Sunnudagur 25.04.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Dómaradómur – fyrir almenning?

Mér rennur blóðið til skyldunnar að greina fyrir þá, sem ekki eru lögfræðingar, nýlegan dóm í máli umsækjanda um stöðu héraðsdómara gegn ríkinu og settum dómsmálaráðherra, Árna Mathiesen. Dómurinn er að mati fjölmiðla nokkuð merkilegur – en að mati löglærðra væntanlega augljós hvað varðar niðurstöðu.

Stutta útgáfan er þessi:

Dómurinn er ótvíræður og ótvírætt réttur hvað þessa niðurstöðu varðar. Skipun dómarans var – á mannamáli – kolólögleg. Restin er áhugaverð lögfræðilega.

Lengri útskýringu má lesa hér að neðan.

Hverjir

Þeir sem áttu í hlut voru nokkrir lögfræðingar; fagnefnd þeirra, sem þekkja vel til, var lögum samkvæmt falið að meta hæfi þeirra sem umsækjenda um dómaraembætti – ævilangt í þágu þjóðfélagsins. Með því að löggjafinn skyldar fulltrúa okkar, ráðherra, til þess að fá álit fagmanna áður en hann skipar dómara ævilangt er svonefndu veitingarvaldi skipt milli aðila; valdinu til þess að ákveða hver fái – og hver ekki – stöðu er strax í upphafi (ekki eftirá) skipt milli aðila – af sjálfum löggjafanum; þetta atriði gleymist oft í umræðu ólöglærðra – og jafnvel lögfræðinga.

Á mannamáli þýðir þetta að ráðherrann ræður ekki einn.

Þar við bætist að fagnefndin lætur ekki nægja að skrifa umsagnir um hvern umsækjanda eins og algengast er; hún raðar umsækjendum – og byggist það væntanlega annað hvort á hefð eða reglu. Í fyrra starfi mínu (1998) bannaði ég reyndar slíka röðun þar sem reglur kváðu á um að annar ákvörðunar- eða umsagnaraðili þyrfti sérstaklega að biðja um röðun til þess að  hún væri heimil – en annars yrði hann aðeins að rökstyðja mat sitt á umsækjendum með orðum; byggði ég það á því að með röðun væri veitingarvaldi skipt enn frekar. Ef röðun umsækjenda í hæfnisröð – eða hæfnisflokka eins og í tilviki dómaranna – stenst á annað borð er nánast um að ræða bindandi tillögu að mínu mati. Þá á ráðherrann ekki val á milli flokka. Jafnvel þótt röðun væri ekki heimil leggur rökstuðningur matsnefndar bönd á svigrúm ráðherra.

Hver

Eins og áður segir gleyma sumir lögfræðingar – og margir aðrir – að aðalatriðið er ekki hver ræður heldur hvernig og á hvaða forsendum ákvörðun er tekin; í þessu tilviki er ákvörðunarvaldi hins vegar samkvæmt framansögðu skipt eins og algengt er á sviði dómsmálaráðuneytis (t.d. gjafsóknarmála) – þ.e. nefnd metur hæfi og hæfni en ráðherra velur þann hæfasta meðal hæfra – enda er óumdeild lagaregla hérlendis að skylt sé samkvæmt lögum að ráða þann hæfasta í opinbert embætti eða starf.

Hvernig

Málsmeðferðin er skýr; nefnd metur – og raðar eftir atvikum. Ráðherra velur svo þann hæfasta af þeim hæfu(ustu) – en ekki bara einhvern sem er hæfur; þessi regla hefur áratugum saman verið í gildi hérlendis og var t.d. dæmd 1993 í Hæstarétti. Þá þarf að gæta að andmælarétti og reglu um rökstuðning. Ef ráðherra fellst ekki á mat nefndar á hann að bæta úr rannsókn nefndarinnar – eins og dómarinn áréttar.

Hvað

Dómurinn telur brot á málsmeðferð og einkum efnisreglum (mati) leiða til hárra miskabóta; það er annað tveggja atriða sem ég tel hæpið í annars traustum dómi. Bæturnar eru hærri en dómaframkvæmd styður. Bætur fyrir gróf kynferðisafbrot hafa oft reynst mun lægri. Ég tek fram að ég vildi að bætur væru hærri. Ég býst hins vegar við að Hæstiréttur lækki þær a.m.k.  Þessi ábending er fyrst og fremst lögfræðileg – en ekki vegna þess að ég telji sjálfur 3,5 millj. kr. miskabætur ofrausn.

Þær eru hins vegar – því miður – í algeru ósamræmi við dómafordæmi.

Hvað ekki

Hitt atriðið, sem ég er ósáttur við í dóminum, er að hann hafnar bótum fyrir fjártjón; það er hins vegar í samræmi við dóm Hæstaréttar sem ég flutti í héraði fyrir BHM – og var afar ósáttur við; punktur dómstóla er þessi:

Já; lög voru brotin á þér – en þú getur ekki sannað að það hafi valdið þér fjártjóni – þ.e. að þú hefðir fengið stöðuna, sem þú sóttir um, ef ekki hefði verið brotið á þér.

Í úrdrætti Hæstaréttar í því máli segir:

Fallist var á það með héraðsdómi að málsmeðferð hinna lögbundnu umsagnaraðila hefði verið ábótavant þar sem hjúkrunarráð lét undir höfuð leggjast að óska eftir frekari gögnum um G og taka afstöðu til umsóknar hennar. Þá hefði framkvæmdastjóra stofnunarinnar borið, þegar umsagnir hjúkrunarráðs bárust H, að hlutast til um að senda ráðinu þau gögn sem vantaði og kalla eftir fullnægjandi umsögn um G. Ekki hefði verið rétt að taka ákvörðun um ráðningu í starfið fyrr en fullnægjandi umsögn um alla umsækjendur lágu fyrir. Hins vegar var talið að heilbrigðisstofnunin hefði sýnt nægjanlega fram á að allar umsóknirnar hefðu komið til álita við atkvæðagreiðslu í stjórn stofnunarinnar sem var einungis umsagnaraðili.

Þetta er stærsti annmarkinn á dóminum – eða öllu heldur dómafordæmum Hæstaréttar; ef ekki er sýnt fram á miska er sönnunarbyrði tjónþola og þar með afleiðing fyrir tjónvald háð því að lyfta óhóflegri sönnunarbyrði. Slík dómaframkvæmd er hvorki í hag einstaklinga sem gjalda valdníðslu né allra hinna sem vona að úr rætist.

Hvers vegna

Þetta er meginatriðið – en ekki þau lagatæknilegu atriði sem ég tilgreindi hér að ofan. Fulltrúi ríkisins, settur dómsmálaráðherra í þessu máli, braut samkvæmt skorinorðum dómi gróflega gegn skýrum, vel þekktum, rótgrónum, vel grunduðum reglum sem áttu bæði að tryggja réttaröryggi borgaranna almennt (með stjórnarskrárvörðu sjálfstæði dómstólanna) og sérstaklega (með því að velja umsækjanda sem ekki var sá hæfasti eins og skylt var að lögum). Um leið var brotin svonefnd forsenduregla (um að fremja ekki valdníðslu) og líklega rannsóknarregla (um að leggja traustan grunn að ákvörðun).

M.ö.o. er að mínu mati gott – m.a. fyrir almenning – að sakfelling náðist í þessu grófa valdníðslumáli. Hitt er verra að dómurinn fari á svig við íhaldssama dómaframkvæmd varðandi miskabætur til að bæta fyrir umdeilanlega niðurstöðu varðandi skaðabætur fyrir fjártjón.

Nánar til tekið

Ef lesendur efast um mat mitt vísa ég á dóminn og býð upp á rökræður – helst hér í athugasemdakerfinu – en lesið forsendur endilega fyrst:

Niðurstaða

Í málinu krefst stefnandi miskabóta og viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu gagnvart honum vegna skipunar annars einstaklings í embætti héraðsdómara hinn 20. desember 2007. Í stefnu segir að stefnandi telji að með þeirri embættisveitingu hafi stefndi, Árni, „misbeitt valdi sínu og með ólögmætum hætti gengið framhjá stefnanda“. Þá kemur fram í stefnu að stefnandi telji að stefndu hafi valdið honum tjóni sem þeim beri að bæta eftir almennu skaðabótareglunni. Af þessu er ljóst að tilgreint er í stefnu að grundvöllur málsins af hálfu stefnanda er byggður á almennu skaðabótareglunni. Þá er einnig vísað til 10., 11. og 22. gr. stjórnsýslulaganna, 12. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, reglugerðar nr. 693/1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. og verklagsreglna við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998.  Í ljósi þessa er hafnað þeirri málsástæðu stefnda, Árna, að ekki sé leitt í ljós á hvaða lagagrunni krafa stefnanda á hendur stefnda, Árna, sé byggð.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er kveðið á um að sérstök dómnefnd eigi að fjalla um umsóknir um embætti héraðsdómara. Þetta ákvæði var nýmæli og í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að megintilgangur ákvæðisins væri að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins. Skipun nefndarinnar var ákveðin svo að Hæstiréttur tilnefndi einn nefndarmann, þ.e. formann. Dómarafélag Íslands tilnefndi annan nefndarmann úr hópi héraðsdómara og Lögmannafélag Íslands tilnefndi þriðja nefndarmanninn úr hópi starfandi lögmanna. Ákvæði þetta var tekið upp í núgildandi dómstólalög, sbr. 12. gr. þeirra laga. Með því að haga samsetningu nefndarinnar á þennan veg er verið að leitast við að þeir aðilar sem best þekkja til starfa dómstólanna komi að málinu. Á nefndinni hvílir sú skylda að setja fram skriflegt rökstutt álit um hæfni hvers umsækjanda og rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telji hæfasta og eftir atvikum að láta koma fram samanburð og röðun á umsækjendum eftir hæfni, sbr. 5. gr. reglna nr. 693/1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Þá hafa verið settar verklagsreglur við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara og liggja þær fyrir í málinu.

Ágreiningslaust er í málinu að veitingarvaldið fyrir dómaraembættinu var hjá stefnda, Árna, sem setts dómsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Þá var umsögn dómnefndar um umsækjendur ekki bindandi fyrir stefnda, Árna, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglna nr. 693/1999, en reglur þessar hafa stoð í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Það eru hins vegar skorður settar við ákvörðun ráðherra. Málefnaleg sjónarmið verða að ráða ákvörðuninni og honum ber að fara að lögum, þ.m.t. ákvæðum stjórnsýslulaga. Þá ber honum að hafa að leiðarljósi þann tilgang sem var með því að setja á stofn dómnefndina og vísað er til hér að framan, þ.e. að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins.

Samkvæmt verklagsreglum sem settar hafa verið við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara skv. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 skal m.a. fylgja með umsögn ljósrit af verkefnum í lögfræði, t.d. tímaritsgreinum, stefnum, greinargerðum, álitsgerðum, úrskurðum eða dómum. Kemur þetta einnig fram í 4. mgr. 4. gr. reglna nr. 693/1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Sá er fékk embættið skilaði engu slíku ritverki með umsögn sinni. Hann var af dómnefndinni metinn hæfur, en stefnandi mjög vel hæfur. Hvorki stefnandi né sá er skipaður var í embættið hreyfðu athugasemdum við áliti dómnefndarinnar. Það athafnaleysi verður ekki skilið á annan veg en að báðir hafi verið sáttir við niðurstöðu dómnefndarinnar.

Í rökstuðningi stefnda, Árna, frá 4. janúar 2008, fyrir embættisveitingunni kemur fram í niðurlagi bréfsins að fjölbreytt reynsla þess sem skipaður var og þekking hans, ekki síst vegna starfa hans sem aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra um rúmlega fjögurra ára skeið, geri það að verkum að hann sé hæfastur umsækjenda. Er þetta sjónarmið ítrekað í svarbréfi stefnda, Árna, til umboðsmanns Alþingis frá 18. mars 2008. Því verður ekki á móti mælt að stefndi, Árni, þekkir vel til starfa aðstoðarmanna ráðherra. Hins vegar liggur ekkert fyrir um það að hann þekki vel til starfa dómara, enda verður að telja að hvorki menntun né starfsferill hans gefi það til kynna. Þá hefur stefndi, Árni, ekki sýnt fram á það á annan hátt að hann hafi sérstaklega kynnt sér það hvernig starfsreynsla aðstoðarmanns dómsmálaráðherra myndi nýtast í dómarastarfi, en ekki er krafist lögfræðimenntunar í aðstoðarmannsstarfið. Hér er til þess að líta sem að ofan greinir, að dómnefnd samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla er skipuð fulltrúum er best þekkja til starfa dómstólanna, þ.e. fulltrúum héraðsdómara, starfandi lögmanna og með fyrrverandi dómara við Hæstarétt Íslands sem formann nefndarinnar. Ekki verður annað ályktað en að dómnefndin hafi í umsögnum sínum lagt mat á það hvernig starf aðstoðarmanns dómsmálaráðherra myndi nýtast í dómarastarfi.

Stefndi hefur ekki í málflutningi sínum tilgreint hvaða sérstök atriði önnur hafi leitt til þess að sá er embættið fékk var talinn hæfastur, heldur bent á heildarmat á honum. Ætla verður að sama heildarmat hafi verið gert af hálfu dómnefndarinnar á öðrum umsækjendum.

Í ljósi þess að stefndi, Árni, taldi umsögn dómnefndarinnar „ógegnsæja, lítt rökstudda og að innra ósamræmis gætti við mat á reynslu umsækjenda af ýmsum störfum“ þá bar honum, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að rannsaka málið frekar. Það gerði hann ekki. Þótt stutt hafi verið til áramóta og jólahátíðin framundan þá réttlætir það ekki að stefndi, Árni, lét hjá líða að fara að stjórnsýslulögum.

Með vísan til þess sem að framan greinir var verulegur annmarki á ákvörðun stefnda, Árna, er hann skipaði í dómaraembættið og að uppfyllt eru skilyrði almennu skaðabótareglunnar um að ákvörðunin hafi verið tekin með saknæmum og ólögmætum hætti.

Þá er að líta til þess, hvort skilyrðum almennu skaðabótareglunnar um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu sé fullnægt. Sönnunarbyrðin hvílir á stefnanda. Hann þarf að sýna fram á að honum hafi borið staðan umfram aðra umsækjendur. Sú málsástæða stefnanda, er fyrst kom fram við aðalmeðferð málsins og mótmælt var af hálfu stefndu, um að hér eigi að snúa sönnunarbyrðinni við, er of seint fram komin og verður ekki tekin til greina, sbr. 5. tl. 101. gr. laga um meðferð einkamála. Álit dómnefndarinnar var að hún taldi að þrír umsækjendur væru mjög vel hæfir. Þeim var ekki raðað innbyrðis. Ekkert liggur fyrir um að dómsmálaráðherra hefði skipað stefnanda í starfið hefði verið farið að niðurstöðu dómnefndar og einungis litið til þeirra þriggja er taldir voru mjög vel hæfir. Því er ósannað að stefnandi hefði fengið dómaraembættið umfram hina tvo umsækjendurna sem metnir voru mjög vel hæfir. Því hefur ekki verið sýnt fram á skilyrði almennu skaðabótareglunnar um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu sé fullnægt. Með vísan til þessa verður stefndi, Árni, sýknaður af 2. tl. dómkröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna skipunar í embætti héraðsdómara 20. desember 2007. Sama á við um stefnda, íslenska ríkið.

Eðli máls samkvæmt fylgir því álag að sækja um embætti héraðsdómara, leggja verk sín fyrir dómnefnd og fá álit hennar á lífsstarfi sínu. Það að stefndi, Árni, skuli með saknæmum og ólögmætum hætti ganga á svig við niðurstöður lögboðinnar dómnefndar og skipa einstakling, sem flokkaður er tveimur hæfnisflokkum neðar en stefnandi, og með brot af starfsreynslu stefnanda, er ólögmæt meingerð á æru og persónu stefnanda. Stefnda, Árna, ber því með vísan til b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að greiða stefnanda miskabætur. Stefndu hafa mótmælt fjárhæð miskabótakröfu stefnanda og vísa til þess að krafan sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Telja verður að mál þetta sé einstakt í sinni röð og að ekki njóti fordæmis. Eins og að framan er rakið fór stefndi, Árni, langt út fyrir heimildir sínar með embættisveitingunni. Í ljósi þessa þykja bætur hæfilega ákveðnar 3.500.000 kr.  Ákvæði 2. mgr. 23. gr. skaðabótalaga eiga ekki við í máli þessu.

Í hnotskurn er málið það að með skipan þess er fékk embættið er gengið þvert gegn vilja löggjafans, þ.e. að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins. Þetta var gert án þess að sá er fékk embættið hafi haft uppi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar. Þá tók það stefnda, Árna, mjög stuttan tíma, að undirbúa veitingu embættisins. Ekki aflaði hann frekari upplýsinga eða gagna. Í ljósi menntunar sinnar og starfsreynslu verður að telja að hann hafi ekki faglega þekkingu á störfum dómstólanna. Við ákvörðun sína byggir hann á því að 4 ára starfsreynsla, sem aðstoðarmaður ráðherra, en lögfræðimenntun er ekki skilyrði fyrir því starfi, upphefji 35 ára starfsreynslu stefnanda sem öll tengist dómstólunum. Þessi háttsemi stefnda, Árna, er órafjarri skyldum hans sem veitingarvaldshafa við skipun í dómaraembætti og eðlilegt að stefnandi höfði mál á hendur ráðherra persónulega. Er það mat dómsins að stefndi, Árni, eigi persónulega að standa straum af tildæmdum miskabótum. Hins vegar hefur stefndi, íslenska ríkið, byggt á því að það beri vinnuveitendaábyrgð á gerðum ráðherra. Dómurinn er bundinn af þeirri málsástæðu stefnda, íslenska ríkisins, og verður því stefndu gert að greiða stefnanda miskabætur óskipt.

Ákvæði 14. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 svo og lög nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð standa því ekki í vegi að stefnandi geti höfðað einkamál á hendur ráðherra með skaðabótakröfum vegna tjóns eða miska er leiðir af saknæmri og ólögmætri háttsemi ráðherra í starfi sínu.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber stefndu óskipt að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 3.500.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., samanber 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags. Með vísan til 131. gr. laga um meðferð einkamála ber stefndu óskipt að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði. Að öðru leyti eru stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda.

Almennt forðast ég að fara í persónugreiningu dómara en fyrir liggur í opinberum heimildum að umræddur dómari starfaði árum saman (frá 1988) við að verja ríkið – m.a. gegn bótakröfum – hjá ríkislögmanni.

Hvað er ég að vilja upp á dekk

Vitaskuld tjái ég mig hér í vikulegum Eyjupistli mínum af málefnalegum ástæðum – enda þótt ekki sé launungarmál að ég fyrirlít frændhygli (d. nepotisme), flokksræði og valdníðslu – sem reyndar stenst heldur ekki lög.

Mér rennur blóðið til skyldunnar þar sem ég

  • hef í um 20 ár haft að atvinnu og áhugamáli að skýra lögin fyrir þeim sem ekki eru háskólamenntaðir í lögfræði;
  • hef sérhæft mig í vinnumarkaðsrétti – sem málið varðar;
  • hef undanfarinn hálfan annan áratug starfað, launað sem ólaunað, sem blaðamaður, baráttumaður fyrir bættri réttarstöðu stúdenta, hagsmunagæsluaðili fyrir háskólamenntað launafólk og talsmaður neytenda, við að tryggja réttarstöðu þeirra sem standa höllum fæti gagnvart sterkari aðilum;
  • starfaði um nokkurra mánaða skeið við að tryggja rétta framkvæmd ráðninga við Háskóla Íslands, frá auglýsingu til ráðningar;
  • hafði sem framkvæmdarstjóri og lögmaður BHM sem meginstarfsskyldu að bregðast við ólögmætum auglýsingum og ráðningum og óréttmætum uppsögnum;
  • skrifaði 1997 kandidatsritgerð um einmitt þetta álitaefni, þ.e. fébótaábyrgð hins opinbera við meðferð opinbers valds.

Þeir sem vilja ræða enn frekar um skilyrði skaðabótaskyldu hins opinbera, vávæni, orsakartengsl o.s.frv. út frá dóminum geta haft samband við höfund hér í athugasemdadálki eða í GSM 897 14 33  eða gislit@ru.is enda fagna ég umræðu um þetta brýna mál.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur