Eftir ræðu mína á frambjóðendafundi Framsóknarfélaganna í Kópavogi sl. fimmtudag komu nokkrar spurningar til okkar. Ein þeirra varð mér tilefni til þess að minna á aðstöðumun ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að því að flytja verkefni til sveitarfélaga og ákveða tekjustofna til þess að sinna þeim. Um leið benti ég á að ég hefði um 15 ára reynslu af því að semja fyrir eða verja aðila sem standa veikar að vígi en gagnaðilinn – þ.e. stúdenta, launafólk og neytendur.
Einhliða vald ríkisins
Iðulega ákveður ríkið einhliða – formlega séð en þó oft að undangengnu einhverju, misgóðu og mismiklu, samráði – að fela sveitarfélögum ný eða breytt verkefni. Þegar kemur að því að semja um eða ákveða fé til þess að sinna þessum verkefnum eru sveitarfélögin oft í síðri stöðu en ríkið – sem á endanum hefur bæði löggjafarvaldið (til þess að flytja verkefni til eða frá) og fjárstjórnarvaldið. Eina reglan sem styður rétt sveitarfélaga er sjálfstæði sveitarfélaga sem er stjórnarskrárvarið eins og fjárstjórnarvald ríkisins; sjálfstæði sveitarfélaga er hins vegar að því leyti „tómt“ að það skal nánar skilgreint í lögum – frá Alþingi.
Í fjárstjórnarvaldi felst vald til þess
- að skattleggja til að afla tekna til opinberra verkefna (skattlagningarvald) og
- að veita fé til verkefna (fjárveitingarvald).
Stjórnlagaþing – m.a. til að jafna stöðuna
Til þess að jafna stöðuna hef ég innan Framsóknarflokksins stungið upp á að nýta væntanlegt stjórnlagaþing – sem Framsókn átti frumkvæði að því að leggja til og reyna að koma á – til þess að jafna þessa stöðu. Róttækasta leiðin væri að flytja fjárstjórnarvaldið í ríkari mæli til sveitarfélaga – sem síðan myndu skammta ríkinu fé til sameiginlegra verkefna. Sjálfur hef ég frekar aðhyllst eftirfarandi sem æskilega niðurstöðu:
Ef ríki og sveitarfélög ná ekki sáttum um hvernig skipta á tekjum eða deila skattlagningarvaldi tekur gildi einhver sjálfgefin regla um skiptingu tekna – og þarafleiðandi útgjalda til fjárveitinga.
Þetta þarf að ræða frekar og þróa – en þetta er mitt fyrsta opinbera upplegg.