Sunnudagur 14.03.2010 - 23:00 - FB ummæli ()

Tökum gerendur úr umferð

Þegar ég var kominn langleiðina með að ljúka laganámi við Háskóla Íslands fyrir um fimmtán árum kom gestakennari frá Bandaríkjum Norður-Ameríku sem kenndi valnámskeið við lagadeildina sem mig minnir að hafi heitið feminískar lagakenningar. Ég sat að vísu ekki námskeiðið en hafði nokkra hugmynd um inntak þess – þ.e. feminískur sjónarhóll á hefðbundnar greinar á borð við refsirétt og sakamálaréttarfar. Þar var t.d. fjallað um galla á löggjöf og réttarframkvæmd miðað við lakari stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Hrokafullir laganemar – einkum karlkyns – gerðu grín að þessu og kölluðu þetta lesbískar lagakenningar.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Löggjöf um nálgunarbann er skýrari og virkari, spornað er við súludansi, vændiskaup eru nú refsiverð, meðvitund og reglur um mansal stórum betri og refsingar og skaðabætur fyrir kynferðisbrot heldur hærri svo dæmi séu tekin. Í þessum brotaflokkum, sem feminíska sjónarhornið var tekið á, eru konur yfirleitt þolendur og karlar oft gerendur. Sú staða – að kynin standa ójafnt að vígi að þessu leyti – og áratuga meðvitund og barátta fyrir réttarbótum til handa konum kann að hafa flýtt fyrir langþráðum réttarbótum á þessu sviði.


Gerandi tekinn úr umferð – stundum

Eitt af því sem hefur breyst er meðvitund um að í heimilisofbeldi – þar sem gerandi er oftar karlmaður – sé réttara að taka gerandann út af heimilinu en (kvenkyns) þolanda.

En hvað með önnur brot – þar sem börn og ungmenni eru bæði gerendur og þolendur? Ég er að tala um einelti. Ekki er augljós þjóðfélagslegur munur á stöðu þolenda almennt og dæmigerðra gerenda svo ég viti. Ég vona að það geri ekki að verkum að bíða þurfi ár eða áratugi eftir umbótum í anda þess sem lagast hefur varðandi raunverulega réttarstöðu kvenna. Nú velkist vonandi enginn í vafa um að rétt sé að taka ofbeldis(karl)mann út af heimili vegna heimilisofbeldis frekar en að reka (kvenkyns) þolanda og eftir atvikum börn að heiman.

Nýverið heyrði ég enn eina sorgarsöguna um afleiðingar eineltis. Ég fer ekki út í smáatriði; flestir þekkja úr nærsamfélaginu eða fjölmiðlum hræðileg dæmi. Stofnanir samfélagsins eru oft furðu seinar að taka við sér og ennþá virðist sumum finnast eðlilegt að þolandinn og aðstandendur hans þurfi að sanna eineltið og afleiðingar þess. Jafnvel eru dæmi um að sami gerandi ráðist á nýja og nýja þolendur. Hvenær skyldi koma að því að gerandinn verði fjarlægður – a.m.k. tímabundið meðan staðan er metin og ástandið bætt – frekar en að þolandinn sé hrakinn í felur, flutning eða það sem er verra. Afleiðingar eineltis eru oft varanlegar og oft óafturkræfar.

Ekki gera ekki neitt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur