Fyrir liggur úrskurður Persónuverndar um að félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs hafi ekki verið heimilt að krefja umsækjanda um fjárhagsaðstoð um þvagsýni.
Ástæðan sem félagsmálanefnd ber fyrir sig er grunur um að umsækjandi neytti fíkniefna en í reglum félagsþjónustunnar um fjárhagsaðstoð segir:
Heimilt er að synja umsækjendum um fjárhagsaðstoð séu þeir í neyslu áfengis- eða annarra vímuefna, en bjóða aðstoð til að fara í áfengis/vímuefnameðferð s.s. með greiðslu ferðakostnaðar og vasapeninga til einstaklinga sem eru að fara í áfengismeðferð og/eða aðra vímuefnameðferð og aðstoð vegna dvalargjalds á áfangaheimili
Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að hvergi sé að finna í lögum nein þau ákvæði sem réttlæti söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga um þá sem sækja um fjárhagsaðstoð, umfram þær upplýsingar um fjárhagsstöðu sem fram komi í skattskýrslum og launaseðlum.
Viðbrögðin sem ég hef séð við þessari frétt á netinu eru á einn veg, fólk er undrandi og hissa á því að félagsmálanefnd hafi farið fram á lífsýni og flestir eru hneykslaðir. Eftirlit yfirvalda með borgurunum er meira en flestir gera sér grein fyrir.
Það er út af fyrir sig ágætt að hafa fengið staðfestingu á því að félagsmálayfirvöldum sé ekki heimilt að reyna að ala fullorðið fólk upp með þvingunaraðgerðum af þessu tagi. Það verður vonandi til þess að félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs og félagsmálayfirvöld annarsstaðar á landinu virði rétt fólks til þess að ráðstafa sínu eigin hlandi og öðru því sem frá manninum fellur.
Hitt er svo annað mál og verra að líklegast mun enginn þurfa að axla ábyrgð á því að hafa brotið gegn friðhelgi umsækjandans. Afbrot yfirvalda eru nefnilega oftast nær refsilaus. Í skársta falli er skattgreiðendum refsað, því í þeim fáu tilvikum sem þolanda eru greiddar bætur koma þær frá hinu opinbera en ekki þeim sem braut af sér.