Ég velti fyrir mér í gær hvort ekki myndu allir vinna við að sett yrði á fót á Keflavíkurflugvelli alþjóðleg rannsóknarmiðstöð fyrir flugöryggi:
Flugneytendur fengju flugöryggi; flugrekendur myndu fá aukið rekstraröryggi; Besser-wisserar gætu sagt: „þetta hef ég alltaf sagt;“ flugfélögin yrðu himinlifandi; fréttamenn myndu áfram fá nóg að gera; Íslendingar fengju nýsköpun; stjórnmálamenn gætu verið sammála um eitthvað; Suðurnesjamenn fengju atvinnutækifæri; ESB fengi tækifæri til þess að setja fé í brýnan málaflokk; alþjóðlegir sérfræðingar á sviði eldgosafræða, flugöryggis, verkfræði o.fl. greina fengju atvinnutækifæri; Ísland fengi uppreisn æru; eldgosin í ár myndu fá annan tilgang en fegurð; eldgosið fæli í sér skapandi eyðileggingu; sjálfstæðir atvinnurekendur myndu njóta aukinna umsvifa; forgöngumenn þess að ljúka strax við tvöföldun Reykjanesbrautar fengu strax meðbyr; Vinstrihreyfingin – grænt framboð – fengi möguleika á að taka þátt í umhverfisvænni nýsköpun; bæjarsjóður Reykjanesbæjar fengi betri möguleika; fleiri smáfyrirtæki ættu tækifæri til að verða til; ESB-sinnar myndu fá enn eitt tækifærið til þess að benda á gagnsemi evrópskrar samvinnu; hernaðarandstæðingar gætu bent á að þetta væri þarfara en hollenska flugher(mi)fyrirtækið; pilsfaldakapítalistar gætu rökstutt að ríkið ætti að leggja í púkkið; Samtök atvinnulífsins yrðu hæstánægð; Sunnlendingar gætu fengið fé til að koma öskunni burt; heildarsamtök launafólks sæju aðeins kosti við þetta; lögfræðingar myndu eiga þess kost að leggja traustan grunn að lausn; askan gæti gert gagn; gamla herstöðin á Keflavíkurflugvelli fengi loks jákvætt hlutverk; frjálshyggjumenn yrðu sterkir í rökræðu um framlag hins frjálsa framtaks; efasemdarmenn yrðu að sætta sig við að með þessu yrði leyst úr álitamálinu um skaðsemi ösku við tilteknar aðstæður; lífeyrissjóðir sæju innkomumöguleika; embættismenn hefðu áfram nóg að gera; íðorðafræði myndi ganga í endurnýjun lífdaga; jöklabréfin myndu bráðna; sveitarfélögin á svæðinu nytu góðs af; samstarfsþjóðir okkar sæju að við gætum líka leyst vandamál; við fengjum loks eitthvað uppbyggilegt að fást við.
Og bloggarar – nafnlausir sem nafngreindir – geta fundið þessu allt til… forgöngu. Sjáiði fleiri kosti?
Óheimilt er að benda á galla fyrr en eftir 12 klst.