Miðvikudagur 08.05.2013 - 15:35 - FB ummæli ()

Þroskaheftir síamstvíburar eða tvíhöfða asni?

_____________________________________________________________________________________

20010303Andri Snær Magnason hefur beðist afsökunar á því að nota orðin þroskaheftur síamtvíburi um væntanlega ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.  Afsökunarbeiðninni beinir hann ekki til stjórnar og félagsmanna umræddra flokka heldur til fatlaðra.  Móðgunin felst þó ekki í því að líkja fötluðum við þessi ógeðfelldu stjórnmálaöfl heldur í því að tala um fötlun sem eitthvað neikvætt.

Umræðan um þetta orðalag Andra Snæs rifjaði upp fyrir mér gömul ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem eitt sinn notaði orðin þríhöfða þurs um þá Davíð Oddsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hannes Hólmstein Gissurarson.  Þá sem nú áttu þursar sér fáa málsvara og ég man ekki til þess að neinn hafi gert athugasemd við þá tröllafordóma sem endurspegluðust í þessum orðum ISG.

Hvaða orð má nota?

Andri Snær hefði auðveldlega komist hjá því að móðga fleiri en hann ætlaði sér bara með því að nota annað orðalag.  Það er óhætt að nota orð eins bjáni, fáviti, heimskingi og vitleysingur til að móðga þá sem maður telur líklega til þess að taka óskynsamlegar ákvarðanir.  Vangefinn, þroskaheftur eða greindarskertur eru hinsvegar líka móðgun við fatlaða og því varasöm.  Ástæðan er sú að merking gömlu orðanna hefur breyst, þau eru notuð um þá sem taka skaðlegar ákvarðanir þrátt fyrr að þeir ættu að vita betur.

Líklega hefði Andri Snær einnig sloppið við gagnrýni á sínum tíma ef hann hefði haldið sig við klikkaða karla, og sleppt því að tala um það sem geðveiki að tífalda bankakerfið á skömmum tíma, í ágætri grein um umhverfismál. Við tölum ekki lengur um geðsjúka sem klikkaða í opinberri umræðu og þessvegna er það tækt í þessu samhengi, geðveikur kemur hinsvegar ekki til greina sem móðgun því það er árás á geðveika að benda á að geðveiki og órökrétt hegðun fari saman.

Það þykir allt í lagi að nota í móðgunarskyni þau orð sem áður voru viðhöfð um fötlun en ekki þau sem eru notuð í dag. Við getum ekki leyft okkur að móðga einhvern með því að kalla hann spastískan mongólíta en kjagandi bjánakeppur er hinsvegar umborið. Einnig má nota heiti dýra, jurta, fæðu og ævintýravera til að lítillækka andstæðinga. Það er móðgun við fatlaða að tala um vonda stjórnmálamenn sem síamstvíbura vegna þess að við notum orðið síamstvíburi ennþá þótt þyki smekklegra að tala um samvaxna tvíbura. Þríhöfða þurs er í lagi enda tölum við ekki lengur um tvíhöfða eða þríhöfða ef dýr eða börn fæðast samvaxin og aðstandendur þursa móðgast síður en aðstandendur þroskaheftra.

En hvað með blinda?

Undarlegt er, í allri þessari rétthugsun gagnvart fötluðum, að enginn fetti fingur út í það þegar talað er um blindu í neikvæðu samhengi. Menn eru sagðir blindir af fordómum, blindir á sjálfa sig, blindir á þá hreyfingu sem þeir styðja, blindaðir af græðgi, hrifningu o.s.frv, jafnvel siðblindir. Hversu lengi ætli við komumst upp með þá líkingu án þess að talsmenn blindra rísi upp á afturlappirnar?

Hversu mikinn þátt ætli tungumálið eigi annars í því að viðhalda fordómum og misrétti gagnvart minnihlutahópum? Nú er í lagi að tala um blindu í neikvæðu samhengi en það er eins gott að vera búinn undir örvahríð ef maður vill líkja einhverjum við þroskahamlaða eða geðveika. Sæta blindir þá meiri fordómum en greindarskertir og geðsjúkir?

 

Orðalag ofar merkingu

Það er ekki  merking orða Andra Snæs sem flestir gagnrýnendur eru ósáttir við heldur meintir fordómar gagnvart fötluðum. Þó vita allir að í daglegu tali er orðið þroskaheftur oft notað í sömu merkingu og hálfviti, sem þykir þó í lagi. Allir vita að það þykir ekki lengur viðeigandi að nota orðið vangefinn um þroskahefta enda þótt það hafi á sínum tíma verið pólitískt réttur arftaki orðsins fáviti og að allar líkur séu á að orðið þroskaheftur fari fyrr eða síðar sömu leið. Svo sterk er kurteisiskrafan í samfélagi sem telur þó allt í lagi að taka ákvarðanir um málefni fatlaðra án þess að skeyta neitt um mat þeirra sjálfra og aðstandenda þeirra.

Jafnframt vita allir hvað Andri Snær átti við. Hann átti ekki við fólk með Downs heilkenni. Hann hefði getað talað um tilvonandi ríkisstjórn sem tvíhöfða asna, ólseiga steikartvennu af risaeðlu og strúti, morkið kremkex, stökkbreyttan kálbanana eða tvíklofinn einfrumung. Merkingin hefði verið sú sama; náin tengsl tveggja stórgallaðra fyrirbæra sem augljóslega skortir heilbrigða skynsemi til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd almennings.

Umræðan um færslu Andra Snæs hefur lítið snúist um það mat hans að tilvonandi ríkisstjórn sé vitsmunalega vanhæf, og flokkarnir tengdir of nánum böndum til þess að annar þeirra geti haft vit fyrir hinum, heldur aðallega um það hvernig hann orðaði þessa skoðun sína.  Og kannski er þessi tilhneiging kjósenda til að hlusta meira á framsetningu en merkingu einmitt ástæðan fyrir því að Engeyjarfíflið og Kögunarkjáninn makka í þessum orðum skrifuðum um það hvernig tryggja megi auðmönnum og stórfyrirtækjum betri kjör, á kostnað náttúrunnar, fátækra og kannski ekki síst fatlaðra. En það er víst öruggast að nota tæpitungu ef við ætlum á annað borð að ræða það.

siamsasni

 

Tvíhöfða asni skipuleggur grillveislu í félagi við hægri asnakjálkann á sér

Myndin er tekin í sveitasælunni í nágrenni Ölfusvatns í morgun. Hafa menn fyrir satt að tvíhöfðinn hafi fengið vöfflur með kaffinu en smáfuglarnir geti reiknað með að þurfa að gera sér að góðu að kroppa lýs og flær af baki hans næstu fjögur árin. Mun það vera útfærsla asnans á svokallaðri brauðmolakenningu.

 

 

__________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics