Sunnudagur 10.10.2010 - 23:58 - FB ummæli ()

„Við gefumst upp“

Þegar ég var unglingur bjó ég í Danmörku og heyrði sögur af því (1986) hvernig hinn gáfaði öfgamaður, Mogens Glistrup, hefði valdið jarðskjálfta við kosningar 1973. Eitt það skemmtilegasta sem haft var eftir þessum ultrahægrimanni var að leggja ætti niður danska herinn (sem entist reyndar ekki nema nokkrar klukkustundir gagnvart Þjóðverjum 9. apríl 1940 meðan Norðmenn börðust í margar vikur) og setja í stað þess í sparnaðarskyni upp símsvara er skyldi svara – á rússnesku:

Við gefumst upp.

Þetta kom mér í hug er ég var viðstaddur áhugaverða málstofu Seðlabanka Íslands í liðinni viku um eftirfarandi efni:

Peningastefnan í aðdraganda hrunsins og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis.

Á málstofunni voru annars einkum hámenntaðir hag- og viðskiptafræðingar – og, að mig grunar, flestir innan kerfis – og fyrirlesturinn og spurningar eftir því. Ég hjó þó eftir því að fyrirlesarinn, dr. Lúðvík Elíasson, var óvenju berorður – þannig að jafnvel leikmaðurinn ég þóttist skilja; efnislega sagði hann – í stuttu máli, sbr. þó glærurnar til ítarefnis (og vonandi síðar fyrirlesturinn sjálfan í heild, skrifaðan eða upp tekinn):

  • Mikil mistök voru gerð við upptöku nýrrar gengisstefnu 2001.
  • Seðlabankinn og stjórnvöld önnur féllu í nær allar gildrur sem hægt var í kjölfarið.
  • Um og upp úr árunum 2005-6 tók Seðlabanki Íslands virkan þátt í að veita íslenskum fjármálafyrirtækjum innistæðulaus ástarbréfalán í gríðarlegum og sívaxandi mæli – sem hefði átt að veita þeim, sem sáu – eða áttu að horfa á – mælana, næg tilefni til þess að bregðast við, með einhverjum hætti.

Ekki nægir að mínu mati til sýknu að spyrja á móti: „hvað átti að gera?“ Það var hlutverk hinna færu, hálaunuðu og valdamiklu sérfræðinga og stjórnenda að bregðast við í tæka tíð og finna út hvað átti að gera – og hvernig og hvenær.

Úr því að það var ekki gert reynt kann íslenska ríkið að hafa bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart tjónþolum – þ.m.t. íslenskum neytendum.

Við þetta tækifæri datt mér Mogens Glistrup í hug; til hvers að hafa seðlabanka – ef hann sinnir ekki hlutverki sínu og virðist hvorki fær um það né hafa til þess vilja?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur