Sunnudagur 17.10.2010 - 21:08 - FB ummæli ()

Lögskylt samráð í stjórnarskrá?

Eitt uppáhalds orðið – og fyrirbærið – mitt er „samráð.“ Hjá sumum hefur það auðvitað óheppilegan blæ enda hefur samráð fyrirtækja um verð, markað o.fl. verið bannað að viðlagðri refsingu a.m.k. frá því að samkeppnislög voru sett hér 1993 – enda þótt meginákvæði laganna noti reyndar annað hugtak.

Ég hef langa og góða reynslu af lögmætu samráði – bæði úr störfum mínum í þágu stúdenta, launafólk og neytendur í hálfan annan áratug, svo og úr einkalífi og félagsstarfi; víða er samráð ekki bannað – heldur þvert á móti æskilegt, rótgróið og jafnvel áskilið eða lögboðið, t.d. víða í vinnumarkaðsmálum sem hefur verið lengsti starfsvettvangur minn.

Vernd þeirra sem veikar standa

Í þessum þriðja pistli mínum um stjórnarskrármálefni í aðdraganda stjórnlagaþings vil ég fjalla um hvort rétt sé að áskilja einhvers konar samráð í stjórnarskrá umfram það sem þegar er. Í fyrsta pistlinum fjallaði ég um hvort rétt væri að setja í stjórnarskrá ákvæði um umhverfisvernd, sameign auðlinda og sjálfbæra nýtingu. Í öðrum pistlinum greindi ég mannréttindaákvæði – ekki aðeins hin hefðbundnu frelsisréttindi heldur fremur hin „jákvæðu“ sem fela í sér réttindi þeirra sem standa lakar að vígi en aðrir borgarar.

Spyrja má – úr því að stefna beri að umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá og fyrst mannréttindi ýmissa hópa, sem eru veikir fyrir, eru þegar tryggð í stjórnarskrá – hvort hið sama eigi ekki að gilda um aðra hópa sem eiga á brattann að sækja í viðskiptum sínum við sterkari aðila, t.d. gagnvart atvinnurekendum!

Samningsréttur launafólks stjórnarskrárvarinn

Úr þessu var reyndar þegar bætt árið 1995 hvað launafólk varðar þegar svohljóðandi nýmæli var bætt í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar við heildarendurskoðun hans:

Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.

Þetta er að mínu mati afbragðsákvæði – sem ég vitnaði gjarnan til er ég var framkvæmdarstjóri Bandalags háskólamanna (BHM) 1998-2005 og einnig sem lögmaður samtakanna í dómsmálum þar sem það átti við; fáir aðrir virðast hafa gert slíkt hið sama því endurtekin könnun á dómasafni Hæstaréttar í dag sýnir að aldrei virðist hafa verið vitnað til ákvæðisins í dómsforsendum í 15 ára sögu þess og eru vinnumarkaðsmál þó all nokkur. (Félagsdómur býður ekki upp á sams konar leit en hann er sérdómstóll sem dæmir um mörg vinnumarkaðsmál.)

Hvað með neytendur?

Ég er ekki einn af þeim sem telja að öll aðskiljanlegustu (áhuga)mál skuli tekin upp í stjórnarskrá og afgreidd þar, efnislega, enda kveður stjórnarskrá gjarnan fremur á um form og bærni – svo sem æðstu stjórn ríkis og takmörkun á valdi þess gagnvart borgurunum. Þarna kann hins vegar að vera góð fyrirmynd að ákvæði sem gæti a.m.k. stuðlað að því að hagsmunir og réttindi neytenda (og e.t.v. fleiri hópa sem eiga á brattann að sækja) yrðu betur tryggð – þ.e. að áskilja einhvers konar samráð við til þess bæra fulltrúa neytenda þegar settar eru nýjar reglur um neytendamál eða reglum, sem varða neytendur, er breytt.

Á þetta skortir enn nokkuð á – rétt eins og reynsla mín af vinnumarkaðsmálum var lengi sú að fyrr, betur og meira var haft samráð við fulltrúa atvinnurekenda en sambærilega fulltrúa launafólks. Þetta mat mitt kann að vísu að nokkru leyti að stafa af því að ég starfaði fyrir „litla bróður“ á þeim vettvangi því að BHM er bæði yngra og minna en hin heildarsamtökin, ASÍ og BSRB, en BHM er nú komið betur á kortið að því er virðist – enda var lengi fyrir því barist.

Tala ekki bara við banka og útvegsmenn

M.ö.o. velti ég því upp hvort skynsamlegt sé að setja í stjórnarskrá ákvæði sem tryggi að jafnt samráð sé haft við þá sem gæta andstæðra eða illsamrýmanlegra hagsmuna og réttinda. Það myndi hafa í för með sér að löggjafanum og þeim sem hafa frumkvæði að löggjöf eða nýjum reglum, svo sem þingnefndum og ráðherrum, væri beinlínis skylt að leita jafn snemma og álíka mikið eftir sjónarmiðum annarra en sterkra hagsmunasamtaka atvinnurekenda, svo sem hlutaðeigandi samtök neytenda.

Sama gæti e.t.v. átt við þegar náttúran ætti í hlut, sbr. nánar pistil minn frá í fyrradag. Þá mætti hafa þetta í huga varðandi aðra hópa sem standa lakar að vígi, sbr. til hliðsjónar pistilinn frá í gær.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur