Föstudagur 19.02.2010 - 13:30 - FB ummæli ()

Tíu klukkustundir til stefnu – ef þú vilt taka þátt í samvinnufélaginu Kópavogi

Nú á miðnætti rennur út frestur til þess að skrá sig í Framsóknarflokkinn fyrir prófkjörið laugardaginn 27. febrúar.

 

„Sami rassinn undir þeim öllum“

Komist ég til forystu í Framsóknarflokknum mun misbeiting valds ekki líðast í Kópavogi. Hví skyldu lesendur vilja skrá sig í flokkinn – í þeirri trú að ég vilji breytingar? Svarið við slíkum spurningum má lesa í pistli mínum á hér á Eyjunni sl. miðvikudag, 17. febrúar.

 

Undanfarið hefur Kópavogur fetað sömu braut og Ísland almennt – og er dæmigerður fyrir okkur Íslendinga: uppbyggingin hefur farið of geyst – og í sumum tilvikum er hún án nægrar innistæðu. Það má laga eins og ég lýsi í þessum stutta pistli. Fleira þarf að laga í stjórn Kópavogsbæjar eins og ég hef lýst í pistlum mínum á hér.

 

Traust fjárhagsstjórn forsenda þjónustu

Ýmsu hefur verið áorkað í 20 ára stjórnartíð Framsóknarflokksins í Kópavogi; uppbygging innviða og þjónustu gekk vel og fjölskyldubærinn Kópavogur sinnir þörfum íbúa vel, t.d. með sundlaugum, félagsstarfi aldraðra og stuðningi við hin fjölmörgu íþróttafélög og annað tómstundastarf.

 

En hvernig skyldi þjónustuhlutverkið ganga í framtíðinni? Það fer ekki síst eftir því hvort fjárhagsstjórn verður traust, meiri samvinna næst við nágrannasveitarfélög Kópavogs og heilindi verða í störfum bæjarstjórnar.

 

Vinnum saman á fleiri sviðum

Framsókn hefur lengst af staðið fyrir samvinnu. Oft gleymist að sveitarfélag er fyrst og fremst samvinnufélag – samvinna við íbúa, nágrannasveitarfélög, atvinnulíf og ríkisvald. Ef sveitarfélög eiga ekki að fara sömu leið og nágrannasveitarfélag okkar á Álftanesi og ef íbúar vilja skoða aðra kosti en sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er aðalsmerki okkar Framsóknarfólks svarið: samvinna.

 

Ýmis ágæt dæmi eru um samvinnu milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, svo sem byggðasamlögin Strætó og Sorpa. Betur má ef duga skal í því efni. Einnig mætti fjölga málum sem við vinnum saman að því að leysa á hagkvæman hátt. Sem dæmi má nefna gamalt kosningamál Framsóknar: sundlaug í Fossvogi. Þá má spyrja hvers vegna Kópavogur þurfi sérstaka vatnsveitu. Enn fremur gætu falist tækifæri í samstarfi í félags- og velferðarmálum, t.d. um Félagsbústaði sem borgin rekur. Loks er öllum augljóst að aukin samvinna í skipulags- og umferðarmálum er brýn nauðsyn.

 

Endurreisum samvinnurekstur

Kópavogur gæti líka ýtt undir að samvinnufélög kæmu að félagslegum rekstri á borð við leikskóla og öldrunarþjónustu. Slíkt á frekar að vera í samfélagslegum rekstri en í einkarekstri eins og farið er að tíðkast.

 

 

Skráðu þig hér fyrir miðnætti ef þú vilt hafa áhrif á mannvalið: http://www.framsokn.is/Forsida/Taka_thatt

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur