Fimmtudagur 17.06.2010 - 07:00 - Lokað fyrir ummæli

Áhrif gengisdómanna og viðbrögð

Eins og alþjóð má vita voru í gær kveðnir upp tveir dómar í Hæstarétti, af fimm einhuga hæstaréttardómurum, í málum milli eignarleigufyrirtækja og neytenda vegna svonefndra bílalána. Neytendur höfðu sigur í málunum – sem einkum lutu að (ó)lögmæti svonefndra gengislána eða myntkörfulána. Í því skyni að upplýsa neytendur um álitaefni og tæk svör og til þess að undirbúa væntanlegt samráð við stjórnvöld um eðlileg viðbrögð vil ég strax birta þetta yfirlit yfir hugsanleg viðbrögð við dómunum og álitaefni varðandi áhrif þeirra.

 

Reyndar var einnig í gær í Hæstarétti kveðinn upp dómur sem í héraði var úrskurðaður á grundvelli svipaðs ágreiningsefnis milli banka og lögaðila, af þremur dómurum; Hæstiréttur tekur hins vegar ekki undir forsendur héraðsdóms að neinu leyti – heldur staðfestir hann aðeins niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms en á grundvelli formlegra réttarfarsatriða en ekki efnisatriða, sbr. síðar.

 

Byggt á þremur röksemdum – vannst á fyrstu

Málsástæður eða lagarök lögmanna neytenda í báðum málunum voru þrenns konar:

  1. Gengisbundin lán í íslenskum krónum væru ólögmæt.
  2. Forsendubrestur hefði orðið vegna gengisfalls og gengishruns í kjölfar bankahruns.
  3. Víkja ætti lánssamningunum til hliðar þar sem ósanngjarnt væri nú vegna síðari atvika og mismunandi stöðu aðila að bera þá óbreytta fyrir sig.

Hæstiréttur féllst ótvírætt og án fyrirvara á fyrstu röksemdina. Af því leiðir í fyrsta lagi að enn á eftir að reyna á sjónarmið um forsendubrest og svonefnda ósanngirnisreglu 36. gr. samningalaga – t.d. í annars konar málum, sem ekki falla undir fordæmisgildi þessara dóma. Í öðru lagi má leiða af dómsforsendum að dómarnir hafa nokkuð víðtækt fordæmisgildi eins og ég mun leitast við að greina í kjölfarið.

Möguleg viðbrögð við dómunum

Áður en ég tel stuttlega upp þau álitaefni er vakna við dómana – og ég mun leitast við að svara eða taka afstöðu til – vil ég í stuttu máli greina hugsanleg (æskileg og síður æskileg) viðbrögð sem geta orðið við dómunum af hálfu handhafa almannavalds og neytenda sjálfra; leitast ég við að raða þeim nokkurn veginn upp í forgangsröð með besta kost að mínu mati fyrst og þann lakasta síðast:

 

  1. Stjórnvöld viðhafa á næstu dögum víðtækt samráð um hugsanlega löggjöf til uppgjörs og útfærslu dómanna (eins og boðað hefur verið af hálfu fjármálaráðherra og krafist af mér) – þ.m.t. við sjálfstæða fulltrúa neytenda á borð við talsmann neytenda – sem gætir réttmætra hagsmuna neytenda af útfærslu dómanna og lögin verði samþykkt af Alþingi í júnílok.
  2. Gerðardómur í anda tillagna og tilmæla talsmanns neytenda frá í fyrra, skipaður fulltrúum kröfuhafa og neytenda, leggi til útfærslu á uppgjöri á næstu vikum.
  3. Strax verði sett afturvirk lög um hópmálsókn (og jafnvel einnig flýtimeðferð) til þess að reka nokkur uppgjörs- eða önnur prófmál fyrir almennum dómstólum á næstu vikum.
  4. Ef ófullnægjandi viðbrögð – hvað varðar tímasetningar, inntak eða samráð varðandi nýja löggjöf til uppgjörs eða útfærslu gengisbundinna lánasamninga – verða af hálfu stjórnvalda og sátt næst ekki um löggjöf til útfærslu á uppgjöri munu eignarleigufyrirtæki hugsanlega freista þess að höfða ný dómsmál til þess að leysa úr því ágreiningsefni hvort eitthvað annað getur komið í stað þeirrar gengistryggingar sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögmæta, sbr. um mína greiningu á því álitaefni hér að neðan; Hæstiréttur leysti ekki úr því álitaefni eins og héraðsdómur gerði í þriðja dóminum sem nefndur var að ofan.

Ef svo ólíklega og illa fer að fjórði möguleikinn verði raunin mun ég væntanlega ráðleggja neytendum almennt hvernig þeir geta brugðist við til varnar svo að þeir fái knúið á um löglegt og réttmætt uppgjör sinna lánasamninga í stað þeirra einhliða, nokkuð seinfæru og ófullnægjandi úrræða sem hingað til hafa einkum staðið til boða – án þess að eiga á hættu að fyrirgera rétti sínum eða ofgreiða frekar en orðið er.

 

Hugsanlegur 5. valkostur er að til þess bærir aðilar kanni hvort unnt er að fá lagt lögbann við áframhaldandi, óbreyttri innheimtu gengisbundinna bíla- og væntanlega íbúðarlána samkvæmt sérlögum – en þennan valkost kynnti ég óformlega sem möguleika gagnvart þeim samtökum og stjórnsýsluaðilum sem hafa heimild til þess að óska slíks lögbanns sl. haust, áður en fyrri héraðsdómurinn gekk um að gengislán væru lögmæt.

Til greina kemur eitthvert sambland af ofangreindum kostum eða samspil þeirra.

 

Yfirlit yfir álitaefni sem vakna

Næst vil ég telja upp helstu álitaefni sem ég greini í dóminum og hann ýmist svarar – beint eða óbeint – eða vekur upp. Allt eru þetta að mestu leyti svonefnd lagaatriði nema 2. tl. sem varðar sönnun á staðreyndum og að hluta til 1. tl.; á því að vera unnt að gefa vísbendingu um rökstutt svar án þess að skoða gögn og gera fyrirvara um atvik í ríkum mæli. Dómarnir svara beint fyrstu þremur ágreiningsefnunum. Önnur má ráða af dómunum en sum eru meira álitaefni; ég mun leitast við að svara þeim hér eða á öðrum vettvangi – t.d. www.talsmadur.is – á næstunni en mér sýnist á umfjöllun fjölmiðla fyrsta hálfa sólarhringinn eftir dómsuppkvaðningu að helst verði spurt – og deilt – um 10. álitaefnið hér að neðan, sem ég mun því leitast við að svara fljótt fyrir mitt leyti:

  1. Er um að ræða samninga um peningalán eða samning um leigu á bifreið?
  2. Er um að ræða lán í íslenskum krónum, bundið gengisviðmiðum, eða lán í erlendri mynt?
  3. Er slíkt lán lögmætt?
  4. Hafa dómarnir fordæmisgildi gagnvart sambærilegum íbúðarlánum í íslenskum krónum sem bundin eru gengisviðmiðun?
  5. Hafa dómarnir þýðingu fyrir annars konar lán, t.d. lán sem eru sannanlega í erlendri mynt, sambærileg lán með ólíka skilmála eða „venjuleg verðtryggð“ lán í íslenskum krónum?
  6. Við hvað skal miða við uppgjör samkvæmt endurgreiðslurétti neytenda sem hafa greitt of mikið miðað við dómsforsendur – ýmist við enduruppgjör þegar (of)greiddra greiðslna í slíkum samningum eða endurupptöku heildaruppgjörs þegar (of)greiddra samninga?
  7. Eru eignarleigufyrirtæki (og bankar) bótaskyldir vegna fullnustugerða (t.d. fjárnáms eða uppboðs) á grundvelli lánssamninga sem nú teljast ólögmætir samkvæmt dómum Hæstaréttar?
  8. Eru kröfuhafar bótaskyldir vegna vörslusviptinga sem átt hafa sér stað án þess að réttarfarslögum hafi verið fylgt?
  9. Hafa neytendur, sem ekki hafa gert fyrirvara við uppgjör eða skilmálabreytingar á gengisbundnum lánum, glatað rétti sínum?
  10. Hvaða áhrif hafa dómar Hæstaréttar á greiðslur framvegis í viðvarandi samningum um lán í íslenskum krónum, sem gengistryggðir hafa verið með ólögmætum hætti?
  11. [Viðbætur eftir ábendingu kl. 19:30: Þá þarf væntanlega að tryggja með lögum að neytendur, sem hafa farið á vanskilaskrá vegna lána sem eru gengistryggð með ólögmætum hætti, verði teknir út af henni – t.d. með því að slík fjárnám verði endurupptekin sjálfkrafa af hálfu sýslumanns.
  12. Einnig að þarf að skylda dómstóla með lögum til þess að endurskoða sjálfkrafa öll slík skuldamál sem dæmd hafa verið án þess að neytendur hafi mætt og tekið til varna, þ.e. svonefndar áritaðar stefnur.]
  13. [Viðbót 26.6.’10 eftir spurningu blaðamanns: Eru væntanlegar endurgreiðslukröfur til handa neytendum vegna ofgreiðslu að einhverju leyti fyrndir samkvæmt lögum?]
  14. [Viðbót 26.6.’10 í samræmi við fræðilega umfjöllun sérfræðings í kröfurétti sem birtist á vef talsmanns neytenda nk. sunnudag, 27.6.’10: Hvaða áhrif hafa reglur fullnusturéttarfars, kröfuréttar og laga um samningsveð varðandi skilyrði fyrir því að lán teljist skuldabréfalán og fyrir því að veð stofnist og fjárám megi gera?]
  15. [Viðbót 26.6.’10: Er hugsanlegt að refsiviðurlög samkvæmt laga um vexti og verðtryggingu komi til álita og þá gagnvart hverjum?]
  16. [Viðbót 2.7.’10 eftir samráð við Samtök fjármálafyrirtækja: Hvaða áhrif hefur það á uppgjör vegna hugsanlegra ofgreiðslna til fjármálafyrirtækja að skuldaraskipti hafa áhtt sér stað við eiganedaskipti að veðandlagi gengistryggðs láns?
  17. Hver er réttarstaða eiginlegra rekstrarleigusamninga, þ.e. sem ekki eru í raun lán miðað við fordæmi Hæstaréttar?
  18. Er  hægt að notast við geymslugreiðslu af hálfu neytenda samkvæmt lögum um geynslufé og að hve miklu leyti og að uppfylltum hvaða skilyrðum?]
  19. [Viðbót 2.7.’10 eftir spurningu frá neytanda: Hver er réttarstaða „blandaðra“ samninga, þ.e. virðast vera verðtryggðir í íslenskum krónum að hluta en gengistryggðir að öðru leyti?]

 

Spurningin sem brennur á öllum

Megin ágreiningsefnið, miðað við fréttir sem þegar hafa birst, er –  sem sagt skv. 10. tl. – þetta:

 

Áður en ég leitast við að svara þessu álitaefni – helst ekki síðar en á morgun – vil ég, alveg án skuldbindingar, telja upp þær hugmyndir, sem ég hef heyrt nefndar – fyrir og eftir uppkvaðningar dómanna í Hæstarétti í gær; ég árétta að í upptalningunni felst ekki að ég telji að þær hugmyndir séu allar frambærilegar, hvað þá réttmætar, sem valkostir.

Nefndir – en alls ekki allir tækir – kostir

Í stað ólögmætrar gengistryggingar komi:

  1. ekkert; aðeins skuli greiða það sem eftir stendur af endurreiknuðum höfuðstól miðað við umsamda vexti;
  2. „venjuleg verðtrygging“ en þó með tilteknu hámarki auk umsaminna vaxta;
  3. „venjuleg verðtrygging“ auk umsaminna vaxta;
  4. „venjuleg verðtrygging“ og almennir vextir skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu;
  5. almennir óverðtryggðir vextir skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu;
  6. „venjuleg verðtrygging“ auk álags og umsaminna vaxta;
  7. „venjuleg verðtrygging“ auk álags og almennra vaxta skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu.
  8. [Viðbót 26.6.’10 eftir ábendingu lögfræðings: Eru almennir vextir af skaðabótakröfum, nú 5,5% skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nærtækari en almennir vextir óverðtryggðra (nú 8,25%) eða verðtryggðra (nú 4,80%) skuldabréfalána?]

Það skal áréttað að Hæstiréttur skar ekki úr þessu álitaefni í áðurtilvísuðum þriðja dómi en í úrskurði héraðsdóms var tekið skýrt fram að „annars konar verðtryggingu“ mætti ekki reikna í stað ólögmætrar gengisviðmiðunar.

 

[Viðbót eftir ábendingu kl. 19:30: Þá er spurning hvort rökstyðja má ólíka nálgun gagnvart gengisbundnum íbúðarlánum annars vegar, þar sem tekin voru há lán, til áratuga nærri hápunkti húsnæðisbólunnar, og bílalánum hins vegar þar sem mun lægri fjárhæðir eru yfirleitt teknar, til skemmri tíma og bifreiðaverð í sögulegu lágmarki um það leyti.]

 

Lagaákvæði um vaxtaviðmiðun í endurgreiðslu

Að því er endurgreiðsluréttinn, sbr. 6. tl. hér að ofan, er hugsanlegt að gildandi lög – þau sömu og kveða á um ólögmæti gengisviðmiðunar – veiti vísbendingu um hvernig leysa beri úr álitaefninu að því er varðar endurgreiðslurétt neytenda (en ekki er þar með sagt að sú vaxtaviðmiðun sé nærtæk varðandi áframhald gildandi samninga sem ekki hafa verið (of)greiddir).

Í 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu segir:

Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

 

Í 4. gr. sömu laga segir:

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Í 10. gr. laganna segir:

Lánastofnunum ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi og með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst.

Seðlabankinn skal fyrir lok hvers mánaðar birta í Lögbirtingablaði vexti af óverðtryggðum og verðtryggðum útlánum skv. 4. gr. og vexti af skaðabótakröfum skv. 8. gr. og skal hver tilkynning lögð til grundvallar í samræmi við lög þessi næsta mánuðinn eða uns næsta tilkynning birtist. Jafnframt skal Seðlabankinn birta í Lögbirtingablaði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., þ.e. grunn dráttarvaxta og vanefndaálag. Seðlabankinn skal um hver áramót birta í B-deild Stjórnartíðinda töflu er sýnir vexti samkvæmt þessari málsgrein á hverjum tíma á næstliðnu ári.

Auk vaxta skv. 2. mgr. getur Seðlabankinn birt í Lögbirtingablaði aðra vexti lánastofnana.

Ábendingar vel þegnar

Ég mun, sem sagt, reyna að svara stóru spurningunni (10. tl.) ekki síðar en á morgun, föstudag, og öðrum smám saman þegar kostur gefst. Í millitíðinni þigg ég gjarnan ábendingar um fleiri spurningar, valkosti eða álitaefni – svo og tilgátur um svör.

 

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur