Miðvikudagur 21.08.2013 - 22:27 - FB ummæli ()

Fyrstu hundrað dagarnir

Nú sýnist mér um það bil 100 dagar vera liðnir frá því ný ríkisstjórn tók við á Íslandi.

Hér í Bandaríkjunum eru fyrstu 100 dagarnir oft taldir mikilvægir til þess að mæla dug og kjark nýrra stjórnvalda (sjá t.d. hér).

Þetta á rætur að rekja til þess þegar Franklin D. Roosevelt (FDR) varð forseti í Bandaríkjunum 1933 og hleypti af stað ótrúlega miklum þjóðfélagsumbætum á ævintýralega skömmum tíma (meðal voru lagðar helstu útlínur the ´New Deal´). Sjálfur hef ég reyndar skrifað um þetta (sjá til dæmis tvær greinar í American Economic Review hér og hér) þar sem ég færi rök fyrir því að þessar miklu þjóðfélagsumbætur hafi átt þátt í því að rífa bandarískt þjóðfélag upp úr kreppunni miklu fyrr en ella hefði orðið. Fyrstu 100 dagarnir hjá FDR voru með ólíkindum viðburðarríkir og síðan þá hafa þeir alltaf verið mikilvægur mælikvarði nýrra stjórnvalda því þetta er sá tími sem stjórnvöld hafa mestan meðbyr til að hrinda stórum verkum í framkvæmd. Þannig að fyrstu dagarnir 100 eru ágætis prófsteinn.

Þegar Obama tók við völdum var til dæmis sett af stað tiltölulega metnaðarfullt prógram. Meðal annars var hleypt af stokkunum 700 milljarða efnahagsáhætlun, the American Recovery and Reinvestment Act of 2009, lagður var grunnurinn að umbótum í heilbrigðiskerfinu, og ýmisslegt annað.

Metnaðurinn var einnig mikill hjá vinstristjórninni sem tók við völdum á Íslandi um svipað leiti og Obama, og ef til vill of mikill að margra mati. Sótt var um aðild að ESB, grunnurinn lagður að stjórnlagaþingi, breytingum á kvótalögum, lög um Seðlabanka voru endurskrifuð og stjórnin látin fara enda bankinn nýlega gjaldþrota, stórauknu fé veitt í sérstakan saksóknara og í rannsóknarskýrslur Alþingis, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er því athyglivert að skoða hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert á sínum fyrstu 100 dögum.

Hvað stendur eiginlega uppúr? Eiginlega bara tvennt frá mínum sjónarhóli sem er óneitanlega úr nokkurri fjarlægð.

1. Skattar. Strax voru lækkaðir skattar á útgerðarmenn svo nemur 10 milljörðum og svo samstundis boðaður harður niðurskurður í ríkisfjármálum á næstu fjárlögum (því staða ríkisstjóðs sé svo miklu verri en búist var við!). Þetta var gert þvert á ráðleggingar flestra hagfræðinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (og ýmissa annarra ´erlendra skammstafana´). Mér sýnist einnig vera uppi áætlanir um að lækka skatta á auðugustu íbúa landsins (afnema hinn svokallaða auðlegðarskatt) og hugmyndir um að fella niður hæsta skattþrepið. Eina sem sagt hefur verið um fjármögnun er að boðaður hefur verið umfangsmikill niðurskurður ríkisútgjalda, stefna sem hefur reynst afleitlega í Evrópu í miðri niðursveiflu.

2. RÚV. Annað helsta forgansverkefnið var að leggja fram og samþykkja nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið sem kvað á um að Alþingi myndi skipa stjórn þess beint — á þeim rökum að ´Ríkisútvarpið væri svo mikilvægt´ og því þyrfti Alþingi að skipa stjórnina sjálft (ekkert hafði heyrst af þessu heita stefnumáli fyrir kosningar sem lá svo voðalega mikið á að því var troðið í gegnum sumarþing á handahlaupum). Rökin fyrir þessum lagabreytingum voru harla skrítin, helst var á menntmálaráðherra að skilja að ópólitískt útvarpsáð væri ólýðræðislegt. Horfið var þannig frá þeirri stefnu sem þróast hefur undanfarin ár að reyna að minnka bein pólitísk afskipti af RÚV. Sú var nú einmitt tíðin að hið ´lýðræðislega´ útvarpsráð réði því beint og óbeint hverjir væru ráðnir inn á fréttastofu RÚV og væntanlega er hugmyndin að færa það aftur í þetta lýðræðislega horf. Um tíma var það til dæmis þannig, þegar ég var ungur maður, að að einfaldasta leiðin til að fá sumardjobb í sjónvarpsfréttum RÚV var að skrá sig í SUS og Vöku (félag lýðræðissinnaðra stúdenta), vinna dálítið sem aðstoðarmaður Hannesar Hólmsteins í Háskólanum, og þá lá leiðin greið inná RÚV í nafni lýðræðisins væntanlega. (Það verður forvitnilegt að vita hvort svipuðum lýðræðisrökum verði beitt þegar kemur að ´umbótum´ á skipan dómara eða seðlabankastjóra.) Frumvarpið kemur í kjölfar þess að stjórnarþingmenn virðast vera með RÚV á heilanum og telja fréttaumfjöllun í landinu vera einhvers konar allsherjar vinstra samsæri og loftárasir sem svara verði með því að ekki einasta skipa nýja stjórn heldur líka skera fjárframlög niður til RÚV hressilega ef loftárásunum linnir ekki.

Eftir að búið var að breyta lögum um RÚV og lækka skatta á útgerðarmenn fóru flestir í frí og fjárlögum var frestað framyfir venjubundinn tíma — því þau væru svo voða flókin (og þyrftu þannig miklu meiri undirbúning en 100 daga sem virtust þó duga í ´the New Deal´og 700 milljarða efnahagsáhætlun Obama). Helst spurðist af forsætisráðherra í karókí í Danmörku og í Kanada að hella brennivíni yfir leiði rómaðs skálds, og að því er virðist útum allar koppagrundir í óljósum tilgangi. Þetta er óneitanlega athygliverð forgangsröðun þegar manni skildist rétt fyrir kosningar að allt væri á heljarþröm á Íslandi og nú þyrfti ´efndir en ekki nefndir´ eftir ´verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar.´ Litlar spurnir hef ég haft af fjármálaráðherra undanfarið. Er hann kannski búinn að vera í sumarfríi?

Lítið spurðist einnig af helsta baráttumáli Framsóknarmanna sem voru skuldamál heimilanna. Að vísu var samþykkt þingsályktunartillaga um þetta mál á sumarþingi þegar búið var að ganga frá forgangsverkefnunum að breyta lögum um RÚV og lækka skatta á útgerðarmenn. Sigmundur Davíð sagði þessa þingsályktunartillögu vera stærstu aðgerðir í heimi.

Stærstu aðgerðir í heimi voru, sumsé, að skipa nefnd til að leggja til tillögur um aðgerðir.

Ekkert spurðist hins vegar til þessara nefndar, fyrr en fyrir nokkrum dögum þegar í ljós kom að hún hafði ekki einu sinni verið skipuð. Þá var loksins drifið í því um það bil 100 dögum eftir að ríkisstjórnin tók til valda. Nú skilst mér að það séu um 30 dagar til stefnu fyrir nefndina að skila tillögum.

Á fyrstu 100 dögum sínum umbreytti FDR bandarísku þjóðfélagi á meðan það tók SDG 100 daga til að skipa nefnd og setja fram áætlun um að fresta fjárlögum.

Á sama tíma virðist hagvöxtur fara minnkandi og erlendar skammstafanir lækka lánshæfnismat landsins í ljósi sérkennilegrar skattastefnu og óljósrar umræðu um skuldamál heimilanna.

Mig rekur ekki minni til að nokkur ríkisstjórn íslensk hafi byrjað jafn slysalega og sú sem nú situr. En kannski er þetta allt að koma? Ef til vill, en fyrstu 100 dagarnir lofa ekki góðu hvað sem síðar verður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur