Miðvikudagur 24.02.2010 - 23:59 - FB ummæli ()

Ég lofa…

Í sinni frægustu af mörgum frábærum ræðum, Gettysburg-ávarpinu þegar borgarastyrjöldin bandaríska stóð sem hæst 1863, mælti Abraham Lincoln forseti þau fleygu orð að stjórnvöld ættu að vera

of the people, by the people, for the people

Það þýðir væntanlega í stuttu og einfölduðu máli að handhafar opinbers valds séu úr hópi borgaranna en ekki úr sérstökum stéttum (fulltrúalýðræði), að fulltrúar séu kjörnir af almenningi (lýðræði) og að stjórnvöld starfi í þágu borgaranna (réttarríki). Vonandi náum við Íslendingar fljótlega þessu marki betur en við höfum gert síðan formlegt lýðræði komst hér á í byrjun 20. aldar. En er það nóg?

 

Traust, samvinna og heilindi?

Nei; ég held að eftirspurn sé eftir meiru nú þegar framboðið er ágengara og e.t.v. óvinsælla en oft áður; hvernig á fólk t.a.m. að trúa mér þegar ég segi að ég vilji endurreisa traust á stjórn Kópavogsbæjar, að Framsókn muni á ný bjóða samvinnu og að ég standi fyrir heilindi?

Í því skyni að endurvekja traust kjósenda vil ég setja fram stutt og einfalt loforð – í líkingu við það sem forseti Íslands gaf í skyn er hann var spurður í aðdraganda forsetakjörs 1996 (en hefur reyndar ekki staðið við); ég hef að vísu ekki verið spurður – en ég varð hugsi um daginn þegar fram kom að kunnur og að mörgu leyti farsæll sveitarstjórnarmaður fyrir austan hefði gegnt sveitarstjórnarstörfum í hartnær þrjá áratugi, ef ég tók rétt eftir. Ég held að það sé of langur tími. Ég held að eitt af okkar vandamálum sé þaulseta kjörinna fulltrúa – þangað til þeim er nánast kastað út í stað þess að hætta „á toppnum“ eins og sagt er.

Stjórnmálamenn verða að hafa eitthvað meira til að bera en að koma sér í mjúkinn hjá kjósendum og sitja svo sem lengst og fastast; kjörnir fulltrúar verða að hafa að einhverju öðru að hverfa að loknum stjórnmálaferli auk þess sem oft er hægt að gera ráð fyrir öðrum störfum samhliða, a.m.k. á sveitarstjórnarstiginu.

 

Hvorki tilviljun að hámark er sett á embættissetu…

Síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum fyrir um aldarfjórðungi og hóf skömmu síðar að nema lög hef ég hugsað þetta mikið; ég held að það sé engin tilviljun að stjórnarskrár merkra lýðræðisríkja á borð við Bandaríki Norður-Ameríku og ýmissa yngri lýðræðisríkja setja í stjórnarskrá hámarkstíma á setu í valdamiklum embættum, svo sem forsetaembætti. Sama á við um ýmis samtök; t.a.m. var ýmist sex eða átta ára hámark sett á kjörgengi fulltrúa í stjórnum Bandalags háskólamanna og sjóða sem BHM sér um rekstur á en þar starfaði ég sem framkvæmdarstjóri um sjö ára skeið. Stjórnarformennska er að vísu talin sérstaklega í þeim samtökum.

 

… né að reynt er að komast hjá hámarkinu

Þá er það ekki tilviljun að í yngri og minna þróuðum (lýðræðis)ríkjum á borð við Rússland og einhverjum S-Ameríkuríkjum hafa valdamenn á borð við forseta reynt að komast hjá slíkum hámarksreglur; valdastólarnir eru mjúkir. Ýmist hafa þeir reynt að breyta stjórnarskrám eftir á eða fengið leppa til að sitja fyrir sig í eitt kjörtímabil þar til þeir geta fengið besta sætið aftur.

 

… að reyna ekki að sitja endalaust

Ég vil því ekki aðeins stinga upp á – heldur beinlínis lofa – að ef ekki verða sett lög um hámarkslengd (óslitinnar) setu kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn muni ég fyrirfram setja fram slíkt loforð sjálfur; til að auka spennuna og fá fyrst ráð frá lesendum og væntanlegum kjósendum ætla ég að leita ráða hjá ykkur um nánari útfærslu. Í athugasemdum við þessa færslu á morgun, fimmtudag, eða á öðrum tiltækum vettvangi getið þið lagt til lausn á því hvernig er heppilegast að útfæra þetta sjálfskipaða hámark á setu mína í bæjarstjórn Kópavogs nái ég kjöri þar. Þar er t.d. hægt að skiptast á skoðunum um hvort hámarkið á að vera 1, 2 eða 3 kjörtímabil; telji einhver að „hámarkið“ eigi að vera 0 kjörtímabil er málið auðleyst:

Þá kjósið þið mig ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur