Mánudagur 01.03.2010 - 23:59 - FB ummæli ()

Enginn verður óbarinn…

Ég geng ósár frá leik.

Eftir innanflokksprófkjör Framsóknarflokksins hér í Kópavogi um helgina á ég fleiri vini og samherja en áður – og enga óvini svo ég viti. Auk þess er ég reynslunni ríkari. Ég þakka ykkur kærlega fyrir mig – bæði vinum, frábæru stuðningsfólki, góðum ráðgjöfum, fjölmörgum kjósendum og ýmsum öðrum.

 

Drengileg barátta

Ég vona að millifyrirsögnin feli ekki í sér karlrembu. Fyrir utan frábæra hjálp (og sæmilegan árangur með um 27% hlut hvors okkar tveggja áskorenda gegn sitjandi oddvita sem hlaut um 40%) er ég ánægðastur með þetta: Ég var varla kominn upp úr heita pottinum í Kópavogslauginni eftir fyrstu tölur snemma á laugardagskvöld og rétt búinn að fá lokatölur í hendur þegar mótframbjóðendur mínir hringdu að fyrra bragði í mig. Þeir þökkuðu mér fyrir drengilega baráttu – og ég þeim enda varð ég ekki var við neitt skítkast í minn garð. Einhver benti á það á fasbókinni að ég væri fyrsti „pólitíkusinn“ sem fékk jákvæða umsögn um sig á www.dv.is.

Oddviti okkar Framsóknarfólks í Kópavogi, Ómar Stefánsson, sem varði stöðu sína örugglega og endurnýjaði umboð sitt glæsilega með um 40% atkvæða gegn tveimur nokkuð jöfnum áskorendum, bauð mér í sínar herbúðir – sem ég þáði vitaskuld ásamt mínum helstu ráðgjöfum og stuðningsfólki og óskaði Ómari hamingju.

 

Í sama liði

Ég má til með að segja að þegar ég heilsaði einum stórsigurvegaranum heyrðist hváð:

Þú hér?

Ég svaraði:

Já; erum við ekki í sama flokki?

Samfögnuðum við oddvitanum og hans traustu liðsforingjum og keppnismönnum auk fjölda framsóknarfólks enda er nú þörf á – og tækifæri til þess – að treysta böndin með það sameiginlega markmið að vinna Kópavogsbúum gagn næstu fjögur árin með traust, samvinnu og heilindi að leiðarljósi.

 

Sannanlega feministi í framkvæmd

Hvað stoltastur er ég eiginlega af því að hafa fyrir um tveimur mánuðum sem formaður laganefndar Framsóknarflokksins tryggt jafnrétti kynja í efstu sætum listans. Samkvæmt fordæmisgefandi úrskurði okkar þurfa 3 (en ekki aðeins 2) af 6 efstu sætum á lista að vera skipuð hvoru kyni og fell ég því alveg út af listanum eins og frægt er orðið. Ég er sáttur við það enda að eigin mati ekki bara feministi í orði heldur á borði.

 

Æðruleysi á ögurstundu

En hvaða aðra lærdóma dreg ég af þátttöku minni í þessari viðureign (fyrir utan að fallast á með ráðgjöfum mínum að ég skrifa stundum of langa pistla eins og þennan)?

Ýmsir hafa undrast hvað ég tek þessum úrslitum af mikilli „karlmennsku“ – en sú afstaða felur nú eiginlega í sér svolitla karlrembu því að ég held að almennt sýni konur frekar af sér æðruleysi á ögurstundu en við karlmenn sem erum sumir full miklir keppnismenn fyrir minn feminska smekk.

Ég árétta bara; ég vann vini, hélt heiðri og eignaðist enga óvini.

I played by the rules.

 

Áskoranir

Eins og ljóst má vera af ofangreindu er ég ekki tapsár; ég dreg hins vegar tvennan lærdóm – bæði hvað mig varðar og Framsóknarflokkinn almennt – fyrir utan skipulag baráttu sem auðvelt er að laga sjálfur í sínum ranni.

  1. Fjölmiðlar. Ritstjórnir fjölmiðla ákváðu – þrátt fyrir fjölmargar tilraunir til að kynna málstað minn og framlag til þess að fylgja eftir áframhaldandi breytingarkröfu innan Framsóknar og í þjóðfélaginu almennt – að sitja hjá. Ég er hissa á því. Alveg mistókst að fá viðtal við mig. Einnig fór fyrir ofan garð og neðan hvatning til þess að gerð yrði fréttaskýring um menn og málefni eða þvíumlíkt um prófkjörið eða oddvitaáskorunina. Vísuðum við þó til þess í samtölum við fulltrúa fjórða valdsins að öðrum prófkjörum hefði verið sinnt, jafnvel þótt þar væri ekki leiðtogakjör; einkum var nefnt oddvitaprófkjör Framsóknarfólks í borginni sem fékk ágæta athygli hjá bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu – þannig að ekki er það Framsókn sem er ástæða þagnarinnar. Er Kópavogur ekki nógu spennandi hjá fjölmiðlum? Ég reyndi allar eðlilegar leiðir til þess að fá umfjöllun og er hvorki óþekktur né sambandslaus og get því helst skýrt þetta með hefðbundinni klisju um að það, sem gerist í póstnúmerum 200 og hærra, sitji á hakanum. Fyrsta símtalið sem ég fékk var frá Pressunni – rétt eftir úrslitin. Annað símtalið var í gær frá Morgunblaðinu sem vildi heyra hvort það væri ekki „afhroð“ að stefna að 1. sæti en lenda í því 5. Ég sagði að þeir sem þekktu oddvitaviðureignir teldu ekki svo vera enda hrinur sá sem lendir – og einkum þeir sem lenda – ekki í oddvitasæti gjarnan niður listann því að hann er ekki samkeppnisfær um neðri sæti við þá sem stefna að þeim eingöngu og sigla að því leyti lygnari sjó. Blaðamaður hafði ekki rými fyrir þessa skýringu en við skulum sjá hvort hún birtist í hnyttnu svari við spurningu dagsins í Fréttablaðinu í fyrramálið.
  2. Fólkið. Þá er það fólkið; að óbreyttum prófkjörs- eða forvalsreglum verða kjósendur sjálfir að taka þátt í breytingum ef þeir vilja í alvöru að þær verði. Hvorki er nóg að lítast vel á Gísla, Eirík og Helga eða aðra kandidata né að ræða málin í heita pottinum eða fermingarveislum; fólk þarf að taka þátt – innan flokka eða stofna nýja meðan stjórnskipanin er óbreytt. Breytingar eru ákveðnar í bæjarstjórn og á Alþingi (auk hagsmunasamtaka og víðar) – þó að þrýstingur frá Austurvelli og bloggheimum skipti vissulega máli.

 

Þakkargjörð

Fyrir þá sem hafa nennt að lesa allan þennan pistil vil ég nefna að ég held þakkargjörð fyrir stuðningsfólk og ráðgjafa kl. 17 nk. fimmtudag; staður auglýstur síðar. Takk aftur kæru vinir, vandamenn, stuðningsfólk og ráðgjafar hvaðanæva að.

Ég tek nú aftur til við að sinna mínu starfi að fullu eftir að hafa aðeins sinnt því undanfarnar vikur í „kyrrþey“ – á fundum, í fjarvinnu og með því að svara fyrirspurnum neytenda og fjölmiðlamanna. Sú tilhögun var gerð með opinberri tilkynningu og í samráði við tvær deildir Stjórnarráðsins – og kemur vonandi ekki að sök þar sem tímabilið var ekki lengra en sumarleyfi frá þessu eins manns embætti og þar eð auðvelt var eftir sem áður að ná af mér tali eftir þörfum (sími 510 11 21, gsm 897 33 14 og gt@talsmadur.is).

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur