Laugardagur 20.02.2010 - 23:58 - FB ummæli ()

Ármaður íhaldsins

Ármaður þýðir forystumaður eða samkvæmt orðabók „umboðsmaður konungs eða stórhöfðingja“ – væntanlega á hverjum stað. Það er því vel við hæfi að nýr forystumaður Sjálfstæðismanna hér í Kópavogi heitir Ármann Kr. Ólafsson.

 

Sjálfstæðismenn ákváðu breytingu á forystu

Um leið og ég óska honum til hamingju get ég ekki stillt mig um að benda á að þar með hafa Sjálfstæðismenn ákveðið með nokkuð afgerandi hætti að skipta um forystumann. Rúm 52% þátttakenda í prófkjöri þeirra greiddu Ármanni atkvæði sitt til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor. Um 40% kusu Gunnar I. Birgisson, fráfarandi oddvita listans. Aðra efst á listanum þekki ég flesta ágætlega og líst nokkuð vel á. Ármann hef ég þekkt í aldarfjórðung og af góðu einu.

 

Ný forysta til Framsóknar?

Báðir meirihlutaflokkarnir hljóta að vera í svolítilli vörn miðað við stöðu bæjarmála og einkum fjármála eftir þróun undanfarinna ára (sjá næsta pistil minn, á morgun). Eftir farsælt samstarf lengst af í 20 ár er þörf á að snúa vörn í sókn – eins og Sjálfstæðismenn hafa ákveðið nú. Spennandi verður að sjá hvort Framsóknarfólk ákveður líka að skipta um forystu fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor en prófkjör okkar fer fram eftir viku. Ég gef sem kunnugt er kost á mér sem oddviti í því skyni að gefa val um nýja forystu til Framsóknar.

 

Verður Framsókn aftur fyrst til að skipta alveg um forystu

Áhugavert verður að sjá hvað Framsóknarfólk gerir – því nú hafa stóru flokkarnir tveir, S-flokkarnir, valið sitjandi bæjarfulltrúa sem oddvita sinna lista. Ef enginn breyting verður á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs – eftir rétta viku eins og að líkum lætur er Framsóknarflokkurinn því eini flokkurinn af fjórum sem á þess kost að skipta alveg um forystu; þar erum við tveir sem skorum á hólm sitjandi oddvita, bæjarfulltrúa okkar. Hinir flokkarnir þrír stefna, sem sagt, fram með sitjandi bæjarfulltrúa sem oddvita.

 

Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem þessi gamli frjálslyndi flokkur okkar yrði fyrstur til umbóta; nýlegustu dæmin um það eru þegar Framsóknarflokkurinn var fyrsti flokkurinn eftir hrunið til þess að skipta alveg um forystusveit í janúar í fyrra er við kusum nýjan formann, nýjan varaformann og nýjan ritara – auk þess að leggja fyrst til stjórnlagaþing. Endurnýjuninni var haldið áfram í Reykjavík í nóvemberlok er farsælum oddvita okkar var skipt út fyrir annan ferskari; skyldi endurreisnin ná til Kópavogs?

 

Hverjum viltu vinna með?

 Ekki er úr vegi að birta hér spurningu oddvita Samfylkingarinnar í athugasemd frá í gær við færslu mína fyrir réttri viku og svar mitt:

Í lokin er ástæða til að spyrja oddvitaefni Framsóknarflokksins í Kópavogi: Með hverjum kýst þú að vinna að loknum kosningum í vor? Ætlar þú að feta í fótspor forvera þinna og horfa til vinstri fram að kjördag, en starfa svo til hægri?

Svar mitt var þetta:

Forsendan er að vísu röng, Guðríður, því é[g] þarf ekki að horfa til vinstri fyrir kosningar, sbr. ofangreindan bakgrunn minn – heldur bara beint áfram. Ég get unnið til hægri eins og þarf að vissu leyti vegna óráðsíðu undanfarinna ára, t.d. Glaðheima. Ég get og þarf líka að vinna til vinstri vegna hags fjölskyldna og ef vinstrimenn eigna sér siðbót. Vissulega skipta málefni miklu máli en í sveitarstjórn skipta ekki síður máli persónur og leikendur enda á orkan að fara í að vinna að hag bæjarbúa fremur en innbyrðis (jafnvel persónulegar) deilur. Ég er – ólíkt sumu núverandi forystufólki flokka í Kópavogi – fær um að vinna með öllum; sjáum til hvernig fer í kvöld hjá íhaldinu. Ármann hef ég þekkt af góðu einu í 25 ár og Gunnari hef ég reyndar góðar reynslu af samstarfi við sem fulltrúi lóðareigenda við Lindasmára (meira um það síðar). Þér gæti ég líka vel hugsað mér að vinna með Guðríður. Núverandi oddvita VG þekki ég minnst en hann er mikill hjólamaður eins og ég svo það lofar góðu.

Sjá nánar hér:

http://blog.eyjan.is/gislit/2010/02/13/enginn-er-domari-i-eigin-sok/#comment-31

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur