi af öðrum stéttum. „Fáið ykkur alvöru vinnu“ er eitthvað sem má hreyta í listamenn en ekki opinbera starfsmenn sem skila þó engum hagnaði. Réttlætingin er sú að heilbrigðisþjónusta og vegagerð skili nógu miklum lífsgæðum til þess að rétt sé að samfélagið borgi fyrir þau en fáir hafi slíka unun af klessuverkum á striga eða sprikli á leiksviði að það réttlæti skattpíningu fjöldans.
Vísindamenn eru líka taldir vinna „alvöru vinnu“ en fáar vísindarannsóknir skila þó hagnaði. Af hverju rekum við ekki alla vísindamenn sem ekki skila arðvænlegum uppgötvunum? Kannski vegna þess að enginn hefur ennþá fundið lækningu við krabbameini og ef enginn sinnir þeim rannsóknum mun sú lækning ekki finnast. Kannski vegna þess að tækniframfarir verða þegar einhver uppgötvar eitthvað sem hann hefði aldrei fundið ef fyrirrennarar hans og kollegar hefðu ekki lagt grunn að lausninni með rannsóknum sem dældu peningum úr sameiginlegum sjóðum.
Listin byggir líka á gömlum grunni
Ímyndum okkur að frá árinu 1900 hefðu allir listamenn, menningaráhugafólk og fræðimenn sem ekki gátu lifað af viðfangsefnum sínum hætt að sinna þeim og fengið sér „alvöru vinnu“. Hvernig væri heimurinn í dag? Hvernig hefðu fjölmiðlar þróast? Hvaða fornminjar hefðu glatast og hvaða áhrif hefði það haft á tækniþróun ef enginn hefði séð um að halda þekkingu til haga? Hvaða áhrif hefði krafan um „alvöru vinnu“ haft á iðngreinar? Sem betur fer vitum við það ekki því alltaf hafa verið til listamenn sem vildu frekar búa við sára fátækt en að gefast upp. Kafka átti t.d. sannarlega kost á „alvöru vinnu“ en hann vildi frekar skrifa.
List og menning skilar ekki alltaf beinum hagnaði og vel má vera að sumar skapandi greinar fái meiri framlög úr ríkissjóði en þær skila í hann. En það er ekki endilega frumlegasti listamaðurinn sem vinnur söluvænlegustu verkin og velgengni þeirra er oft ófyrirséð. Ég vona að þingmenn og annað áhrifafólk sem vill svelta menningar- og listageirann velti því fyrir sér hvernig ímynd Íslands yrði án umburðarlyndis gagnvart óarðbærri menningu. Sú listsköpun sem samfélagið hagnast á er kannski ekki sú sem nýtur mestra styrkja en Björk Guðmundsdóttir væri ekki sá tónlistamaður sem hún er ef aldrei hefði verið gefin út tónlist sem enginn vildi borga fyrir, Latibær hefði ekki orðið til ef heimurinn þekkti ekkert óarðbært leikhús og Eve Online hefði ekki orðið til ef enginn hefði skrifað bækur og teiknað myndir sem þóttu nauðaómerkilegt drasl.
Þar að auki eru þess dæmi að list sem þykir ómerkileg í dag þyki frábær á morgun. Sagt er að Van Gogh hafi aðeins selt eina mynd á meðan hann lifði og hefði bróðir hans ekki framfleytt honum er óvíst að nokkurntíma hefðu orðið til þau listaverk sem í dag draga ferðamenn til Hollands til þess að skoða eitt af vinsælustu listasöfnum veraldar. Safnið sjálft er ekki rekið með arðsemiskröfu í huga en hversu miklum peningum ætli ferðamenn verji í Hollandi? Hversu miklu máli skiptir Van Gogh fyrir ímynd Hollands og hversu margir listamenn hafa orðið fyrir áhrifum af verkum hans?
Ætlar Brynjar kannski að fá sér alvöru vinnu?
Rekstur Alþingis kostar 2.633,9 m.kr þ.e. tæplega tvo milljarða, sexhundruð þrjátíu og fjórar milljónir á ári. Ekki hefur verið sýnt fram á hagkvæmni eða nauðsyn þess að reka Alþingi. Mun meira framboð er af þingmönnum en eftirspurn en aldrei hefur verið látið reyna á markaðslögmálin með því að lækka laun þingmanna og skoða hvaða áhrif það hefur á framboðið.
Brynjar Níelsson tekur brátt við starfi hjá Alþingi; stofnun sem dælir meiri peningum úr ríkissjóði en nokkur listastofnun. Laun Brynjars munu kosta skattgreiðendur töluvert meira en framlög til nokkurs listamanns. Ef Brynjari finnst í alvöru að ríkið eigi ekki að dæla peningum í óarðbæra starfsemi þá hlýtur hann að hefja þingmannsferil sinn á því að leggja fram lagafrumvarp um að Alþingismenn sem ekki skila hagnaði skuli sviptir launum og Alþingi lagt niður ef ekki tekst að sýna fram á arðsemi þess. En nú þegar Brynjar áttar sig á því hversu miklum peningum ríkissjóður dælir í þessa afætustofnun, þá er auðvitað líklegast að hann hætti við að taka sæti á Alþingi og fái sér alvöru vinnu.
_____________________________________________________________________________________