Föstudagur 15.10.2010 - 22:17 - FB ummæli ()

Hvert tré 35.000 kr. virði!

Í kurteisisheimsókn á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands frétti ég af merkum dómi Hæstaréttar frá í gær – sem hafði farið fram hjá mér. Ég hef ekki séð umfjöllun um hann í fréttum – en vil lýsa ánægju með hann; í málinu, sem fjallað var um á sínum tíma, var Kópavogsbæ stefnt vegna yfirgangs þáverandi bæjaryfirvalda. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að Kópavogsbær var dæmdur til þess að greiða tæpar 20 millj. kr. til Skógræktarfélags [Reykjavíkur] vegna þess að nær 560 tré í Heiðmörk voru eyðilögð við gerð vatnsveitu. Dómurinn er fróðlegur og sannfærandi að flestu leyti; hið eina sem ég leyfi mér að efast um er hvort smásöluvirði trjánna – og þar með fjárhagleg nýting hins eyðilagða trjágróðurs – sé eina eða nærtækasta viðmiðunarverð dæmdra skaðabóta en þær efasemdir tengjast meginefni pistilsins.

Fjárhagslegir mælikvarðar varla þeir einu

Þess vegna set ég til einföldunar í fyrirsögn að hvert tré var metið á um 35.000 kr. að meðaltali í mati dómkvaddra matsmanna sem bæði héraðsdómur og Hæstiréttur féllust á með vel rökstuddum forsendum – enda eru flestir gildir mælikvarðar í okkar kerfi enn fjárhagslegir (eins og fjallað var um á fróðlegan og gagnrýnan hátt í hádegiserindi dr. Rögnu Benediktu Garðarsdóttur í Háskóla Íslands í gær: „Er betra að gráta í Mercedes Benz eða hlæja á hjóli? Neyslusamfélög og efnishyggja nútímans“ – en það er nú útúrdúr).

Dómurinn er í fyrsta lagi í samræmi við rótgrónar en að miklu leyti óskráðar meginreglur norræns skaðabótaréttar – um að sá, sem veldur öðrum tjóni á saknæman hátt, skuli bæta fjárhagstjón sem af þeirri háttsemi leiðir með sannanlegum og fyrirsjáanlegum hætti. Í öðru lagi staðfestir málið sterka stöðu eignarréttar í íslensku réttarkerfi og sjálfri stjórnarskránni – en eignarréttindi eru meðal þeirra hefðbundnu mannréttinda sem njóta hvað sterkastrar stöðu miðað við önnur mannréttindi sem einnig eru stjórnarskrárvarin. Síðast – en ekki síst – vekja málaferlin mig í þriðja lagi til umhugsunar um atriði, sem fyrrum lærifaðir minn, dr. Gunnar G. Schram prófessor heitinn, varð víst meðal þeirra fyrstu til þess að vekja athygli á og Hjörtur Torfason, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur einnig nefnt á lögfræðiráðstefnum:

Er þörf á að að náttúran eða umhverfið njóti sérstakrar stjórnarskrárverndar?

Veikur fyrir umhverfisverndarákvæði

Ég er veikur fyrir þessari áleitnu spurningu.

Í fyrsta lagi er það vegna þess að sem skógræktarmaður tel ég umhverfið og gæslu þess, viðhald og sjálfbæra nýtingu eiga að njóta sérstakrar verndar.

Í öðru lagi hef ég um 15 ára reynslu af því að gæta réttinda og hagsmuna þeirra sem hafa gjarnan veikari stöðu en atvinnurekendur og aðrir fulltrúar peningavalds – þ.e. f.h. stúdenta, launafólks og neytenda; það ber misjafnan árangur – og hafa þessir hópar þó sjálfstæða rödd og oft ágæta fulltrúa en umhverfið hefur ekki sjálfstæða rödd.

Í þriðja lagi var ég einn 3ja fulltrúa í nefnd á vegum forsætisráðherra snemma árs 2009 sem falið var að semja á örfáum vikum fyrir alþingiskosningar í apríl í fyrra frumvarp til breytinga á stjórnarskránni sem bæði fól í sér stjórnarskrárvarið stjórnlagaþing og ýmis efnisákvæði, svo sem eftirfarandi ákvæði um umhverfis- og auðlindamál (en frumvarpið náði því miður ekki fram að ganga vegna málþófs þingmanna Sjálfstæðisflokksins):

Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.

Mikilvægt atriði á stjórnlagaþingi

Nú í aðdraganda stjórnlagaþings er álita- og  umræðuefni hvort setja beri einhvers konar ákvæði í framtíðarstjórnarskrá okkar Íslendinga um að umhverfið sé mikilvægt verndarandlag, sameign okkar allra og að sjálfbær nýting sé áskilin.

Eða viljum við að umhverfið (t.d. tré, sem tekur áratugi að rækta með alúð og árvekni) njóti aðeins verndar laganna ef einhver á það – sem ekki er ávallt raunin? Vissulega nýtur umhverfið nokkurrar réttarverndar vegna refsiákvæða sem geta samkvæmt sérlögum leitt til refsiábyrgðar sé því spillt – en mitt mat er að sú vernd sé veik og tilviljunarkennd, m.a. vegna þess að opinbert eftirlit með almannahagsmunum er oft brotakennt.

Því spyr ég:

Hvað finnst þér?

***

Hér má kynna sér fróðlegar og traustvekjandi forsendur dóms Hæstaréttar frá í fyrradag.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur