Árið 1987 kvað Hæstiréttur upp dóm um að handhafi ákæruvalds væri vanhæfur til þess að gefa út ákæru í sakamáli; rökin voru að bróðir ríkissaksóknara var meðal þeirra sem til álita gat komið að rannsaka og ákæra í sama máli. Í þessum pistli ætla ég – vitaskuld með málefnalegum rökum að vanda – að fjalla um hvort hið sama geti hugsanlega átt við um einhverja af þeim 63 alþingismönnum og -konum, sem alla jafna fara fyrst og fremst með löggjafar- og eftirlitsvald gagnvart æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins, ráðherrum, en þurfa nú að taka afstöðu til þess hvort ákæra eigi ráðherra – fjóra, þrjá eða engan – fyrir Landsdómi!
Ég óttast að gerð verði óþarfa formleg mistök á ögurstundu ef hlutaðeigandi meta ekki hæfi sitt og víkja í einhverjum tilvikum sæti í nokkra daga af Alþingi meðan málinu er ráðið til lykta. Þetta sjónarmið hef ég raunar fyrir nokkru leitast við að kynna óformlega fyrir lykilþingmönnum úr öllum flokkum.
Vel rökstutt að mínu mati…
Ég árétta að 7 af 9 þingmönnum, sem best og lengst eiga að hafa kynnt sér þetta erfiða mál, vilja ákæra nokkra þáverandi ráðherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð vegna vanrækslu á árinu 2008 í aðdraganda hrunsins eins og ítarlega er rökstutt í fyrrnefndu tillögunni, sem gengur lengra; er sá rökstuðningur að mínu mati afar vel unninn og sterkur frá lagalegu sjónarmiði – en það er aukaatriði í þessum pistli. Í frávikstillögunni um að undanskilja einn fyrrverandi ráðherra er það einnig rökstutt málefnalega – enda þótt að ég telji að þau rök eigi fremur að leiða til refsilækkunar, skilorðsbindingar eða jafnvel sýknu – af hálfu Landsdóms. Ófært er að handhafi ákæruvalds „sýkni“ í svo alvarlegu máli eins og ég hef rökstutt áður.
… en matsatriði
Augljóst er að í allri handhöfn ákæruvalds – og dómsvalds – er mat lykilatriði, málefnaleg mat og rökstutt. Þess vegna eru hæfisreglur strangari þar en annars staðar, t.d. í stjórnsýslunni. Af þeim sökum bjó Hæstiréttur til nýtt fordæmi 1987 – að mínu mati afar skynsamlegt og, að ég held, fremur óumdeilt meðal lögfræðinga um að handhafi ákæruvalds – í því tilviki ríkissaksóknari – yrði að vera hafinn yfir vafa um vanhæfi er hann gæfi út ákæru.
Ég vek sérstaka athygli á að það, sem virðist greina á milli þeirra, sem vilja láta ákæra, og hinna, sem ekki vilja ákæra, er
- hvort sú pólitíska ábyrgð, sem þegar er fram komin að hluta, er nægilegt viðbragð eða
- hvort nú sé tíminn til þess að láta reyna á hina lagalegu ábyrgð sem lengi hefur verið fyrir hendi og á allra vitorði, sem eiga í hlut, og er margra alda hefð fyrir og byggist auk þess á lögum sem reglulega og nýlega hafa verið uppfærð; ég aðhyllist síðarnefndu skoðunina eins og greina má – en það er aukaatriði miðað við aðalatriðið um að hæfissjónarmiða sé gætt.
Bróðir hugsanlegs sakbornings í Hafskipsmáli vanhæfur
Um var að ræða svonefnt Hafskipsmál – sem tengdist Útvegsbankanum – þar sem bróðir ríkissaksóknara var bankaráðsmaður á því tímabili sem um ræðir; Hæstiréttur var ekki að segja að ákæra hefði átt bróðurinn – enda fór víst svo að hann var sýknaður fyrir dómi síðar eins og fleiri sem ákærðir voru af þeim ríkissaksóknara sem settur var í hans stað til þess að ljúka þessu máli.
Hlýðum á rök hins reynda sakadómara – sem síðar varð farsæll hæstaréttardómari – en á þau féllust fjórir af fimm hæstaréttardómurum án viðbóta eða athugasemda (H 1987:1146):
Fyrir liggur, að Jóhann S. Einvarðsson, bróðir Hallvarðs Einvarðssonar ríkissaksóknara, tók sæti í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1. janúar 1985 og sat í því uns bankanum var með lögum breytt í hlutafélagsbanka á sl. vori, sbr. lög nr. 7, 1987.
Skv. 12. gr. laga nr. 12, 1961 um Útvegsbanka Íslands hafði bankaráð yfirumsjón með starfsemi bankans og ljóst er af ákvæðum sömu laga um starfsskyldur bankastjórnar og erindisbréfi bankastjóra, að eftirlitsskylda bankaráðsins með starfsemi bankans er rík.
Svo sem fyrr er rakið eru ákærðu í máli þessu saksóttir fyrir að hafa misgert stórlega við Útvegsbanka Íslands með því að leggja fyrir hann röng eða villandi gögn og að hafa með sviksamlegum hætti náð að auka skuldir Hafskips hf. við bankann um samtals rúmlega 400 milljónir króna á árun um 1984 og 1985. Fer ekki hjá því, að mál þetta hlýtur að varða mjög bankaráð Útvegsbankans enda liggur fyrir að málefni Hafskips hf. voru oft til umræðu og umfjöllunar á fundum ráðsins á árinu 1985.
Með hliðsjón af ofanrituðu verður að líta svo á, að Hallvarður Einvarðsson ríkissaksóknari sé þannig skyldur einum bankaráðsmanni Útvegsbankans, að skv. grundvallarreglum 3. og 7. tl. 36. gr. laga nr. 85, 1936 mætti hann eigi gegna dómarastörfum í máli þessu og því hafi ekki verið rétt skv. 22. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 74, 1974 að hann fjallaði um ofangreindar sakir. Enda þótt ákæran snúist og um önnur atriði, sem ekki tengjast hagsmunum Útvegsbanka Íslands, er eðlilegast að um þessi efni öll sé fjallað í einu máli og því þykir rétt að vísa ákærunni í heild sinni frá dóminum af þessum sökum.
Í þessu fordæmi frá Hæstarétti fólst, sem sagt, útfærsla á hinni matskenndu hæfisreglu um dómara sem nú enn er í lögum þar sem segir nú að handhafi ákæruvalds sé eins og handhafi dómsvalds vanhæfur til þess að fara með mál:
ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Á annað við um stjórnskipulegt vanhæfi?
Þess vegna tel ég vafasamt að fallast á gagnsjónarmið að um stjórnskipulegu stigi gildi ávallt önnur lögmál – enda er handhöfn ákæruvalds af hálfu þjóðþings að mínu mati eðlislík handhöfn þess á stjórnsýslustigi embættismannakerfis þó að sérsjónarmið um Landsdóm séu af stjórnskipulegum og sögulegum ástæðum fyrir hendi; vissulega gildir aðeins ein sett vanhæfisregla í lögum um þingmenn sem handhafa síns reglubundna valds – og varðar það ekki löggjafarvaldið heldur fjárveitingarvaldið því þeir mega ekki skv. lögum um þingsköp Alþingis „greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.“
Þá sé ég ekki grundvallarmun á því hvort handhafi ákæruvalds er einn – að frátöldu starfsfólki undir stjórn ríkissaksóknara – eða 63 enda getur vanhæfi starfsmanns, sem undibýr ákæru eða annað stjórnsýslumál, valdið ógildi þess samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga. Ef ég væri lögmaður eins hinna ákærðu, ef til þess kemur, fyrir Landsdómi myndi þessi röksemd vera sú fyrsta sem ég bæri fram – og myndi hún ónýta málatilbúnaðinn fram að miðjum september 2010, ef fallist yrði á hana, þannig að Alþingi, fyrrverandi ráðherrar og þjóðfélagið allt þyrfti að fara í gegnum þennan málatilbúnað allan að nýju – eins sársaukafullt og það er. Með því að víkja sæti í nokkra daga meðan máli þessu er ráðið til lykta geta þeir þingmenn, sem gegndu (lykil)ráðherraembættum, á árinu 2008 einfaldað lyktir málsins með afar málefnalegum hætti. Ég leyfi mér því vinsamlegast að leggja það til í þjóðarþágu.
Á ég að gæta bróður míns?
Í mínum huga er hugsanlegt að þessi dómur komi til álita við mat á hæfi þingmanna sem handhafa ákæruvalds gagnvart Landsdómi vegna ráðherraábyrgðar. Ef handhafi ákæruvalds er vanhæfur vegna álitamála, er varða bróður hans, hlýtur að koma til álita að maður víki sæti ef hann sjálfur kemur til álita við mat á hvort og gegn hverjum á að höfða opinbert sakamál. Ef þingmenn, sem hugsanlega eru vanhæfir, víkja ekki sæti nú óttast ég að málið ónýtist eins og reyndar hafa komið fram spár um af öðrum ástæðum. Um leið og ég árétta að ekkert þarf að vera athugavert við að vera vanhæfur – t.d. vegna tengsla við aðila máls eða málefnið – ítreka ég því ábendingu um að þeir sem kunna að vera vanhæfir víki sæti við meðferð þessa máls. Á mannamáli:
Annars verður ákvörðun um hugsanlega ákæru fyrir Landsdómi ekki trúverðug.