Það hefur líklega ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með skrifum mínum að í sumar er ég að skrifa pistla um 33 ástæður fyrir því að við ættum að uppræta feminsma. Ég er langt komin með röðina og í dag ætlaði ég að birta pistil um það hvernig feministar og trúflokkar eru látnir um þjónustu sem ætti að vera á höndum hins opinbera.
Ég er dálítið fegin að ég sá þessa frétt áður en ég birti pistilinn og ég ákvað að fresta birtingu hans um óákveðinn tíma. Ég vil nefnilega alls ekki stuðla að þeim misskilningi að Kristín Snæfells og hennar samtök komi feministum eitthvað við en þar sem feministar hafa verið áberandi í allri umræðu um kynferðisofbeldi er hætta á að þeir sem fylgjast lítið með telji „Vörn fyrir börn“ einhverskonar útibú frá Stígamótum. Svo er alls ekki og ég þótt ég sé hjartanlega ósammála hugmyndafræði Stígamóta er ég þó sannfærð um að þeim konum sem að Stígamótum og öðrum kvennaathvörfum standa gengur gott eitt til. Ég er hinsvegar viss um að engum gengur gott til með því að fá barn til að ljúga upp á foreldri sitt og sé það rétt að Kristín Snæfells hafi tekið þátt í slíku afbroti þá vona ég að fólk forðist þessi samtök hennar í lengstu lög.
Mál Kristínar Snæfells og samtaka hennar er gott dæmi um það hversu ómeðvitaður almenningur er um muninn á viðurkenndri faglegri stofnun og samtökum fúskara eða jafnvel skúrka. Um leið og eitthvað er kynnt sem þjónusta við fólk sem á um sárt að binda halda margir að fagmennska hljóti að ráða för. Það er heldur ekki að undra þegar samtökin auglýsa lögfræðilega ráðgjöf og sálfræðiþjónustu. og lýsa sjálfum sér sem fagaðilum með skýrar siðareglur. Margir trúa því einfaldlega að fólk sem auglýsir sig á þennan hátt sé heiðarlegt og eru tilbúinir til að leggja málefninu lið eða að minnsta kosti lýsa yfir mórölskum stuðningi. Í þennan facebookhóp eru t.d. skráðir meira en 1100 meðlimir og meðal þeirra er fólk sem ég er sannfærð um að hefði aldrei lagt nafn sitt við hann ef það hafði vitað hvernig í málinu liggur.
Þess má geta að María Lilja Þrastardóttir, blaðamaðurinn sem skrifar fréttina á vísi, er feministi. Ég hef stundum upplifað umræðuna eins og feministar vilji sem minnst ræða þann möguleika að karlmenn séu ásakaðir um kynferðisglæpi og annað ofbeldi að ósekju. Það hefur vonandi verið oftúlkun hjá mér. Mér finnst gott til þess að vita að innan raða feminsta ríki meðvitund um þessa hættu og María Lilja fær stórt prik hjá mér fyrir að vekja athygli á starfsemi þessara samtaka.