Föstudagur 26.02.2010 - 16:40 - FB ummæli ()

Er Álftanes í raun Kanarífugla-nes?

Í morgun hitti ég óflokksbundinn Kópavogsbúa í hverfisbakaríinu. Kom hann að máli við mig og sagði að ekkert væri talað um aðalmálið – fjármálin; allir væru að tala um gæluverkefni sem þeir hefðu áhuga á eða teldu að myndu höfða til kjósenda. Enginn hefði áhuga á að setja fjárhagsstöðu bæjarins á oddinn – eins og þyrfti.

Þetta er brjálæðisleg skuldsetning,

 

sagði hann og vísaði m.a. til þess að hann væri í íbúðarleit og skynsamlegast væri líklega að leita í Garðabæ.

 

Er Álftanes kanarífuglinn í námugöngunum?

Ég var með þennan pistil í smíðum og var því ágætlega undir ábendinguna búinn. Skömmu eftir hrun kom fram sú samlíking að Ísland væri eins og kanarífuglinn í námugöngunum. Líkingin stafar frá þeirri varúðarráðstöfun að senda kanarífugl inn í göng á undan námumönnum til þess að ganga úr skugga um hvort súrefnisskortur eða eiturefni séu þar sem geti orðið mönnum að aldurtila; detti fuglinn dauður niður eru gerðar ráðstafanir.

 

Skilyrði góð í Kópavogi – ef…

Nú vaknar sú spurning hvort Álftanes sé kanarífugl sveitarfélaganna; fyrir liggur að þetta litla sveitarfélag er komið í gjörgæslu á vegum ríkisins – en stefna önnur sveitarfélög í sömu átt eins og fréttir vikunnar benda til? Ég vona ekki og vænti þess ekki hvað Kópavog varðar.

Hér í Kópavogi eru aðstæður þessar. Hröð og mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu ár. Fyrir vikið eru í bænum tilbúnir innviðir, t.d. götur og lagnir – en skuldir á móti. Um leið og fólk og fyrirtæki hafa skilyrði til þess að nýta sér þessa innviði – og flytja inn og skapa atvinnu mun Kópavogur blómstra að nýju.

 

… ekki verður almennur landflótti – og…

Í Kópavogi búum við svo vel að við getum áfram haft ágætt tekjustreymi fyrir bæjarsjóð og þar með haldið í hátt þjónustustig fyrir Kópavogsbúa – einkum ef samstarf við önnur sveitarfélög og samþætting þjónustuþátta eykur skilvirkni. Það er þó háð því að ekki bresti á almennur landflótti – í boði ríkisstjórnar vinstriflokkanna. Ekki má gera lítið úr þessum kostum og tækifærum Kópavogsbæjar.

Þessi góða spá mín er hins vegar skilyrt; við höfum ekki efni á fleiri mistökum í fjárhagsstjórn og stjórnsýslu bæjarins.

 

… ekki verða gerð frekari mistök

Eins og Íslendingar flestir veðjaði fyrri og fráfarandi bæjarstjórn á að hér yrði áframhaldandi (endalaus) veisla; það veðmál brást. Stjórnendum og kjörnum fulltrúum Kópavogsbæjar verður ekki kennt frekar en okkur hinum um þá (ofur)bjartsýni. Ein helsta ástæða þess að skuldastaða bæjarsjóðs þrefaldaðist milli ára er nefnilega aukin lóðaskil, sem borgararnir eiga lögvarinn rétt á. Núverandi efnahagur og rekstrargrunnur Kópavogs er því að miklu leyti afleiðing efnahagskreppu í kjölfar bankahruns. 

 

Höfum ekki efni á öðrum Glaðheimamistökum

Ekki er staðan þó að öllu leyti kreppunni að kenna. Fráfarandi og fyrri bæjarstjórnir bera vissulega ábyrgð á því sem réttnefnt er Glaðheimamistökin; vitaskuld ber að standa við gerða samninga við hestamenn. Bæjarstjórn ber ábyrgð á ákvörðun fyrrverandi bæjarstjóra og samþykkt þáverandi meirihluta bæjarstjórnar. Þar á meðal var þáverandi oddviti 3ja manna bæjarstjórnarflokks Framsóknarflokksins – sem eftir kosningarnar í kjölfarið 2006 varð eini bæjarfulltrúi míns flokks! Á hinn bóginn mun minnihlutinn hafa gert fyrirvara þegar málið kom til lokaafgreiðslu og ýmsir vikið sæti sem tengdust hagsmunum á svæðinu.

Í ákvörðun um uppkaup á Glaðheimalandi fólst gríðarleg sprenging á land- og lóðaverði í kjölfar áhættukaupa vafasamra aðila á skipulögðu og rótgrónu hesthúsalandi – sem var í sátt við byggðina og starfsemina í kring. Þeir sitja með gróðann sem keyptu hestamenn út af Glaðheimalandinu og prönguðu því svo inn á bæjarstjórn – sem ákvað skyndilega að láta bæjarsjóð ganga inn í samningana. Hinir, sem keyptu landið svo aftur af Kópavogsbæ, til þess að skipuleggja það hafa ýmist þegar samið um skil á því til bæjarins og endurgreiðslur – á verðbótum – eða óskað eftir að skila því; stefnir í málaferli um það.

Eftir sitja íbúar – skattgreiðendur – Kópavogs með ofgnótt vannýtts lands og margfaldar skuldir.

 

Ég hef spurt ráðherra um stöðu Kópavogs

Í fréttum í vikunni var gefið til kynna að fleiri sveitarfélög væru í athugun eins og þeirri sem var undanfari gjörgæslu Álftaness. Skyldi Kópavogur vera þar á meðal? Af því tilefni hef ég sem Kópavogsbúi og oddvitaefni nýrrar Framsóknar með vísan til upplýsingalaga óskað skriflega eftir gögnum frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála, samgönguráðuneytinu, sem geta upplýst mig um

hvort fyrir liggi ákvörðun um stöðu Kópavogsbæjar gagnvart eftirlitsaðilum ríkisins vegna fjármála bæjarins og hver sú staða sé.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur