Þriðjudagur 27.04.2010 - 21:53 - FB ummæli ()

Glerþak og fallhleri: fyrir konur

Að gefnu tilefni má ég til að endurbirta grein mína frá júlí 2003:

„Fallhlerinn

[Útdráttur mbl.]  STUNDUM er rætt um „glerþakið“ sem konur rekast í þegar þær vilja komast til (frekari) áhrifa á vinnustöðum; það er ósýnilegt í þeim skilningi að ekki er einhlítt hver orsökin er fyrir því að konur ná sjaldnar á toppinn.

 

STUNDUM er rætt um „glerþakið“ sem konur rekast í þegar þær vilja komast til (frekari) áhrifa á vinnustöðum; það er ósýnilegt í þeim skilningi að ekki er einhlítt hver orsökin er fyrir því að konur ná sjaldnar á toppinn. Hins vegar er nokkuð óumdeilt að glerþakið er til staðar – jafnvel hjá konum í sjálfstæðum rekstri. Ég tel glerþakið m.a. felast í því að gerðar eru meiri kröfur til kvenna en karla þegar forystufólk er valið.

 

Sjálfsgagnrýni?

Reyndar tel ég að ástæðan – glerþakið – sé ekki bara að aðrir geri meiri kröfur til kvenna heldur geri þær sjálfar meiri kröfur til sín en karlar til sjálfs sín, m.a. hvað varðar traust og (sjálfs)virðingu. Þetta leiðir hugann að því að konur í forystu virðast fremur – eða hraðar – en karlar axla ábyrgð sína þegar kemur að því að víkja úr stöðu. Orsökina má nefna „fallhlera“ því þær konur sem ég hef í huga hurfu skyndilega úr stöðu sinni – en ekki af ósýnilegri ástæðu eins og þegar rætt er um glerþakið. Gallinn er að karlarnir virðast oft sleppa við fallhlerann í sambærilegum aðstæðum.

 

„Enginn ræður sínum næturstað“

Fyrsta dæmið er mál Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem varðar reyndar ekki brotthvarf hennar úr stóli borgarstjóra fyrir hálfu ári enda var það að mínu mati eðlileg niðurstaða. Það sem ég á við er opinber og ítrekuð krafa fjölmiðla og líklega samstarfsflokka Samfylkingar í R-listanum til Ingibjargar Sólrúnar fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2002 að hún svaraði því afdráttarlaust hvort hún myndi fara í þingframboð síðar eða hvort öruggt væri að hún sæti sem borgarstjóri út kjörtímabilið. Að því leyti er tilvikið frekar dæmi um glerþak en fallhlera. Spurningin – og svarið – hafði að mínu mati veruleg áhrif á niðurstöðu þingkosninga í vor. Kannski var þetta mjög eðlileg spurning – en mér fannst hún afar ósanngjörn og ofítrekuð í ljósi þess að Davíð Oddsson, borgarstjóri til 1991, komst upp með það árið 1990 að svara slíkri spurningu með þessum orðum: „Enginn ræður sínum næturstað.“

Annað dæmið er þegar fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Finna sagði óvænt af sér sama dag og uppvíst varð að hún sagði þjóðþinginu og fjölmiðlum ósatt. Ég tel viðbrögð hennar til fyrirmyndar – hvernig sem þessi sérstaka atburðarás spannst. Vandinn er að eins og flestir áhugamenn um stjórnmál þekkja þá hafa ófáir – karlkyns – ráðherrar og forsetar í lýðræðislöndum komist upp með annað eins – líkt og nýleg dæmi sanna. Mér er það minnisstætt að þegar upp kom áburður um að ráðherra hefði gerst sekur um ósannsögli gagnvart Alþingi voru helstu viðbrögðin þau að haft var eftir lagaprófessor í fréttum að slíkt væri ekki bannað samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.

 

Jafnrétti?

Þriðja dæmið er af Valgerði Bjarnadóttur sem sagði af sér embætti framkvæmdarstýru Jafnréttisstofu með vísan til þess að leikfélag, þar sem hún var formaður, var dæmt – í héraði – fyrir brot á jafnréttislögum. Eins og bent hefur verið á er dómurinn umdeilanlegur þar sem hann virðist setja öll atvinnuleikhús landsins undir einn hatt – þótt sjálfstæð séu. Þyngra á metunum í þessu sambandi er hins vegar að leikfélagið var dæmt fyrir mismunun á grundvelli öfugrar sönnunarbyrði. Óumdeilt er að Valgerður taldist ekki hafa brotið starfsmannalög með þessu; því var ekki unnt að áminna hana fyrir það – hvað þá meira. Þegar ég er dómbær vil ég hins vegar gera ríkar kröfur til stjórnenda og lét ég mér koma í hug að Valgerður yrði hugsanlega að segja af sér embætti – ef og þegar Hæstiréttur staðfesti dóminn. Eðlileg viðbrögð hefðu að mínu mati verið leyfi frá embætti þar til Hæstiréttur hefði dæmt í málinu – en vika leið frá dómi héraðsdóms og þar til afsögnin var ráðin. Nú er hins vegar liðin meira en vika frá því að fram kom opinberlega að Þórólfur Árnason borgarstjóri hefði á sínum tíma sem markaðsstjóri Olíufélagsins undirritað tilboð þess til borgarinnar sem samkvæmt frumathugunarskýrslu Samkeppnisstofnunar var byggt á ólögmætu samráði olíufélaganna. Einnig hefur komið fram að Þórólfur hafi fundað með fulltrúum samkeppnisaðilanna. Skiptir ekki máli að mínu mati þótt hugsanleg sök Þórólfs kunni að vera fyrnd. Haft hefur verið eftir forseta borgarstjórnar að borgarstjóri njóti nú umþóttunartíma um stöðu sína. Þó tel ég augljóst að borgarstjóri þarf ekki síður en forstöðumaður ríkisstofnunar að njóta trausts almennings.

 

Umburðarlyndi í garð karla?

Kannski skiptir ekki máli hvort við spyrjum hvort við séum umburðarlyndari gagnvart körlum eða hvort við orðum það svo að við höfum meiri væntingar í garð kvenna? Ég tel a.m.k. að ósamræmi sé í kröfunum.

 

 

Eftir Gísla Tryggvason

 

MBL 30. júlí 2003

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur