Þriðjudagur 16.02.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Misbeiting valds

Ein tegund spillingar eða misbeitingar valds felst í að skara eld að eigin köku eða til handa vinum eða vandamönnum. Um það nefndi ég gróft dæmi um úr Kópavogi í pistli mínum sl. laugardag. Ég benti þó einnig á nýjar siðareglur fyrir stjórnendur og kjörna fulltrúa Kópavogsbæjar – sem eiga að fyrirbyggja spillingu í framtíðinni eins og þörf er á.

 

Pólitísk misnotkun valds vitaskuld einnig bönnuð

Önnur tegund spillingar er misbeiting valds – öðrum til tjóns, stundum nefnd valdníðsla. Siðareglurnar taka ekki eins skýrt á slíku, t.d. hótunum gagnvart stjórnendum eða starfsmönnum bæjarfélags eða trúnaðarmönnum íþróttafélaga í pólitískum tilgangi. Þó að æskilegt væri að siðareglurnar tækju beinlínis á slíku til þess að ná betur yfir sviðið ætti það í raun að vera óþarft því óskráðar og settar lagareglur leggja skýrt bann við misbeitingu valds til þess að ná flokkspólitískum hagsmunum eða persónulegum pólitískum ávinningi.

 Vil ég nefna nokkur dæmi til áréttingar.

 

Valdníðsla 

Óskráðar reglur stjórnsýsluréttar banna svonefnda valdníðslu, þ.e. að vald sé notað í öðru skyni en til þess að ná fram lögmætu markmiði. Afleiðing af valdníðslu getur verið ógilding ákvörðunar eða skaðabætur.

 

 Hótun í pólitískum tilgangi

Þá er atvinnurekendum, stjórnendum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stjórnmálaflokkum með

uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn

eða

fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.

Brot gegn þessu geta varðað sektum og skaðabótum en athyglisvert er að þessar lagareglur hafa verið óbreyttar frá 1938 er sett voru lög til þess að verja hagsmuni launafólks gegn ofríki atvinnurekenda.

 

Kosningamútur og hótanir

Einnig er lagt bann við því í lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna að múta eða hóta, þ.e.

ef maður ber fé eða fríðindi á mann eða heitir manni fé eða fríðindum til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, eða ef maður sviptir mann eða ógnar manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni,

 en slíkt varðar refsingu, yfirleitt sektum.

 

Önnur misbeiting valds

Loks er í XIV. kafla almennra hegningarlaga í nokkrum greinum lögð refsing við ýmis konar misbeitingu valds af hálfu opinberra starfsmanna, t.d. að neyða einhvern til einhvers.

 

Brot verða að hafa afleiðingar

Þessi dæmi nefndi ég m.a. til þess að sýna að til eru ágætar reglur sem eiga að hindra spillingu eða misbeitingu valds – hvort sem er sér og sínum til hagsbóta eða öðrum til tjóns. Ástæða þess að slíkar reglur eiga að virka er m.a. að brot gegn þeim getur haft afleiðingar – eins og ég tiltók – einkum:

  • ógilding,
  • skaðabætur eða
  • refsing.

 

Þessi dæmi má hafa í huga þegar aðrar reglur koma til skoðunar sem ekki eru að virka nægilega vel – vegna þess að litlar eða engar afleiðingar eru af því að brjóta þær.

Um það ætla ég að fjalla í næsta pistli mínum hér, á morgun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur