Þessi fleygu orð Bubba koma í hugann:
Ekki benda á mig, … Spyrjið þá, sem voru á vakt.
Deilt er um hvort kjörnir fulltrúar megi hafa geðsjúkdóm – og þurfi heilbrigðisvottorð. Hvað með siðspillingu – þurfum við ekki vottorð til þess að mega þjóna kjósendum? Svar mitt er:
Jú.
Ég er líka með tillögu um hvernig megi tryggja þetta – a.m.k. fram að alvöru stjórnlagaþingi.
Frá „búsáhaldabyltingu“ til stjórnlagaþings
Hvað hefur breyst frá búsáhaldabyltingunni? Þá tókst að koma duglausri ríkisstjórn S-flokkanna frá; í óformlegri könnun á www.visir.is í vikunni töldu 84% svarenda íslenska stjórnmálamenn þó enn „upp til hópa“ spillta. Ég er ekki hissa.
Reglur og aðhald – án afleiðinga
Kjörnir bæjarfulltrúar í þremur af fjórum flokkum í bæjarstjórn Kópavogs virðast halda að bara sá spilltasti beri ábyrgð á að trúnaðarmaður íbúanna, skoðunarmaður reikninga (en um leið helsti stuðningsmaður fyrrverandi bæjarstjóra og forystumaður í stærri meirihlutaflokknum), fékk að meðaltali 14 millj. kr. á ári í þóknun fyrir ýmis verk í fimm ár – alls yfir 70 millj. kr.; bæjarfulltrúar segja eitthvað á þessa leið:
Ég vissi þetta ekki, gat ekki vitað þetta; ég skoða ekki hvern reikning, rýni ekki í hverja krónu.
Þeir eru á villgötum; til hvers eru þá siðareglur, stjórnsýslueftirlit, fjölmiðlar og stjórnarandstaða?
Lausnin er til – fyrir aðra en stjórnmálamennina!
Nú er að verða ár síðan íhaldið þæfði tillögu okkar Framsóknarfólks um stjórnlagaþing – sem vinstristjórnin féllst á en virðist nú hafa gefist upp á. Við munum koma á alvöru stjórnlagaþingi – en hvað á að gera þangað til?
Ég þekki af eigin reynslu að framkvæmdarstjóri á litlum vinnustað og forstöðumenn ríkisstofnana bera virkari ábyrgð en yfirmenn þeirra – kjörnir fulltrúar og ráðherrar.
Kerfi sem virkar – en ekki flöskuháls
Þegar ég var í sjö ár framkvæmdarstjóri í hagsmunasamtökum – með fremur fáa starfsmenn en nokkur hundruð milljón króna árlega veltu – reyndi ég að tryggja að kerfið væri þannig að fjáraustur væri útilokaður og spilling ekki til. Þó skoðaði ég ekki hvern einasta reikning sjálfur. Enn síður fóru sjö manna stjórn samtakanna eða sjálfsstæðar sjóðstjórnir yfir alla reikninga – en við komum á og héldum við kerfi sem virkaði og veitti aðhald.
Ríkisforstjórar bera virkari ábyrgð en ráðherrar
Ef forstöðumaður ríkisstofnunar eða annar embættismaður brýtur tilteknar reglur um fjárreiður eða þvíumlíkt víkur ráðherra honum úr embætti um stundarsakir. Þriggja manna nefnd rannsakar svo málið á nokkrum vikum og ákveður hvort hann geti snúið aftur eða víki varanlega úr embætti. Þetta þekki ég vel enda hef ég nokkrum sinnum setið sem fulltrúi ríkisstarfsmanna í slíkri úrskurðarnefnd og kveðið upp úrskurð í slíkum málum.
Ég legg til að við látum ekki sitja við tómar siðareglur og yfirlýsta ábyrgð á nýja Íslandi. Ég hef fengið þá spurningu hvers vegna kjósendur skyldu frekar treysta mér en hinum – enda þekkja ekki allir störf mín og bakgrunn. Ég fengið að heyra:
Við viljum ekki loforð – við viljum virka ábyrgð.
Framsóknarflokkurinn hefur komið sér upp siðanefnd. Kópavogsbær hefur sett kjörnum fulltrúum siðareglur. Enn vantar virknina í kerfið. Fyrirmyndin er þó til eins og ég lýsti hér að ofan. Ekki gengur að næsti „undirmaður“ ráðherra beri virkari ábyrgð en ráðherrann.
Úrskurðarnefnd kjósenda
Ég legg til eftirfarandi lausn:
Ef kjörinn fulltrúi er sakaður um misbeitingu valds, spillingu eða annað, sem kjósendur eiga að geta treyst að viðgangist ekki en geta ekki gengið sjálfir úr skugga um, taki sjálfstæður aðili málið til úrlausnar.
Þetta gæti t.d. verið þriggja manna nefnd eins og reynst hefur ágætlega í tilviki embættismanna ríkisins sem ég lýsti hér að ofan. Þá er kannski aukaatriði hvort nefndin er kölluð úrskurðarnefnd, málskotsnefnd, siðanefnd eða annað og hvernig hún er skipuð – svo fremi að nefndarfulltrúar eru sjálfstæðir og koma úr ólíkum áttum. Fulltrúar þurfa að hafa forsendur til þess að (endur)meta gjörðir eða athafnarleysi hins kjörna fulltrúa. Ekki er heldur aðalatriði hvort slík nefnd er á vegum hvers flokks, hvers sveitarfélags, samtaka sveitarfélaga eða – í tilviki Alþingis – á vettvangi þingsins. Fyrirmyndir má finna víða erlendis, t.d. á þingi Bandaríkjanna. Þegar stjórnlagaþing kemur saman er unnt að hafa eina nefnd fyrir alla kjörna fulltrúa ef vilji stendur til.
Pólitísk ábyrgð verði skjótvirkari en lagaleg ábyrgð
Slíkur pólitískur úrlausnaraðili þarf að vinna hratt og örugglega – hraðar en það tekur að koma fram lagalegri ábyrgð á hruninu; nú hefur rannsóknarnefnd Alþingis starfað í rúmt ár. Þegar skýrsla hennar liggur fyrir eftir fáar vikur þarf Alþingi að taka afstöðu til þess hvort ráðherrar verði ákærðir – og Landsdómur að dæma. Það getur tekið ár í viðbót eða fleiri ár – enda er þar um lagalega ábyrgð að ræða.
Nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar (http://www.althingi.is/altext/138/s/0676.html) um siðareglur nær aðeins til starfsmanna ráðuneyta en gerir að vísu ráð fyrir að forsætisráðherra setji ráðherrum – en Landsdómur á að dæma um það; það er alltof seinvirkt.
Ég er að leggja til skjótvirkara og viðurhlutaminna kerfi varðandi pólitísku ábyrgðina sem kjörnir fulltrúar bera. Aðalatriðið er að endurvinna traust kjósenda; annað er aukaatriði.