Mánudagur 06.05.2013 - 15:05 - FB ummæli ()

Barnsfórnir í Úganda

_________________________________________________________________________

Þar sem fátækt, fáfræði og spilling koma saman er mannslíf lítils metið. Í Úganda eins og víðast í Afríku þykir sjálfsagt að börn vinni erfiðisvinnu og andlát eða hvarf barns er ekki litið alvarlegum augum miðað við það sem við eigum að venjast. Flestir hafa heyrt um hreyfingu Konys og félaga, LRA, og glæpi hennar gagnvart börnum en þeir eru kannski færri sem vita að samkvæmt opinberri stefnu ríkisstjórnarinnar má taka unglinga niður í 13 ára í herinn svo fremi sem samþykki liggur fyrir. Ég veit ekki hvers samþykki er átt við, barsnins eða föður þess (í Úganda hafa mæður engan rétt til barna sinna) . Í samanburði við glæpi Konys þykir það kannski ekki mikið mál að árið 2006 voru 5000 barnahermenn í úgandíska ríkishernum. (Nánari upplýsingar t.d. hér og hér.) Og svo hefur samþykki reyndar ekki alltaf verið neitt stórmál í huga Musevenis og félaga.

 

thumb.aspx

Museveni ræðir við barnahermenn 

 

En það eru ekki bara yfirvöld og andspyrnuhreyfingar sem meiða börn og drepa. Í Úganda eru trúarlegar mannfórnir enn stundaðar og einkum eru það börn sem þykja hentug til fórnargjafa. Þegar búfénaður dugar ekki til að tryggja velþóknun andanna. er börnum rænt og blóð þeirra og innyfli færð gvuðunum að gjöf. Því yngri því betra því sakleysi fórnarlambsins skiptir höfuðmáli. Það ku t.d. vera ávísun á góð viðskipti að grafa lifandi ungbarn í grunn eða vegg fyrirtækis. Samkvæmt þessari grein segist fyrrum töfralæknir hafa tekið við blóðfórnum að jafnaði þrisvar í viku. Vonandi eru það ýkjur en það er ekki umdeilt að slíkur viðbjóður á sér stað.

Helstu ráð foreldra til að verjast barnsránum er að umskera sveinbörn, gata eyru telpna eða merkja þau á annan hátt því fórnarbarn þarf að vera óskaddað til þess að andarnir hafi áhuga. Það dugar þó ekki alltaf til. Einnig kemur fyrir að hvítvoðungar hverfi af sjúkrahúsum. Hér er saga móður sem  fékk þær upplýsingar á fæðingadeildinni að nýfætt barn hennar hefði látist og að búið væri að grafa það. Samkvæmt skjali sem hún fékk því til staðfetingar var barnið þó á lífi. Ekki hefur fengist neinn botn í það hvað varð um barnið og ekki að undra að sögur af þessu tagi veki grunsemdir um að börnum hafi verið rænt af sjúkrahúsum eða jafnvel að þau hafi verið seld. Lögreglan segist ætla að gera allt sem hægt er til að upplýsa málið og stundum nást ungbarnaræningjar en flest barnshvörf eru aldrei upplýst og fátæklingar eiga mjög erfitt með að sækja rétt sinn.

Barnsfórnum mun hafa fjölgað í Úganda á síðustu árum. Eldri börnum er einnig fórnað og í þessu myndbandi kemur fram að lítill vilji virðist vera hjá gerspilltum yfirvöldum til að taka á þessum málum. Hér má m.a. sjá viðtal við móður sem missti barnið sitt á þennan hátt, börn sem hafa lifað af fórnarathafnir og mann sem barn staðhæfir að hafi ráðist á sig en kemst upp með að kaupa sig undan ákæru.

_________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics