Mánudagur 18.10.2010 - 22:55 - FB ummæli ()

Hraustleikamerki; fólkið vill ráða

Hressandi var að sjá frétt um að hátt í 500 manns gæfu kost á sér í kosningum til stjórnlagaþings eftir tæpar 6 vikur – og í raun hraustleikamerki á lýðræðisvitund okkar Íslendinga. Verra fannst mér að sjá og heyra neikvæða og að miklu leyti ómálefnalega afstöðu míns mæta læriföður, Sigurðar Líndal, í málgagni andstæðinga stjórnlagaþings; ég svara honum síðar. Hérna ætla ég að fjalla um það jákvæða sem ég sé við þessa miklu þátttöku.

Hálfur sigur þegar unninn?

Það að hálfur fjöldi þúsund manna þjóðfundar í byrjun nóvember, eftir slembiúrtaki, til undirbúnings stjórnlagaþingi síðar í vetur hafi að eigin frumkvæði metnað og áhuga til þess að taka þátt í að móta framtíðargrundvöll stjórnlaga hins íslenska ríkis finnast mér afar jákvæðar fréttir. Þegar fréttamenn eða aðrir spyrja á förnum vegi hvort fólk hafi lesið stjórnarskrána virðast fremur fáir hafa gert það þó að margir þekki vitaskuld grunnatriði í inntaki stjórnskipunar Íslands.

Enda þótt ég hafi ungur rambað á eintak af stjórnarskránni á heimavist Menntaskólans á Akureyri, þar sem ég ólst upp, og flett í henni, fengið áhuga á stjórnarskránni í dönskum menntaskóla, þar sem ég tók stúdentspróf, og svo numið lög í Danmörku og á Íslandi er ekki hægt að ætlast til þess að meginþorri þjóðarinnar geri stjórnarskrármálefni að áhugamáli sínu eða starfsvettvangi. Ef þjóðfundur, framboð og kosningar til stjórnlagaþings og stjórnlagaþingið sjálft og niðurstaða þess skilar hins vegar víðtækum umræðum, meiri áhuga og dýpri þekkingu á stjórnarskránni – bæði því sem gildir nú og því sem betur má fara – er hálfur sigur unninn.

Þrjár meginástæður – aðrar en aldur stjórnarskrárinnar

Ég held að margir efasemdarmenn um stjórnlagaþing eða stjórnarskrárumbætur misskilji rótgrónar grundvallarástæður þess að sú krafa reis hærra í kjölfar efnahagshruns að endurskoða stjórnarskrána á stjórnlagaþingi; þær eru að mínu mati í megindráttum þríþættar:

  • Eignarhald – finnst okkur við eiga eitthvað í stjórnarskránni?
  • Raunveruleg heimastjórn.
  • Lýðræði en ekki foringjaræði.

Ég skýri þetta betur hér að neðan; hár aldur stjórnarskrárinnar er, sem sagt, að mínu mati aukaatriði – og óþarft að deila um það keisarans skegg við andstæðinga stjórnlagaþings.

Óefnt loforð frá 1944

Í fyrsta lagi er einn megin vandinn, sem við höfum búið við, sá að stjórnarskráin kom hingað 1874 sem eins konar „gjöf“ úr hendi konungs að utan – svipað og mikið af réttarúrbótum fyrir alþýðu landsins sem borist hafa „í pósti“ frá Brussel undanfarin 15 ár. Enda þótt íslenskir stjórnmálaleiðtogar á borð við Jón Sigurðsson hafi barist fyrir auknu sjálfstæði af mikilli þrauseigju og þolinmæði var stjórnarskráin ekki þeirra verk – heldur afurð danskra embættismanna í kjölfar lýðræðisumbóta aldarfjórðungi fyrr í Danmörku – sem aftur leiddi af stjórnarumbótum Belga fyrr á öldinni og frönsku byltingunni heilli öld á undan. Það sem vantaði – og væntingar voru um við lýðveldisstofnun 1944 að bætt yrði úr – var að við „ættum“ stjórnarskrána – eins og oft er talið mikilvægt í leiðtoga-, lýðræðis- og mannauðsfræðum.

Hvort sem lesendur vilja líta svo á að stjórnarskráin sé að stofni til 136 ára gömul eða aðeins 66 ára er aldurinn ekki aðalmálið eins og margir virðast misskilja; gömul lög eru oft góð – og hafa einmitt elst vel af því að þau hafa enst vel. Aðalmálið er að þjóðin hefur aldrei fengið efndir á það loforð að stjórnarskráin yrði endurskoðuð í heild eftir þann flýti sem að mörgu leyti – og að nokkru skiljanlega – einkenndi sambandsslit okkar við Dani undir lok síðari heimsstyrjaldar.

Í því efni breytir engu þó að vettvangur stjórnmálafólks, kjördæmaskipan og eftir atvikum atkvæðavægi, hafi margoft verið lagað til – eftir þörfum þess og stjórnmálaflokkanna. Þá dregur það ekki úr þessari röksemdafærslu minni og afstöðu að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar hafi fyrir 15 árum fengið löngu tímabæra upplyftingu og góða í samræmi við þróun í mannréttindamálum Evrópu og á alþjóðavísu í kjölfar 2ja heimsstyrjalda og eftir litlar breytingar í 120 ár fram að því!

Heimastjórn aðeins hálfa leið

Þá hef ég í öðru lagi lengi talið að sú þjóðfélagsbót að koma hér á heimastjórn 1904 hafi í raun fyrst og fremst leitt til formlegrar tilfærslu Kaupmannahafnarvaldsins til Reykjavíkur; lýðræðið náði aldrei alla leið til fólksins og því þarf að styrkja sveitarfélögin og draga úr ofuvaldi miðstjórnarvaldsins í höfuðborginni. Að mínu mati þarf að klára valdatilfærsluna alla leið til fólksins – þar sem valdið á heima í lýðræðisríki; það getum við gert með ýmsum hætti eins og ég mun fjalla um hér síðar.

Starfslýsing stjórnmálamanna

Síðast en ekki síst er það í þriðja lagi skoðun mín – sem ég veit að rímar vel við afstöðu fjölmargra kjósenda, bæði löglærðra og annarra – að ekki gangi að stjórnmálamenn einir hafi frumkvæði að stjórnarskrárbreytingum og ráði þar með hvort, hvenær og hvernig stjórnarskránni megi breyta. Annars vegar er þetta rökstutt með hefðbundnum röksemdum um að maður ráði ekki – a.m.k. ekki einn – sinni starfslýsingu, heldur eigi vinnuveitandinn a.m.k. að hafa hönd í bagga með gerð hennar, helst í sátt og með samningi eftir minni löngu reynslu af vinnumarkaðsmálum.

Hingað til hafa íslenskir stjórnmálamenn haft sjálfdæmi um starfslýsingu sína, samskipti við vinnuveitendur sína og aðra og jafnvel stundum um starfskjör sín.

Reynslan staðfestir vanhæfi Alþingis til endurbóta

Hins vegar hafa margir – þ.m.t. ég – bent á að reynslan sanni beinlínis að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar séu ekki bara fræðilega vanhæfir til þess að sinna þessu verki eins og rökstutt er að ofan; reynslan sýnir þvert á móti að þeir eru í raun óhæfir til þess. Ótal dæmi eru um þetta – bæði söguleg og nýleg. Á þetta við hvort sem við nefnum endalausar og árangurslitlar stjórnarskrárnefndir þingsins undanfarna áratugi, málþóf Sjálfstæðisflokksins gegn sjálfstæðu stjórnlagaþingi í fyrravor eða það heiðursmannasamkomulag stjórnmálaflokkanna að nær alger eining þurfi að ríkja – meðal þeirra sjálfra – til þess að minnstu breytingar séu gerðar á stjórnarskránni; það felur í raun í sér óbeint samkomulag um lægsta samnefnara – og nánast neitunarvald hvers einasta stjórnmálaflokks gegn réttarumbótum.

Eitt lítið dæmi má nefna úr stjórnmálasögunni sem er „eiðrofsmálið“ svonefnda þar sem meint „svik“ stærsta stjórnmálaflokksins (XD) við annan hinna helstu (XB) með því að ganga (gegn meintu loforði) til liðs við hinn þriðja (XA) um breytingar á stjórnarskrárbundinni kjördæmaskipan og þar með atkvæðavægi 1942 leiddi til þess að í a.m.k. á annan áratug var í raun stjórnarkreppa í landinu þar sem tveir fyrrnefndu flokkarnir gátu ekki unnið saman, a.m.k. ekki þáverandi leiðtogar þeirra.

Því er ljóst að fólkið á að ráða stjórnskipan landsins – ekki flokkarnir.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur