Mánudagur 15.02.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Hver hagnast á skutlinu?

Enn setja foreldrar fram þá spurningu hvers vegna þurfi að rjúfa vinnudaginn síðdegis til þess að skutla yngri börnum fram og til baka milli hverfa í íþróttir og aðrar tómstundir. Í kjölfarið koma svo tímar fyrir eldri börn og rjúfa heimilisfriðinn í stað þess að fjölskyldan eigi þess kost að safnast saman að loknum vinnudegi flestra.

 

Lausn á þessu vandamáli er eitt af því sem ég set á oddinn í prófkjörsviðureign í febrúar um fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í Kópvogi í vor.

 

Enginn hefur hag af sífelldu rofi

Ljóst er að núverandi fyrirkomulag er engum í hag – nema ef vera skyldi bensínsölum. Atvinnurekendur hafa ekki hag af því að starfsmenn – sem búa ekki alltaf nærri vinnustað – séu sífellt að skreppa frá vinnu til að sinna erindum á borð við að skutla börnum. Yngri börn njóta yfirleitt ekki góðs af því að þeirra „vinnudagur“ sé rofinn þannig að eftir skóla komi töf og svo komi skutl í kjölfarið; betra er fyrir þau að ljúka skipulögðu skóla- og tómstundastarfi á svipuðum tíma og vinnudegi foreldra lýkur og eigi svo óslitnar samverustundir með þeim í kringum matmálstíma. Foreldrar hafa ekki hag af því að draga úr vinnuafköstum og samfellu áður en vinnudegi lýkur enda dregur það úr framleiðni þeirra og þar með mögulegu sannvirði launa og getur seinkað vinnulokum eða flutt vinnuna heim í stofu að kvöldi í stað þess að eiga frí þegar heim er komið. Við Íslendingar þurfum að huga að leiðum til þess að auka framleiðni í öllum greinum. Sérstaklega bitnar þetta á konum þar sem mæður bera enn frekar meginþunga ábyrgðar á heimili og börnum þrátt fyrir ýmsar umbætur á undanförnum árum – einkum í kjölfar laga um fæðingarorlof fyrir 10 árum sem ég tók virkan þátt í að semja og koma á í fyrra starfi. Þá verður ekki séð að sveitarfélagið eða stofnanir þess, t.d. grunnskólarnir hagnist á þessu sundurslitna fyrirkomulagi enda gæti ein lausnin beinlínis falið í sér tekjumöguleika fyrir lítt nýttar almenningssamgöngur. Loks veit ég ekki til þess að íþróttafélög hafi hagsmuni af því að yngri börnin séu í þjálfun svo seint enda ætti breyting fremur að gagnast hinum eldri að loknum vinnudegi þeirra. Ekki þarf að ræða óhagræðið sem umferðarmannvirki og umhverfi hafa af þessu fyrirkomulagi okkar íbúa í Kópavogi og nágrenni.

 

Markmiðið er skýrt: samfella; lausnin er til umræðu

Fyrirfram vil ég ekki gefa mér að ein lausn sé betri en önnur – hvað þá sú eina færa – heldur vil ég í sönnum samvinnuanda setja fram skýrt markmið um samfellu í þágu barna, foreldra, atvinnurekenda og annarra hagsmunaaðila. Ein lausnin, sem nefnd hefur verið, er frístundaakstur eins og kynntur hefur verið af hálfu varaborgarfulltrúa í Reykjavík og þegar hefur verið hrint í framkvæmd í Hafnarfirði í samvinnu við nokkur lykilfyrirtæki þar í bæ. Önnur lausn tíðkast í Skandinavíu – frístundaheimili sem sér um að koma börnum frá skóla í íþróttir og aðrar tómstundir. Þriðja lausnin gæti verið eitthvað á þá leið að sveitarfélagið Kópavogur hefði forgöngu um að foreldrar, skólastjórnendur og ekki síst forsvarsaðilar íþróttafélaga og annarra, sem bjóða upp á tómstundir með stuðningi bæjarins, kæmu saman og fyndu lausn fyrir tiltekinn tíma, svo sem að ræða hvort ekki megi skipuleggja íþróttaþjálfun yngri barna í auknum mæli í eða nærri skólahúsnæði strax að loknum skóladegi þeirra. Þá gætu eldri börn, unglingar og fullorðnir nýtt tímann síðdegis og í kringum kvöldverð betur.

 

Samráð við foreldra lykilatriði

Ég legg mikla áherslu á samráð við hagsmunaaðila í öllum málum sem ég á þátt í að ráða til lykta og tel samtök foreldra lykilaðila í þessu sambandi enda hef ég góða reynslu af slíku foreldrasamstarfi frá því að ég var meðal stofnenda og fyrsti formaður foreldrafélags nýs leikskóla hér í Kópavogi fyrir tæpum áratug.

 

Enginn hagnast á núverandi fyrirkomulagi; samvinnulausn í anda markmiðs um samfellu gagnast öllum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur