Fimmtudagur 18.02.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Áskorun um breytingar í Kópavogi

Á morgun, föstudag 19. febrúar, rennur út frestur til þess að skrá sig í Framsóknarflokkinn fyrir þá sem vilja hafa áhrif á mannval í prófkjöri okkar Framsóknarfólks laugardaginn 27. febrúar nk. Þetta er ykkar persónukjör.

 

Traust

Ég býð mig fram til þess að leiða lista Framsóknarflokksins í bæjarstjórnarkosningum í vor. Þörf er á að efla forystu flokksins í Kópavogi og breyta starfsháttum í stjórn bæjarins. Til þess að slík breyting verði þurfa flokksfélagar að íhuga – hver fyrir sig – hvernig best sé að skipa 1. sætið svo að stjórn Kópavogsbæjar sé traust. Kosningarnar fela í sér tækifæri fyrir Framsóknarflokkinn – ef okkur tekst að ná trausti Kópavogsbúa.

 

Ég er fertugur þriggja barna faðir, fæddur í Noregi, sonur Tryggva Gíslasonar, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri, og Margrétar Eggertsdóttur, fyrrverandi grunnskólakennara. Ég er stúdent af íþróttabraut frá Danmörku, lögfræðingur og með MBA í mannauðsstjórnun. Undanfarin fimm ár hef ég verið talsmaður neytenda. Áður var ég í sjö ár framkvæmdarstjóri BHM og lögmaður. Ég hef búið í Kópavogi í áratug og verið í forystu í félögum foreldra, skógræktarfólks og lóðareigenda. Í 15 ár hef ég verið í Framsóknarflokknum og gegnt þar trúnaðarstörfum, nú síðast sem formaður laganefndar. Einnig átti ég frumkvæði að því að Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir stjórnlagaþingi.

 

Samvinna

Kraftar mínir geta nýst Kópavogsbúum – einkum reynsla mín af stjórnun, félagsstarfi og opinberum rekstri. Þá mun áralöng vinna mín að réttindamálum stúdenta, launafólks og neytenda nýtast í bæjarmálum þar sem sífellt þarf að forgangsraða í þágu grunnþjónustu, forvarnarstarfs og velferðar heimilanna. Í störfum mínum hef ég séð hversu mikilvægt er að leita lausna í samvinnu við fólk með ólík sjónarmið.

Hlutverk sveitarstjórnarfólks á miðju stjórnmálanna hefur aldrei verið mikilvægara. Sú skuldborg sem ríkisstjórn vinstriflokkanna hefur haldið heimilum og fyrirtækjum í eykur enn þörf á skilvirkni og gæðum opinberrar þjónustu fremur en að hækka frekar álögur á skattgreiðendur. Lykillinn að því er aukin þátttaka íbúa og samvinna í stað samkeppni milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu – ekki síst í skipulags- og samgöngumálum.

 

Heilindi

Ég býð ykkur öll velkomin til þess ræða af heilindum hverju þið teljið að þurfi að breyta í Kópavogi og kynnast áherslum mínum frekar. Kosningamiðstöðin er að Smiðjuvegi 6 (rauð gata) – gislit@ru.is, sími 517 07 04, GSM 897 3314. Lesa má um áherslur mínar á fasbók og á http://blog.eyjan.is/gislit/.

Ég vil hag Kópavogs sem mestan, mun sýna málefnafestu og starfa í hvívetna með hagsmuni Kópavogsbúa að leiðarljósi. Sækjum fram saman.

 

Grein sem birtist í Kópavogs-

póstinum / Framsýn í dag.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur