Fimmtudagur 04.03.2010 - 23:35 - FB ummæli ()

„Your country needs you“

Finnst þér allt í lagi hvernig íslenskt samfélag er og hefur verið – eða vilt þú breyta einhverju?

Eftir hálfan annan sólahring göngum við, íslenska þjóðin, til atkvæðagreiðslu – fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í fullvalda og sjálfstæðu ríki, í heilan mannsaldur. Um leið og ég hvet alla atkvæðisbæra borgara til þess að mæta og greiða atkvæði – með, á móti eða sitja hjá – vil ég rifja upp hvernig unnt er að taka þátt í að breyta samfélaginu og bæta það. Þannig vil ég auka líkur á því að íslenskir borgarar taki þátt í að breyta þjóðfélaginu til batnaðar.

 

Frumkvæði eða viðbrögð

Skipta má áhrifum (eða valdi) í tvær tegundir eftir því hvort um er að ræða

  • frumkvæði /jákvætt vald) eða
  • viðbrögð (neikvætt vald).

Sem dæmi má nefna hefur forseti Íslands einkum formlegt vald til þess að bregðast við löggjöf frá Alþingi eftirá þar eð hann getur synjað lögum staðfestingar eins og nú hefur gerst í tvígang, 2004 og 2010. Sjálfur getur hann hins vegar ekki haft formlegt frumkvæði að löggjöf með því að leggja fram lagafrumvörp; það geta einungis ráðherrar í nafni forseta auk alþingismanna.

 

Lausn eða gagnrýni

Einnig er hægt að líta á áhrif og afskipti eftir því hvort um er að ræða

  • tillögu að lausn eða
  • gagnrýni á það sem fyrir liggur eða lagt er til.

Til dæmis vil ég nefna að stjórnarandstaða á Íslandi hefur lengi legið undir ámæli um að gagnrýna frekar en að leggja til lausnir; að vísu er þetta að mínu mati að breytast án þess að ég hafi rannsakað það vísindalega. Þar sem borgaralegt lýðræði á sér lengri sögu er hins vegar frekari fyrirmyndir að sækja til þess að bæta úr; ég nefni Danmörku þar sem ég hef kynnst dönsku þingræði og lýðræði í framkvæmd. Benda má á að þessi málsgrein er frekar lausnarmiðuð en gagnrýnin!

 

Hvað getur þú gert?

Nóg um fræðilega greiningu; hvað getur þú gert? Það er engin tilviljun að á 18. og 19. öld tryggðu borgararnir eftirfarandi réttindi í misfriðsamlegum byltingum – ekki aðeins með lögum heldur með varanlegri stjórnarskrám sem misvitrir stjórnmálamenn ættu ekki auðvelt með að breyta að geðþótta og einræðisherrar gætu ekki löglega vanvirt:

  • félagafrelsi yrði tryggt þannig að þú getir stofnað stjórnmálaflokk eða tekið þátt í starfi flokks sem fyrir er;
  • fundafrelsi væri stjórnarskrárvarið í því skyni að þú getir mætt óátalið á Austurvöll eða annars staðar til þess að ræða málin, hlýða á ræður eða hvetja forystufólk til dáða;
  • að prent- og síðar almennt tjáningarfrelsi væri lögvarið svo að þú getir tjáð hug þinn allan – annað hvort opinberlega á bloggsíðum, í blaðagreinum eða í útvarpi eða í smærri hópum – enda ábyrgistu orð þín fyrir dómi þannig að enginn bíði tjón af.

 

Til hvers eru réttindin?

Víð Íslendingar stærum okkur með nokkrum rétti af því að hafa verið friðsöm þjóð að mestu síðan á Sturlungaöld. Á hinn bóginn gleymum við stundum að óíkt flestum öðrum vestrænum ríkjum hefur Ísland hvorki þurft að verja franangreind réttindi – né önnur verðmætari á borð við líf og limi – með blóði.

Ég er friðsamur maður og hef lengi verið félagi í Félagi herstöðvarandstæðinga/hernaðarandstæðinga; mér rennur þó blóðið til skyldunnar að minna samborgara mína á að nýta sér hin friðsömu úrræði til þess að bæta samfélagið og breyta því svo að ekki hljótist ófriður af óbreyttu ástandi.

 

Upp úr pottunum?

Sjálfur reyni ég að fara í heita pottinn daglega og heyri þar fjölda góðra skýringa á ástandi mála og tillögur um breytingar. Þar er oft samhljómur óháð flokkslínum og flestir virðast óflokksbundnir. Hvers vegna gerist þá ekki nóg til batnaðar eða nógu fljótt?

Ein skýringin er að allir stjórnmálamenn séu ómögulegir ef ekki spilltir og fjórflokkarnir séu samtryggðir eða hugsi bara um sjálfa sig; ég þykist vita betur.

Ég held m.ö.o. að málið snúist um að þú hafir þig upp úr heita pottinum eða sófanum, af golfvellinum eða hliðarlínunni; þú þarft að hætta að bregðast bara við og gagnrýna og fara að sýna frumkvæði og finna lausnir. Þú getur nýtt þér stjórnarskrárvarið félaga-, funda- eða tjáningarfrelsi til þess; á endanum leysir enginn málin fyrir þig og breytir heiminum fyrir þig og börnin þín.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur