Sunnudagur 02.05.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

J’accuse!

Eitt meginatriði er ég – eftir mikla umhugsun og lestur á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis – ósammála nefndinni um. Ég tel að þáverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, beri meiri ábyrgð en þar er talið og sé fremur sek um vanrækslu en þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson – sem um leið var ráðherra neytendamála. Hann sýndi þann manndóm um leið og niðurstöður rannsóknarnefndarinnar voru kunnar að verða fyrstur þeirra, sem eiga í hlut, til að leggja til að Landsdómur yrði kallaður saman eins og ég hef lengi talið rétt – og búist við.

Ég byggi þetta álit mitt fyrst og fremst á lagalegum sjónarmiðum – en ekki stjórnmálafræðilegum sem einnig hafa verið tilfærð þessu sjónarmiði til stuðnings. Ég tek fram að almennt er ég ekki refsiglaður maður og á ekkert sökótt við hlutaðeigandi persónulega.

Ég set hér fram mína skoðun m.a. til að sefa hug almennings – sem samkvæmt okkar eigin fjölmiðli

  • telur í nær 90% tilvika að ráðamenn eigi að sækja til saka en
  • innan við 20% trúa því að það verði gert.

Þar er breið og djúp gjá milli réttarvitundar og væntinga sem ég vil brúa.

Lesendur geta kosið að lesa þennan pistil þáverandi viðskiptaráðherra til varnar eða málsbóta ellegar þáverandi utanríkisráðherra til íþyngingar; hvað sem því líður tel ég af eftirgreindum ástæðum rétt að Alþingi ákæri ekki aðeins þá þrjá ráðherra, sem nefndir eru í skýrslunni, heldur einnig aðra ráðherra, sem eiga í hlut, fyrir Landsdómi. Nefni ég sérstaklega þáverandi utanríkisráðherra.

Aðrir fræðimenn sammála

Eins og hér kemur fram tekur Þórður Bogason hrl., framsögumaður á málþingi Háskóla Íslands um lagalegar afleiðingar hrunsins í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sl. miðvikudag, undir ábendingu mína á málþinginu með þeim orðum að með skýrslunni séu

Aðrir ráðherrar ekki sloppnir

– eins og í svari sínu við fyrirspurn minni. Þar rökstuddi ég að þáverandi utanríkisráðherra slyppi helst til vel frá skýrsludóminum. Þórður áréttaði réttilega í erindi sínu að þingnefnd, skipuð 9 fulltrúum allra flokka, bæri að meta sjálfstætt hvort ákæra bæri ráðherra á grundelli stjórnarskrár og laga um ráðherraábyrgð.

Virkur gerandi í að brjóta mikilvæga stjórnarskrárbundna skyldu

Benti ég á eftirfarandi meginatriði í munnlegri athugasemd á málþinginu:

  1. Þáverandi utanríkisráðherra var virkur gerandi (og jafnvel aðalgerandi stöðu sinnar vegna) í því að halda skipuðum viðskiptaráðherra nánast alveg – og að því er virðist skipulega – utan við fundi og aðra upplýsingagjöf um þær aðvaranir, upplýsingar og alvarlegu ógnir sem steðjuðu að íslensku samfélagi.
  2. Hitt atriðið, sem Þórður vék einnig að í framsögu sinni, lýtur að þeirri skyldu (ekki valkvæðu heimild) – sem fyrst og fremst hvíldi á þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde – en einnig hinum leiðtoga stjórnarsamstarfsins, þáverandi utanríkisráðherra – samkvæmt stjórnarskránni að halda ráðherrafundi, þ.e. ríkisstjórnarfundi, um nýmæli í lögum

og um mikilvæg stjórnarmálefni.

Hvað, spyr ég, hefur í rúmlega 100 ára sögu innlendra ráðherra verið mikilvægara en sá aðsteðjandi vandi sem fulltrúar Seðlabanka Íslands upplýstu þáverandi forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra um hinn 7. febrúar 2008? Þáverandi viðskiptaráðherra frétti samkvæmt skýrslunni ekki sérstaklega um málið nema í eitt skipti og þá (sem hver annar þingmaður) á þingflokksfundi Samfylkingarinnar hinn 11. febrúar 2008 – og svo ekki söguna meir samkvæmt skýrslunni. Reyndar hefði þáverandi viðskiptaráðherra þá haft rétt – og jafnvel skyldu – til þess að óska samkvæmt stjórnarskránni eftir ríkisstjórnarfundi til þess að „bera þar upp mál.“

Þetta læt ég til mín taka þar sem ég hafði, og hef enn – m.a. sem lögskipaður talsmaður neytenda er heyrði stjórnarfarslega undir nefndan ráðherra neytendamála – megnið af árinu verulegar áhyggjur af ástandi mála eins og ég lét iðulega í ljós, m.a. á neytendabloggi mínu eins og t.a.m. má lesa um hér, rétt fyrir hrunið, með viðeigandi tenglum með aðvörunar- og spurnarorðum löngu áður.

Áður bent á í embættisnafni sem rök fyrir bótaábyrgð

Ég vek athygli á að ég benti þegar fyrir ári í formlegri tillögu til stjórnvalda um niðurfærslu neytendalána á þetta vanrækslusjónarmið í embættisnafni:

Bótaábyrgð hins opinbera. Loks má halda því fram að stjórnvöld hafi hugsanlega bakað sér bótaábyrgð vegna ónógs eða gallaðs eftirlits á fjármálastarfsemi og ónógs eða árangurslítils aðhalds í efnahagsstjórn. Er þá m.a. horft til upplýsinga sem stjórnvöld bjuggu yfir en neytendur ekki. Er þá einkum litið til aðgerða og eftir atvikum aðgerðarleysis Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og hlutaðeigandi ráðherra. Einnig tel ég rétt að líta til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið að viðskiptaráðherra hafi meðvitað verið haldið fyrir utan upplýsingar sem aðrir ráðherrar og einkum Seðlabanki Íslands bjuggu yfir. Athuga verður að nú eru bankar undir stjórn hins opinbera. Þá voru ítrekað gefnar upplýsingar um að fjármálakerfið væri stöðugt – sem reyndist rangt og jók á gengishrun að öllum líkindum og jók þar með skuldavanda neytenda, bæði í verðtryggðum lánum og gengistryggðum. Þó að réttmætt kunni að hafa verið að opinbera þær upplýsingar ekki er ljóst að aðgerðir og aðgerðarleysi í kjölfarið geta falið í sér rök fyrir bótaábyrgð hins opinbera.

Með hvaða röksemdum?

Rök mín fyrir því að Alþingi beri að láta einnig reyna á lagalega ábyrgð þáverandi utanríkisráðherra – og um leið nokkrar varnarástæður eða málsbætur fyrir þáverandi viðskiptaráðherra – eru í meginatriðum eftirfarandi:

  1. Þáverandi utanríkisráðherra hélt – að því er virðist skipulega – þeim ráðherra, sem samkvæmt stjórnarskrá og lögum bar meginábyrgð á að hafa yfirsýn og eftirlit með þeim málaflokkum sem hruninu tengdust, með virkum hætti utan við fundi og upplýsingar um málið. Með því var ekki aðeins brotið gegn þáverandi viðskiptaráðherra og stjórnskipan landsins heldur ekki síður borgurum þess, svo sem neytendum, sem eiga að njóta verndar.
  2. Enda þótt forsætisráðherra sé stjórnskipulega formlegur verkstjóri ríkisstjórnar eru formenn stjórnarflokka í samsteypustjórn (sem er langalgengasta ríkisstjórnarformið) samkvæmt langri stjórn(skipun)arhefð hérlendis lykilaðilar í verkstjórn: leggja þeir áherslur í stjórnarmálefnum – en viðurkennt er að stjórnskipunarréttur hefur öðrum þræði pólitískt eðli og byggist mjög á hefðum og framkvæmd að því leyti sem settra ákvæða nýtur ekki við.
  3. Vanrækt var að fjalla um aðsteðjandi vanda á ríkisstjórnarfundum í tæka tíð eins og skylt var skv. 17. gr. stjórnarskrárinnar um margra mánaða skeið en þar var þáverandi utanríkisráðherra a.m.k. meðábyrgur að lögum með þeirri vitneskju sem hún bjó yfir og í krafti þeirrar stöðu sem hún hafði sem annar leiðtogi samsteypustjórnar.
  4. Sjónarmið um svonefnda skuggastjórnendur af sviði viðskiptaréttar leiða til þess að saknæmt geti verið hið minnsta að réttur (ábyrgur, lögskipaður) aðili fari í raun ekki með stjórn mála sem honum ber samkvæmt lögum.
  5. Lög um ráðherraábyrgð gera ráð fyrir meðábyrgð annarra ráðherra en þeirra, sem mál heyrir stjórnarfarslega undir, sbr. 5. gr. laga um ráðherraábyrgð:  „Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni.“ Varla getur það firrt þáverandi utanríkisráðherra ábyrgð að láta hjá líða að upplýsa viðskiptaráðherra eða sleppa því að halda „ráðherrafund“ (þ.e. ríkisstjórnarfund) um mál sem skylt var, sbr. 2. tl. hér að ofan.
  6. Nefndin virðist líta fram hjá meðábyrgð annarra ráðherra samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð með ofuráherslu á að ríkisstjórn sé ekki fjölskipað stjórnvald; það er rétt – en breytir ekki stjórnarskrárbundinni skyldu til samráðs ráðherra og lögbundinni meðábyrgð sem vitnað er til hér að ofan í 5. tl.
  7. Ekkert í lögum um rannsóknarnefndina varðandi „mistök eða vanrækslu […] og hverjir kunni að bera ábyrgð á því“ undanskilur meðábyrgð – hvorki „passiva“ né „aktiva“ eins og hér er rökstutt að sé fyrir hendi.
  8. Önnur lögskýring en hér er rökstudd bendir til þess að rannsóknarnefnd Alþingis beiti sömu þröngu lögskýringu („lagahyggju“) og nefndin bendir réttilega á að eftirlitsaðilar á borð við Fjármálaeftirlitið hafi gerst sekir um.
  9. Enn fremur vil ég benda á það frávik sem talið er gilda í lagaframkvæmd varðandi handhöfn ákæruvalds að þegar embættismenn, t.d. lögreglumenn, eigi í hlut eigi að ákæra ef möguleiki sé á sakfellingu meðan meginreglan er að ekki skuli ákæra (borgara) ef ekki eru meiri líkur en minni á sakfellingu. Þetta sjónarmið ríkir til þess að fyrirbyggja vantraust þess efnis að valdhafar og fulltrúar þeirra njóti sérmeðferðar og að betra sé að dómstólar sýkni en að handhafar ákæruvalds felli niður mál á fyrri stigum. Ég tel ótvírætt að sama sjónarmið eigi við hér – enda þótt vitaskuld reyni ekki oft á það í 106 ára sögu ráðherraræðis Íslendinga.
  10. Að lokum tel ég að hegðun þáverandi utanríkisráðherra hafi falið í sér aðför gegn stjórnarskrárvarinni skipan ríkisins, sbr. einkum 15. gr. stjskr. um skiptingu starfa meðal ráðherra og 16. og 17. gr. stjskr. um að „mikilvægar stjórnarráðstafanir“ og „mikilvæg stjórnarmálefni“ skuli ræða í ríkisstjórn.

Mótrök og andsvör

Nefndinni til varnar má segja að henni var falið með lögum að

leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Á hinn bóginn ber að nefna eftirfarandi:

  • Ég hef þegar bent á að þáverandi utanríkisráðherra gerði þáverandi viðskiptaráðherra ókleift – eða a.m.k. illkleift – að sinna ábyrgð sinni (m.a. gagnvart mér og þér) um „framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi“ og aðalspurningin til nefndarinnar var einmitt samkvæmt tilvitnuðum lagatexta í 1. gr. laga um nefndina „hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“
  • Þá virðist gleymast að lögskipað hlutverk nefndarinnar var einnig að leita

sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Sniðganga er vanræksla og meðábyrgð er ein tegund ábyrgðar

Er útilokað að sannleikurinn felist öðrum þræði í þeirri skuggastjórnun og sniðgöngu sem þáverandi utanríkisráðherra var aðalleikari í? Nei; Landsdómur verður að skera úr – enda er meðábyrgð ekki undanskilin í ábyrgð.

Fyrr náum við ekki endurreisn en við tökumst á við allar meinsemdir og ákærum alla sem við á. Þar geta þeir, sem hér og víðar eru bornir sökum, einnig varið hendur sínar með réttum hætti – eins og þáverandi viðskiptaráðherra benti þegar á 12. apríl sl.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur