Laugardagur 16.10.2010 - 23:20 - FB ummæli ()

Jákvæð og neikvæð mannréttindi (örnámskeið í stjórnlagafræði)

Nú bjóða hundruðir Íslendinga – fæstir sem betur fer lögfræðingar – sig fram til fyrsta stjórnlagaþings í sögu okkar (ef frá er talinn Þjóðfundurinn 1851 – „Vér mótmælum allir“).

Í því skyni að hinir þjóðkjörnu fulltrúar verði ekki ofurseldir áhrifum frá löglærðum sérfræðingum stjórnlagaþings vona ég að sem flestir frambjóðenda og kjörinna þingfulltrúa kynni sér eftir megni grunnatriði í stjórnlögum Íslands – bæði það sem er (gildir) og því sem betur má fara (pólitík). Reyndar væri ágætt að einn og einn sérfræðingur í stjórnlagafræði eða stjórnskipunarrétti byði sig einnig fram og yrði kjörinn – til þess að meðal þingfulltrúa sjálfra verði fyrir hendi sjálfstæð þekking til þess að (endur)meta kenningar, skoðanir og ráð hinna ráðnu sérfræðinga.

Hér langar mig hins vegar að leggja til málanna smávægilega grunnþekkingu á stjórnarskránni okkar fyrir þá sem hafa áhuga og metnað til þess að sitja stjórnlagaþing.

Stjórnarskrá er annars vegar um stjórnkerfi og hins vegar um mannréttindi

Stjórnarskráin skiptist í megindráttum í tvennt. Annars vegar fjallar hún æðstu stjórn ríkisins, hvernig völd skiptast milli mismunandi valdþátta, hvernig handhafar þeirra valdþátta eru valdir og hvernig samskiptin milli þeirra eru; um þetta ætla ég ekki að skrifa frekar að þessu sinni.

Hins vegar kveður stjórnarskráin eins og flestar slíkar á um svonefnd mannréttindi – en þar er í raun ákveðið hvert samband ríkisvaldsins annars vegar og borgaranna hins vegar skuli vera; þetta síðarnefnda er meginefni pistils þessa.

Mannréttindi eru í stórum dráttum af tvennum toga – annars vegar réttur til frelsis frá afskiptum eða íhlutun ríkisins gagnvart borgurunum, svonefnd frelsisréttindi eða neikvæð réttindi, og hins vegar réttur til einhvers frá ríkinu, oft nefnt jákvæð mannréttindi eða félagsleg réttindi. Mörg þessara réttinda eru gömul og vel viðurkennd að stofni til; önnur eru nýrri – og e.t.v. sambland af þessu tvennu, t.d. réttur til sanngjarnrar málsmeðferðar fyrir dómstólum og stjórnarskrárvarinn réttur launafólks til þess að semja um kjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.

Neikvæð frelsisréttindi

Fyrrnefndu réttindin eru eldri að stofni til – oft kölluð borgaraleg réttindi og eiga uppruna sinn í kenningum sem áttu að lokum þátt í að gerðar voru stjórnarbyltingar í Frakklandi og Bandaríkjunum seint á 18. öld og svo í kjölfarið á fyrri hluta 19. aldar í nokkrum ríkjum Evrópu; segja má að þessir straumar hafi loks náð til okkar Íslendinga þegar hinn danski konungur okkar færði okkur stjórnarskrána frá 5. janúar 1874 sem ekki er mikið breytt að stofni til síðan. Meðal þessara réttinda – er kveða, sem sagt, einkum á um rétt til frelsis frá afskiptum handhafa ríkisvalds – eru sígild réttindi borgarastéttar þróaðra ríkja frá þessum tíma, svo sem atvinnufrelsi, eignarréttur, tjáningarfrelsi (framan af prentfrelsi) fundafrelsi og félagafrelsi. Síðar – í okkar tilviki með stjórnarskrárbreytingum frá 1995 – var bætt við réttindum, sem okkur flestum finnast nú sjálfsögð, svo sem réttur til lífs – þ.e. bann við dauðarefsingum – og frekari útfærsla á rétti til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Jákvæð eða félagsleg réttindi

Hin réttindin – sem margir lögfræðingar hafa framan af litið fremur niður á, gleymt eða gert minna úr – eins og málshöfðanir lögmanna og niðurstöður dómstóla sums staðar benda til – eru nýrri í sögunni en að mínu mati jafn rétthá í grunnatriðum. Þau fela í sér rétt til einhvers frá ríkinu og hafa oft gleymst í lögfræðilegum rannsóknum, lagakennslu og framkvæmd laganna af hálfu lögmanna og þar með dómara. Það var eiginlega ekki fyrr en með svonefndu öryrkjamáli um aldamótin síðustu að þeim réttindum var veitt eitthvert inntak hérlendis – og olli það nokkrum jarðskjálfta þjóðfélagslega séð eins og margir muna.

Félagsleg réttindi eru líka stjórnarskrárvarin

Í slíkum ákvæðum er – og hefur í sumum tilvikum reyndar lengi verið – kveðið á um réttindi á borð við eftirfarandi:

  • Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
  • Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
  • Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Undirstrika ég hér að ofan þau fremur fortakslausu orð eða hugtök sem benda til þess að framfylgja beri réttindum þessum sem öðrum – en þau hugtök eða orð sem eru heldur matskennd skáletra ég; þeim er sammerkt að inntakið getur þróast eftir efnum og aðstæðum þjóðfélagsins. Athyglisvert er samræmið um að í öllum þremur tilvikum er sameiginlegt með stjórnarskrárákvæðum þessum að þar er kveðið á um að í þessum tilvikum

  • skuli (ekki bara megi eða gjarnan),
  • tryggður (ekki bara stefnt að),
  • réttur eða vernd og umönnun (ekki bara ósk eða umsókn),
  • til handa öllum (ekki bara sumum eða eða eftir mati nema að því leyti sem ákvæðin fela í sér mat) og, loks, að
  • skylda þessi hvíli á löggjafanum sjálfum (en ekki aðeins sveitarfélögum eða ráðherrum með reglugerð).

Eins og áherslumerkingar mínar sýna og upptalningin í kjölfarið áréttar er ekki um nein sýndarréttindi eða óljós loforð að ræða þó að inntakið þurfi að skilgreina hjá pólitískum valdhöfum, þ.e. fyrst og fremst löggjafanum. Í því felst bæði réttur og skylda Alþingis í núverandi stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur