Þriðjudagur 19.10.2010 - 23:40 - FB ummæli ()

Líndal staðfestir þörfina

Í gær vék ég að afstöðu læriföður míns, Sigurðar Líndal, til stjórnlagaþings – en lét við það sitja að færa fram jákvæðar röksemdir fyrir stjórnlagaþingi.

Nú vil ég svara hinni neikvæðu afstöðu* Sigurðar, lið fyrir lið – ómálefnalegum röksemdum sem málefnalegum. Sigurður á ekki annað skilið frá mér en að ég svari honum málefnalega eftir mætti enda ber ég mikla virðingu fyrir honum sem læriföður – sem auk þess hefur oft veitt mér góð ráð, fyrr og síðar.

Prófessor Sigurður Líndal er hins vegar ekki alvitur.

Eigum við að ræð’etta eitthvað?

Sigurður segir orðrétt:

Æ, mér líst nú ekkert alltof vel á það. Sko; mér finnst mjög margt vanta í þennan leik, allan. Sko; í fyrsta lagi finnst mér einhvern veginn ekki liggja alveg ljóst fyrir hvað er það í stjórnarskránni sem raunverulega þarf að breyta – er virkilega aðkallandi að breytt sé? Það finnst mér einhvern veginn ekki liggja ljóst fyrir.

Til eru a.m.k. 500 svör við því – ekki öll eins og ekki aðeins úr HÍ eða MR. Ég hef mína afstöðu og kynni hana hér á Eyjublogginu þessa dagana daglega – undanfarið og framvegis; sönnunarbyrðin fyrir því að engu þurfi að breyta í stjórnskipan landsins er nú íhaldsins – eftir efnahagshrun og áratuga árangurslausar tilraunir til að gera jafnvel aðeins smávægilegar breytingar á stjórnskipun landsins (en undir það falla vitaskuld ekki smávægilegar lagfæringar á kosningareglum og kjördæmaskipan eða nútímavæðing mannréttindakaflans eftir 120 ára kyrrstöðu 1995, sbr. pistil í gær).

Alþingi mistókst – nú er komið að stjórnlagaþingi

Stærsta tilefnið til þess að endurskoða stjórnskipan landsins – á stjórnlagaþingi – er að mínu mati eru eftirfarandi:

  • Efnahagshrun varð hér fyrir tveimur árum; þarf frekari vitnanna við? Ég tel augljóst orsakarsamhengi milli hrunsins og þess stjórnarfyrirkomulags sem leyfði nær alræði forystumanna ríkisstjórnar og alltof gott aðgengi sterkra aðila að stefnumótun.
  • Alþingi hefur áratugum saman mistekist að standa undir eigin væntingum og kjósenda um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar – sem að stofni til er frá 1874.

Þess vegna legg ég mesta áherslu á að auka þurfi valdajafnvægi (e. balance of power)  eins og ég mun rökstyðja betur – og hef ákveðna hugmynd um það en er opinn fyrir ýmsum.

Sigurður sannar að þörf er á aðhaldi gegn valdhöfum

Þá segir Sigurður:

Ég hef nú víst sagt það áður – að hvernig væri að byrja á að fara eftir stjórnarskránni – og síðan að sjá hvað er að?

Það útilokar ekki stjórnlagaþing að framvegis eigi íslensk stjórnvöld að fara eftir stjórnarskrá í ríkari mæli en gert hefur verið – og stjórnlagaumbætur eru öðru fremur fallnar til þess að tryggja framfylgni við gildandi stjórnlög; hitt blasir við í þessum ummælum Sigurðar að hann viðurkennir með þeim stærsta vandann að mínu mati – og aðaltilefnið fyrir stjórnlagaþingi og stjórnarskrárbreytingum; reglurnar eru ekki að virka – aðhald vantar, sbr. framangreinda aðaláherslu mína um á valdajafnvægi (e. balance of power).

Sigurður sýnir fram á að óbreytt fyrirkomulag gengur ekki

Enn fremur segir Sigurður Líndal:

T.d. eins og það er talað um samruna löggjafarvalds og framkvæmdarvalds; það stendur í stjórnarskránni að ráðherra beri ábyrgð fyrir þinginu – og af hverju er þessu ekki bara framfylgt? Þó að meirihluti þings styðji ráðherra þá er ekki þar með sagt að hann geti sleppt þeim lausum.

Aftur sannar Sigurður með ummælum sínum þörf og tilgang stjórnlagaþings; hann er manna fróðastur um stjórnskipulega venju – sem kann í sumum tilvikum að hafa myndast um þá ósiði sem hann staðfestir öðrum þræði og flestir sjá. Jafnvel þó að ströng skilyrði stjórnskipulegrar venju séu e.t.v. ekki uppfyllt er ljóst að stjórnmálaleg hefð er honum ekki að skapi fremur en meginþorra þjóðarinnar.

Sigurður Líndal talaði í lagakennslu gjarnan um ósiði (l. abusus) og ólög; stjórnlagaþing getur lagfært þetta og afnumið – helst með hans hjálp. Þá sér Sigurður væntanlega í hendi sér að óbreytt fyrirkomulag þingræðis felur í sér ónógt aðhald með handhöfum framkvæmdarvalds. Það liðu 106 ár þar til lagalegri ráðherraábyrgð var beitt fyrsta sinni og þurfti efnahagshrun til – og einn rótgrónasti stjórnmálaflokkur landsins og stjórnarflokkur til áratuga lagðist þversum gegn (eins og gegn stjórnlagaþinginu); aðeins oddvitann náðist með herkjum að kæra fyrir Landsdómi um daginn.

Þá hefur sárasjaldan í 106 ára sögu innlenndra ráðherra komið til pólitískrar ráðherraábyrgðar eins og ég hef skrifað um – bæði í dagblað og fræðibækur.

Hvað þurfum við langan tíma – 136 ár, 66 ár eða 2 ár?

Loks svarar Sigurður Morgunblaðinu:

Nú; í öðru lagi þá held ég að þetta hefði þurfti miklu lengri aðdraganda og betri undirbúning. Það er nú svo sem búið að segja þetta áður. Þ.e.a.s. ég hefði talið gott að taka svona eitt ár í umræðu – svona fræðilega umræðu, þar sem hinir bestu menn – og almenningur, eftir atvikum – getur þá komið sér niður á svona eitthvað hvað það sé sem þurfi helst að gera.

Um þetta vil ég segja að 2 ár eru liðin frá hruni – og enn er hálft ár í stjórnlagaþing, sem hefur lengi staðið til að halda.

Aðeins um 7 vikum eftir efnahagshrun lagði ég til í lýðræðisnefnd í mínum stjórnmálaflokki, Framsóknarflokknum, að boðað skyldi til stjórnlagaþings; þetta var hinn 28. nóvember 2008. Hugmyndin – sem var rökstudd með sögulegum hætti með vísan til óvenjulegra aðstæðna – fékk afar góðar viðtökur og var mér falið að setja hana á blað, sem ég gerði á fullveldisdaginn, 1. desember 2008. Eftir þessar góðu viðtöku grasrótarinnar gerðust hlutirnir hratt í desember og í byrjun janúar 2009 skrifaði formaður lýðræðisnefndarinnar, Jón Kristjánsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, grein í Fréttablaðið um tillöguna – sem samþykkt var á flokksþingi um miðjan janúar 2009. Þetta var aðeins 6 vikum eftir að hugmyndin vaknaði fyrir tilviljun í einni af stofnunum flokksins. Nokkrum dögum síðar – í miðri „búsáhaldabyltingu“ (um 20. janúar 2009) var mér falið að semja frumvarp um málið sem ég gerði á fáum sólarhringum. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í byrjun febrúar.

Eftir skipun nýrrar ríkisstjórnar með stuðningi flokksins var ég (í stað þess að þingið tæki umrætt frumvarp til meðferðar) skipaður í nefnd á vegum forsætisráðherra til þess að semja frumvarp um stjórnlagaþing – að nýju – ásamt nokkrum efnisákvæðum sem ríkisstjórn taldi rétt að leggja fram, þrátt fyrir að það færi að mínu mati í bága við hugmyndina um sjálfstætt stjórnlagaþing.

Eindagi runninn upp

Síðan hefur almenningur krafist umbóta – bæði með röksemdum og öðrum hætti! M.ö.o. hefur opinber umræða um stjórnlagaþing og nauðsyn sjálfstæðrar endurskoðunar á stjórnarskrá landsins staðið í nær 2 ár, a.m.k. frá miðjum janúar 2009; það að akademísk forysta – eða „elíta“ – hafi verið sein að taka við sér í þeirri umræðu – og beinlínis lagst gegn henni framan af, eins og ég hef mörg dæmi um, og síðan viljað stjórna henni eða „bíða betri tíma“ eru ekki rök í málinu – eins og ég tel mig hafa sýnt fram á í pistli mínum í gær um svikin loforð um heildarendurskoðun; við erum búin að bíða í 136 ár eða 66 ár eftir endurskoðun, eftir því hvernig litið er á málin. Það var gjalddaginn.

Eindaginn rann hins vegar upp fyrir tveimur árum.

Loks segir Sigurður:

Síðan tel ég í þriðja lagi ákaflega nauðsynlegt að, við skulum segja, einhverjir góðir menn – ég hef svona stundum talað um svona 10-15 stjórnspekingar – mundu móta tillögur eða hugmyndir, svona skilgreina hugmyndir, afmarkað, og eða jafnvel gera tillögur um stjórnarskrá; og síðan þegar þetta lægi fyrir þá væri boðað til stjórnlagaþings.

Ekki held ég að eyða þurfi mörgum orðum í þessa ólýðræðislegu afstöðu; hugsið ykkur ef Frakkakonungur hefði sagt eitthvað álíka þegar borgararnir kröfðust umbóta í aðdraganda stjórnarbyltingar 1789 og mannréttindavæðingar í kjölfar ólgunnar! Lýðurinn kemur svo og staðfestir afmarkaðar hugmyndir stjórnspekinga konungs í tillögu að stjórnarskrá. Mér verður hugsað til Norður-Kóreu – þó að ég viti að minn mæti lærifaðir fyrirlíti einræðið sem mér finnst hann þarna í raun gefa undir fótinn – eða í besta falli fámennisræði.

„Þrefarar og þrasarar“

Um svar Sigurðar undir lokin reyni ég að fara vægum orðum – og birti aðeins í ómálefnalegum stikkorðum – enda var hann spurður hvort hann óttaðist hvort væntanleg stjórnarskrá yrði pólitískt bitbein:

Ég óttast mest að þetta verði kannski einhverjir svona þrefarar og þrasarar – sem taki yfirhöndina og þetta verði svona einhvern veginn um allt og ekkert.

Eru þeir, sem kjörnir eru af þjóðinni – en ósamþykktir af flokkunum og flagga ekki skírteini af Melunum og helst úr MR – sem sagt bara þrefarar og þrasarar? Getum við ekki treyst þeim sjálfum að skilgreina verkið og ljúka því – a.m.k. að óreyndu, svo að ekki sé horft til reynslunnar af Alþingi þar sem árangurinn hefur ekki verið mikill við áratugatilraunir við endurbætur á stjórnskipan landsins?

Efnisrök en ekki aldur

Varðandi niðurlagsröksemdir Sigurðar – um að stjórnarskráin sé ekki gömul, ekki dönsk, heldur belgísk og frönsk – og að hún sé betri eftir því sem hún sé styttri og eldri – vísa ég til pistils mín frá í gær en óþarft er að deila um það keisarans skegg við læriföður minn.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur