Sunnudagur 18.04.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Hamfaraviðbrögð

Ræða mín á Austurvelli síðdegis í gær,

að beiðni Alþingis götunnar.

Við munum öll ræðuna sem þáverandi forsætisráðherra hélt fyrir hálfu öðru ári. Áður en hann bað Guð að blessa Ísland líkti hann tilefni neyðarlaganna, sem sett voru í flýti 6. október 2008, við efnahagslegar hamfarir.

En voru viðbrögðin í kjölfarið í samræmi við viðbrögð við náttúruhamförum?

Kannski fyrir kerfið og kröfuhafa. En hvað með neytendur?

Nú í sömu viku og vönduð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt hófust raunverulegar hamfarir úr iðrum jarðar; eftir að „túrista“gosi á Fimmvörðuhálsi lauk varð skyndilega alvöru eldgos – sem hefur haft furðu líkar afleiðingar og hinar efnahagslegu hamfarir fyrir 18 mánuðum; gríðarlegt, sýnilegt tjón hefur orðið á hluta Íslands og hluti Íslendinga er að verða fyrir miklu tjóni; aðrir sleppa enn. Einnig hafa hamfarirnar þegar valdið gríðarlegu – en ekki eins sýnilegu – tjóni fyrir venjulegt fólk og efnahagslífið í stórum hluta Evrópu – rétt eins og hamfarirnar sem urðu þegar bankarnir reistu sér hurðarás um öxl og féllu eins og sú spilaborg sem þeir voru. Við þessu tjóni Evrópu getum við lítið gert.

Tjón Evrópu af Icesave og töpuðum lánum er – eins og tjónið af öskugosinu – það sem í lögfræði er nefnt almennt fjártjón, ósýnilegt – en ekki ómerkilegra fyrir það. Tjón bænda og annarra á Suðurlandi og kannski víðar er fyrst og fremst svonefnt rauntjón, í lögfræðinni. Raunveruleg verðmæti – á borð við landgæði og mannvirki – tapast rétt eins og tjón margra Íslendinga af kreppunni varð strax raunverulegt, t.d. missir atvinnu, stórhækkun lána og vöruverðs og eignamissir. En eru viðbrögðin við raunverulegu tjóni Íslendinga sambærileg í efnahagslegu hamförunum og í náttúruhamförunum?

Viðbrögð við efnahagshamförum og náttúruhamförum

Nei – enda höfum við árhundruðareynslu af eldgosum og afleiðingum þeirra; viðbrögð yfirvalda nú í vikunni voru skjót, skipulögð, fumlaus og árangursrík – enda vel undirbúin. Allsherjarrýming átti sér stað. Varnargarðar – sem fyrir voru m.a.s. – voru styrktir. Það sem meira var; rofin voru skörð í þjóðveginn til þess að vernda brúna yfir Markarfljót; minni hagsmunum var fórnað fyrir meiri – eins og vera ber. Fólkið var í fyrirrúmi, skepnur í öðru sæti og aðrir fjármunir og önnur gæði í þriðja sæti.

Ólíku er saman að jafna þegar litið er til viðbragða stjórnvalda við efnahagshamförunum í þágu neytenda. Ég lít fram hjá áðurnefndum neyðarlögum í þágu kerfis og kröfuhafa, svo og ólögfestra og jafnvel ólögmætra ívilnana í þágu sjóðfélaga í peningamarkaðssjóðum og innistæðueigenda.

Skrýtinn birtingartími grundvallarupplýsinga

Nú liggja loksins fyrir nokkuð heildstæðar tölur frá Seðlabanka Íslands um málið; þeim tölum var reyndar valinn sá undarlegi birtingartími, sl. mánudag þegar öll þjóðin var upptekin við að kynna sér niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum bankahrunsins. Meðal þess sem þar kemur fram er að um 2/3 ungs barnafólks, sem keypti sér húsnæði 2006 eða síðar, er með neikvætt eigið fé – á minna en ekkert. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur þær tölur á vef seðlabankans. Orðrétt segir undir skýringarmynd (með tölunni 65% miðað við kaup eftir 1. janúar 2006):

Meginþorri ungs barnafólks sem tók lán á seinni stigum húsnæðisverðsuppsveiflunnar skuldar meira en það á í húsnæði sínu. Hópurinn er fimmtungur allra sem er í neikvæðri eiginfjárstöðu.

Byggja skal brúna þannig að barnið detti ekki af henni

En hvað var gert og hvað á að gera? Því miður er oft talað við okkur lögfræðingana eftir að skaðinn er skeður meðan verkfræðingar fá gjarnan það verkefni að hanna sterka brú sem stenst tímans tönn og áföll eins og ég nefndi áðan. Svo þegar viðvörun kemur er árbakkinn styrktur, varnargarðar efldir, skörð rofin í vegi og flóði hleypt í gegn – svo að það valdi sem minnstum skaða.

Bráðaaðgerðir, einskiptisleiðrétting og jöfnun

  1. Fyrsta skrefið var bráðaaðgerðir á borð við frestun fullnustugerða og frystingu lána; það gerðist smám saman og er komið í ágætt horf – enda tími bráðaaðgerða löngu liðinn nú, hálfu öðru ári eftir neyðarlögin.
  2. Annað skrefið, sem ég o.fl. lögðum til í mismunandi útgáfum, var einskiptisleiðrétting í þágu lántakenda venjulegra neytendalána, einkum íbúðarlána og bílalána. Margar tillögur hafa komið fram en stjórnvöld og kröfuhafar – þ.m.t. lífeyrissjóðir landsins – hafa hafnað þeim öllum eða ekki virt okkur svars. Mínar megintillögur felast í heildstæðri niðurfærslu neytendalána samkvæmt mati gerðardóms – eins og ég lagði til við stjórnvöld fyrir réttu ári síðan – og fékk ekkert svar – og mæltist svo til við banka, lífeyrissjóði, eignarleigufyrirtæki og aðrakröfuhafa í lok ágúst í fyrra – en fékk rökstudd afsvör frá flestum; þessar tillögur má finna á talsmadur.is.
  3. Þriðja skrefið er varanleg jöfnun á stöðu neytenda og kröfuhafa til frambúðar – en það átti að vera aðalumfjöllunarefni mitt í dag, t.d. dráttarvextir.

Erfitt er að ræða þriðja skrefið meðan enn er beðið eftir aðgerðum í 2. skrefi enda eiga almennar reglur og réttarúrbætur ekki við – duga ekki til – þegar hamfarir verða; en ég skal fara um þær nokkrum orðum.

Afar hagstæði réttindi og úrræði fyrir peningakröfuhafa

Hvað eru dráttarvextir? Þeir eru skaðabætur fyrir að kröfuhafi fær greitt of seint, dráttur verður á greiðslu.

  1. Sá réttur kröfuhafans er ekki aðeins lögvarinn og reiknaður út af ríkisstofnun, Seðlabanka Íslands.
  2. Réttur kröfuhafa til skaðabóta er í öðru lagi nánast ótvíræður og án sakar, ábyrgðin er hlutlæg sem kallað er í lögfræði.
  3. Þá eru skaðabæturnar í þriðja lagi staðlaðar – óháð tjóni hverju sinni; kröfuhafi þarf ekki að sanna hvort hann hafi beðið tjón eða hversu mikið tjónið er – eins krafist er í skaðabótarétti.
  4. Í fjórða lagi eru skaðabætur í formi dráttarvaxta vægast sagt háar – nú reyndar komnir niður í 16%.
  5. Í fimmta lagi stendur tæknilegur bakhjarl bankanna, Reiknistofa bankanna – með aðsetur hjá Seðlabanka Íslands – sig í stykkinu við að fram þessum dráttarvöxtum en þess virðist ekki ávallt gætt hvenær krefja má fyrst um dráttarvexti.
  6. Í sjötta lagi má auk dráttarvaxta krefja neytendur um nokkuð háan innheimtukostnað og enn er töluverð brotalöm í þeim reglum sem þó eru loks komnar.

Berum saman bótarétt kröfuhafa neytenda

Líkjum þessu saman við rétt neytanda til bóta vegna galla á vöru eða þjónustu.

  1. Sá réttur er að vísu oftast fyrir hendi en er ekki reiknaður út af ríkisstofnun; talsmanni neytenda er t.d. ekki heimilt að taka til meðferðar einstök ágreiningsmál – hann má aðeins kynna almennar reglur eins og hér er gert.
  2. Í öðru lagi er skaðabótaréttur neytanda ekki í öllum tilvikum ótvíræður og án tillits til sakar kaupmannsins.
  3. Í þriðja lagi eru skaðabætur til handa neytendum ekki staðlaðar; sanna þarf tjón hverju sinni og fjárhæð þess.
  4. Í fjórða lagi má deila um hvort bæturnar bæti ávallt allt tjón neytenda eða teljist háar; í besta falli eru þær – eins og vera ber – fullar bætur.
  5. Í fimmta lagi er engin stofnun sem sér um að koma þessum kröfum fram fyrir hönd neytenda með líkum hætti og Reiknistofa bankanna gerir fyrir þá.
  6. Í sjötta lagi er vægast sagt erfitt – í raun a.m.k. – fyrir neytendur að krefja kaupmenn um þóknun fyrir ómak og kostnað við að ná fram rétti sínum.

Heildstæð lausn á skuldavanda nú erfiðari

Nú er heildstæð lausn á skuldavanda heimilanna erfiðari en í fyrra og afleiðingar þess að stoppa í götin eru farnar að sýna sig með dómum í héraði; enn er langt að bíða úrlausnar Hæstaréttar – eða úrlausna, því þær verða væntanlega margar og mismunandi eftir atvikum og álitaefnum. Vonandi er heildstæð lausn ekki óframkvæmanleg nú.

Flóðið nálgast óðum sjóinn og hefur þegar valdið miklum skaða fyrir neytendur.

Úrræði auk eftirlits

En hver er hugmynd mín um almennar úrbætur á vanda neytenda að frágengnum skrefum 2 og 3? Nú halda kannski einhverjir að mín lausn felist í að styrkja embætti talsmanns neytenda eða eftirlitsstofnanir. Vissulega má huga að því en er eftirlit nægileg lausn? Nei; eftirlit er nauðsynlegur hluti lausnar – en ekki nægilegt eitt og sér. Við sjáum glöggt af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að nokkuð öflugar eftirlitsstofnanir, mælt í stærð, kostnaði og valdheimildum, geta brugðist – og gerðu það á ögurstundu. Þá geta veikburða embætti ekki breytt miklu. Eftirlitið eitt saman veitir því í sumum tilvikum falskt öryggi; flóðið er komið út í sjó þegar viðbrögð koma – ef þau koma.

Þrennar réttarfarsumbætur fyrir neytendur

Ég held því að til viðbótar við traust eftirlitskerfi þurfi úrbætur á þeim úrræðum sem neytendum sjálfum eiga að standa til boða; sem dæmi nefni ég þrjú atriði sem ég hef látið mig varða og ítrekað rætt opinberlega sem brýn úrbótaatriði:

  1. Hópmálsókn til handa neytendum og öðrum þar sem óraunhæft er að hver og einn höfði mál.
  2. Flýtimeðferð brýnna neytendamála.
  3. Smámálameðferð vegna smærri og einfaldari neytendamála.

Þá þarf að virkja þau úrræði sem þegar eru í lögum – svo sem heimild neytenda og annarra til sáttameðferðar hjá sýslumanni. Einnig vil ég nefna heimild neytenda og annarra, sem hafa beðið tjón vegna refsiverðs verknaðar, til þess að bera fram skaðabótakröfur og aðrar kröfur í þeim sakamálum sem framundan eru gegn þeim sem stjórnuðu – eða áttu að stjórna – efnahagslífinu. Ég hef þegar vakið athygli á þessum rétti eins og lesa má á vefsíðu embættisins,talsmadur.is, sl. mánudag.

Brúum gjána milli formlegra réttinda neytenda og stöðu þeirra í raun

Þessar úrbætur og [þessi] lítt þekktu úrræði geta orðið til þess að staða neytenda verði ekki aðeins formleg og lagaleg heldur raunveruleg og sterk þannig að þeir geti sjálfir náð rétti sínum, saman, einir eða með aðstoð samtaka, embætta og lögmanna sem láta sig málefni neytenda varða. Eins og staðan er í dag þurfa neytendur alltof oft að hnekkja „status qou“ til þess að ná rétti sínum – og það er oft dýrt, seinlegt, óvissu háð og erfitt í marga staði.

Þegar náttúruhamfarir verða er flóðið ekki látið skella á óbreyttu kerfi! Ég vil líkja afleiðingum efnahagshrunsins fyrir lántakendur við það að láta flóðbylgjuna skella beint á mannvirkjum meðan stjórnvöld eltast við smákvíslir Markarfljóts.

Óhefðbundin viðbrögð þarf við óvenjulegum atburðum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur